Spurningar til stjórnmálaflokka

Svör frá Vinstri Grænum

Hvernig ætlar flokkurinn að vernda landið?
Í kosningaáherslum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) segir að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu sem öllum beri að virða og vernda. Náttúran á alltaf að njóta vafans og ákvarðanir sem snúast um inngrip í náttúru Íslands verði að taka mið af heildrænni sýn af vistkerfinu öllu sem og jarðminjum þannig að gæðum náttúrunnar verði skilað áfram til komandi kynslóða.
Í þessu samhengi viljum við í VG að gengið verði um náttúruauðlindir landsins af ábyrgum hætti. Það á líka við um þá auðlind sem felst í ósnortinni náttúru. Eitt af stefnumálum VG er að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu og hálendi Vestfjarða. Auk þess þarf að friðlýsa þau svæði sem fallið hafa í verndarflokk samkvæmt rammaáætlun og framkvæmdaráætlun náttúruminjaskrár. Framtíðarsýn VG er að mun stærri svæði landsins og miðhálendið allt verði þjóðgarður og þá líkt því sem við sjáum í þjóðgörðum Bandaríkjanna og Evrópu.
Ljóst er að síaukinn strauur þeirra sem sækja landið heim hefur í för með sér aukið álag á viðkvæma náttúru landsins. VG leggur áherslu á að tekjuöflun af ferðaþjónustu verði fyrst og fremst gegnum markaða tekjustofna af veittri þjónustu, svo sem af gistinátta- og/eða komugjöldum, en ekki af gjaldheimtu á náttúruskoðun. Hið opinbera á að hafa óskorað eignarhald yfir helstu náttúruverndarsvæðum og vinsælum áfangastöðum í náttúru Íslands eftir því sem við verður komið. Við í VG viljum tryggja fólki frjálsan aðgang að náttúruverndarsvæðum og vinsælum áfangastöðum þótt umferð innan þeirra verði stýrt í þágu náttúruverndar. Þar gegna landverðir meginhlutverki.

Hver er sýn flokksins á starfi og hlutverki landvarða?
Landverðir gegna mikilvægu hlutverki í vernd og viðhaldi viðkvæmrar náttúru landsins. Starf þeirra þarf að efla með ráðum og dáð.
Í áherslum og tillögum VG í ferðamálum kemur fram að mikilvægt sé að efla menntun þeirra sem er falið að sjá um þjóðgarða, verndarsvæði og önnur náttúrusvæði sem ferðamenn sækja heim. Nær það m.a. til landvarða og leiðsögumanna. Við í VG viljum fjölga fagmenntuðum störfum í tengslum við leiðsögn og fræðslu, m.a. í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum.

Hver er stefna flokksins varðandi landvörslu?
Stefna VG er afar skýr og skorinort; efla þarf landvörslu, bæði með því að fjölga stöðugildum og heilsársstöðugildum í landvörslu með auknu fjármagni. Þá viljum við í VG skoða gaumgæfilega endurskipulagningu verkefna í landvörslu, svo sem sameiningu þeirra stofnana sem sinna landvörslu í dag og tryggja getu og möguleika sveitarfélaga til þess að ráða landverði.

Grunnlaun landvarða eru undir þrjú hundruð þúsund á mánuði, teljið þið að landvarðaréttindin séu metin til launa?
VG hefur talað fyrir því að allir búi við mannsæmandi kjör og viljum við í því samhengi gera umtalsverða hækkun lægstu launa að forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára. Laun eru eitt og vinnutími annað. Við í VG viljum jafnframt stytta vinnuvikuna því rannsóknir sýna að stytting hennar eykur bæði framleiðni og lífsgæði. Það sama á við um landverði enda starf þeirra eitt það mikilvægasta í vernd náttúru Íslands.