Spurningar til stjórnmálaflokka

Svör frá Samfylkingunni

Hvernig ætlar flokkurinn að vernda landið?

Samfylkingin berst fyrir jöfnum rétti hverrar nýrrar kynslóðar til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og umhverfis. Samfylkingin lítur ekki á umhverfismál og náttúruvernd sem lúxusverkefni sem megi sinna í góðæri þegar friður fæst frá brýnu verkefnunum. Þvert á móti varðar það undirstöðu íslensks samfélags að varðveisla náttúruverðmætanna takist giftusamlega – og það varðar sjálfa framtíð mannkyns að okkur takist að vinna gegn loftslagsvánni. Náttúran er okkur lífsnauðsyn.

Afturhald einkennir stefnu og aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum og náttúruvernd. Á árunum 2007-2013 voru mörg merkileg skref stigin þrátt fyrir hrunið og alkunna erfiðleika. Sitjandi ríkisstjórn hefur nánast stöðvað framþróun og tekið skref aftur á bak í loftslagsmálum, orkuskiptum, rammaáætlun og náttúruverndarlöggjöf. Ráðleysi og flaustur einkennir viðbrögð við hinum brýna vanda sem stóraukinn ferðamannastraumur hefur skapað á mörgum náttúrusvæðum. Svokallaður náttúrupassi gekk gegn almannarétti og virtist fyrst og fremst í hag nýrri forréttindastétt landeigenda. Umhverfisvitund og náttúruverndarsjónarmið eiga sér sterkar rætur meðal almennings og mikilvægar framfarir hafa orðið í einstökum sveitarfélögum á sviði sorpförgunar, endurvinnslu og í skipulagsmálum. Þar ber hæst hið nýja umhverfisvæna aðalskipulag Reykjavíkur og framsækin tillaga að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins alls til ársins 2040.

Við í Samfylkingunni ályktuðum á landsfundi okkar 2015 fyrst stjórnmálaflokka um þjóðgarð á miðhálendinu og gegn olíuvinnslu við Íslandsstrendur. Við leggjum ríka áherslu á að standa vörð um rammaáætlun. Það má lesa meira um umhverfisstefnu Samfylkingarinnar hér:
http://www.samfylking.is/Portals/0/Landsfundur2015_umhverfi_audlindir_LOKA.pdf

Hver er sýn flokksins á starfi og hlutverki landvarða?

Samfylking hefur ekki ályktað sérstaklega um starf og hlutverk landvarða. En ljóst er að þeir gegna mikilvægu hlutverki við verndum friðlýstra svæði.

 

Hver er stefna flokksins varðandi landvörslu?

Mikil fjölgun ferðamanna hefur aukið álag á friðlýst svæði. Gríðarlega mikilvægt að fjármagn fylgi aukinni umferð til að hægt sé að taka vel á móti fólki og verja landsvæði. Við viljum að ferðamenn sem hingað komi borgi meira í sameiginlega sjóði til að standa undir nauðsynlegri uppbygingu. Einfaldasta leiðin og jafnframt sú sem skilar hvað mestum tekjum er afnema undanþágur ferðamanna frá greiðslum virðisuakaskatts vegna gistingar og afþreyingar. Á það leggjum við í Samfylkingunni áherslu.

Grunnlaun landvarða eru undir þrjú hundruð þúsund á mánuði, teljið þið að landvarðaréttindin séu metin til launa?  
Það er forgangsmál Samfylkingarinnra að bæta kjör í landinu og berjast gegn aukinni misskiptingu. Við viljum vinna með verkalýðshreyfingunni að þessum markmiðum og að lágmarkslaun verði 300.000 krónur. Við viljum að menntun sé metin til og taka verður tillit til þess við gerð kjarasamninga.