Spurningar til stjórnmálaflokka

Svör frá Dögun

Almennt finnst þetta í stefnu Dögunar:

Umhverfisstefna Dögunar Dögun er umhverfislega ábyrgur flokkur sem leggur áherslu á sameiginlega langtímahagsmuni í umhverfismálum og landvernd. Stefnumál Dögunar miðast við að náttúran og umhverfið njóti vafans þegar á reynir. 1) Sjálfbær nýting og samkomulag kynslóðanna. Dögun vill sjá víðtækari sátt um umhverfismál þar sem sjálfbærni verði skilyrði nýtingar. Náttúran og auðlindirnar eru dýrmætasta sameign okkar og áætlanir um nýtingu og arðsemi verða að byggjast á langtímahagsmunum í þágu lands og þjóðar. Næstu kynslóðum Íslendinga skuli eftir föngum tryggt heilsusamlegt umhverfi og fjölbreytileika náttúrunnar þannig að lífsgæði þeirra skerðist ekki. 2) Náttúran er fjársjóður. Dögun telur Íslendinga geta lagt mikilvægan skerf til umhverfismála á alþjóðavettvangi með því að vernda landslag sem er einstakt á heimsvísu. Óvíða í heiminum er jafn stórt safn ólíkra náttúrufyrirbæra á jafn litlu svæði og hér á Íslandi. Vernd náttúrunnar varðar því ekki bara okkur sem hér búum heldur heiminn allan. Komandi kynslóðir hljóta auk þess að eiga rétt á að njóta útivistar og náttúruskoðunar líkt og við. Aðdráttarafl Íslands sem eftirsótts ferðamannastaðar er ótvírætt samtvinnað ímynd landsins, óspilltri náttúru þess og víðernum. 3) Ferðaþjónusta til framtíðar. Dögun styður sjálfbæra ferðaþjónustu og umferð ferðafólks og vill að lög og reglur endurspegli það markmið. Um 650 þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland árið 2012 og fjölgaði um 20% á milli ára. Því telur Dögun tímabært að greinin verði skilgreind sem ein af höfuðstoðum atvinnulífsins. Dögun vill setja af stað markvissa áætlun um hvernig bregðast skuli við stórauknum straumi ferðamanna án þess að viðkvæmir staðir skaðist um of. Markmiðið hlýtur að vera að bæði ferðamennirnir og náttúran sleppi ósködduð og að arður skili sér í ríkissjóð. Dögun telur að hinu opinbera beri skylda til að vernda landið. Ferðalög um landið mega ekki valda eyðileggingu lands og óafturkræfu raski. Afar brýnt er að hlúa vel að uppbyggingu í greininni og fjölga vinsælum áningarstöðum. Dögun telur að taka skuli hóflegt gjald af ferðamönnum til að kosta nauðsynlegar mótvægisaðgerðir og bæta þjónustu og aðstöðu víða um land.

Í fyrrnefndum texta og víðar í stefnu Dögunar kemur það skýrt fram að Dögun vill vernda landið. Megin þemað er að náttúran njóti vafans þegar ákvarðanir eru teknar.

Dögun hefur ekki mótað sér stefnu hvað viðkemur spurningu 2 og 3 en ætla má að sú stefna væri hliðholl landvörðum og miðaði að uppbyggingu landvövörslu.

Mtt grunnlauna þá kemur það skýrt fram hjá Dögun að lágmarkslaun í landinu eigi að vera 300 þús krónur eftir skatt sem segir okkur að grunnlaun landvarða séu allt of lág og þar með eru landvarðarréttindi ekki metin að verðleikum.