Svör frá Pírötum
Hvernig ætlar flokkurinn að vernda landið?
Framtíðarsýn Pírata er að Ísland verði í fararbroddi í umhverfismálum. Ábyrg umgengni við náttúruna og sjálfbær nýting auðlinda eru nauðsynleg forgangsmál. Píratar ætla að taka fullt tillit til alþjóðaviðmiða og samninga í umhverfismálum og ætlast til að náttúran njóti vafans.
Einnig er eitt aðal áherslumál Pírata fyrir komandi kosningar að ný stjórnarskrá verði samþykkt þar sem tillögur stjórnlagaráðs sem verði lagðar til grundvallar.
Í 33 grein tillögustjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá stendur:
„Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.”
Píratar vilja að stofnaður verði þjóðgarður á sem nær yfir allt miðhálendið og að tryggt verði fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu og tilheyrandi fræðslu.
Á föstudaginn samþykktu Píratar svo umfangsmikla aðgerðarstefnu í loftlagsmálum en hana má lesa inn á x.piratar.is
Hver er sýn flokksin á starfi og hlutverki landvarða?
Píratar vita að landverðir eru nauðsynlegir þegar kemur að vernd landsins og að eitt sterkasta vopnið til verndunar er uppbyggileg fræðsla.
Hver er stefna flokksins varðandi landvörslu?
Píratar hafa ekki samþykkt sér stefnu um landverði eða landvörslu en landverðir eru nefndir í tveimur stefnum Pírata.
Annarsvegar stefnu Pírata um hálendisþjóðgarð þar sem eftirfarandi stendur um landverði: „Að tryggt verði fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu og tilheyrandi fræðslu.“
Hinsvegar eru landverðir nefndir í ferðamálastefnu Pírata þar sem eftirfarandi kemur fram: „Tryggt verði að ferðamálafræðingum, leiðsögumönnum og landvörðum bjóðist fjölbreytt og fullnægjandi menntun.“
Grunnlaun landvarða eru undir þrjú hundruð þúsund á mánuði, teljið þið að landvarðaréttindin séu metin til launa?
Í stefnu Pírata í velferðar og félagsmálum er samþykkt að lögfesta eigi lágmarksframfærsluviðmið þar sem allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Þingmaður Pírata var svo meðflutningmaður að frumvarpi til laga um lögbindingu lágmarkslauna.
Píratar hafa ekki samþykkt sérstaka stefnu um almenn launamál, fyrir utan að hafa samþykkta jafnréttisstefnu í launamálum.
Píratar vilja athuga hvort tilefni sé til að taka upp skilyrðislausa grunnframfærslu og lagði þingflokkur Pírata fram þingsályktunartillögu þess efnis.