Landverðir á ferðalagi: Guðmundur Ögmundsson í Yellowstone

cof

Landverðir heimsækja iðulega þjóðgarða og friðlýst svæði á ferðalögum sínum erlendis og í Landverðir á ferðalagi fáum við okkar fjölbreytta og víðförla hóp til að lýsa áhugaverðum stöðum með augum landvarðarins. Ef að þú vilt taka þátt endilega sendur okkur línu á landverdir@landverdir.is

Vísundar á beit í Lamar Valley

Landvörður

Guðmundur Ögmundsson er þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfrum, áður aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli og þar áður landvörður Umhverfisstofnunar á miðhálendinu. Á undanförnum árum hefur hann farið í fjórar ferðir til Bandaríkjanna, m.a. í þeim tilgangi að kynna sér, upplifa og njóta þjóðgarða þar í landi. Í september síðastliðnum heimsótti hann Yellowstone sem líta má á sem fyrsta þjóðgarðinn og fyrirmynd annarra þjóðgarða.

Yellowstone

Castle Geyser

Fyrir alla þá sem hafa áhuga á fyrirbærinu þjóðgarður, þ.e. hvert er hlutverk þeirra og hvernig hefur það þróast í tímans rás, þá er heimsókn í Yellowstone að sumu leyti eins og pílagrímsför til Mekka. Yellowstone er fyrsti þjóðgarðurinn og að baki því bjó fremur nýstárleg hugmynd um að stórkostleg náttúra, bæði fögur og ógnvekjandi, ætti að vera sameign þjóðar en ekki einkaland fárra. Almenningur tók þjóðgarðinum fagnandi og hann naut fljótt mikilla vinsælda; járnbrautir voru lagðar að byggðakjörnum í jaðri þjóðgarðsins og þaðan ferðaðist fólk um hann á hestum og í hestvögnum. Vegir voru lagðir og tjaldbúðir og hótel reist á völdum stöðum innan þjóðgarðsins, 1915 hóf svo einkabíllinn innreið sína í Yellowstone með tilheyrandi sprengingu í gestafjölda.

Yellowstone er hálendi umkringt háum fjöllum, í raun öskjubotn mikils eldfjalls í Wyoming (og að litlum hluta Montana og Idaho). Þökk sé fjöllunum er aðeins hægt keyra inn í þjóðgarðinn á fimm stöðum og heita inngangarnir eftir höfuðáttunum fjórum, auk inngangsins í norðausturhorni þjóðgarðsins. Það er heldur ekki til að auðvelda aðgengi að Yellowstone að sumarið er stutt og veturinn langur og harður. Yellowstone á það sameiginlegt með hálendi Íslands að þar hefur ekki þótt vænlegt til varanlegrar búsetu og til marks um það er aðeins vitað um einn hóp frumbyggja sem hélt þar til allt árið.

Ekið út úr þjóðgarðinum að sunnanverðu

Líkt og fyrr var imprað á var í upphafi mikið gert til að greiða götu ferðamanna að þjóðgarðinum. En innviðauppbygging ein og sér var ekki látin duga heldur voru úlfar, birnir og önnur rándýr talin hættuleg mönnum stráfelld í þeim tilgangi að auka öryggi gesta þjóðgarðsins. Sem betur fer varð þó viðsnúningur á þessu upp úr miðbiki síðustu aldar og í dag verður vistkerfi Yellowstone að teljast nokkuð heilbrigt. Og rétt er að nefna að þrátt fyrir vegi og innviðauppbyggingu á afmörkuðum stöðum þá er stærstur hluti Yellowstone víðerni sem eru lítt snortin af athöfnum mannsins.

Heimsóknin mín

Þó að Yellowstone sé langt í frá aðgengilegasti þjóðgarður Bandaríkjanna þá er hann einn sá vinsælasti með um 5-6 milljónir heimsókna á hverju ári. Það er því vissara að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar ferð þangað er skipulögð og því byrjaði ég á því að panta sjö nætur á tjaldsvæði í þjóðgarðinum með næstum 10 mánaða fyrirvara. Eflaust hefði verið óhætt að panta tjaldstæðið síðar, en reynslan hefur kennt mér að á háannatíma þýðir lítið að mæta á tjaldsvæði á vinsælum stað og halda að maður fái pláss.

Norris Geyser Basin, inngangur á hverasvæði og sýningu

Tjaldsvæðið í Madison Junction varð fyrir valinu því ég vildi tjalda þá nokkuð miðsvæðis og ferðast um þjóðgarðinn út frá því í stað þess að flytja mig á milli tjaldsvæða. Sennilega hefði ég skipt dvölinni á milli tveggja tjaldsvæða hefði ég þekkt svæðið betur, en þetta slapp alveg til. Ólíkt öðrum tjaldsvæðum sem ég hef gist í þjóðgörðum Bandaríkjanna var þetta tjaldsvæði rekið af sérleyfishafa (að undangengnu útboði) en þarna var þó allt líkt því sem maður á að venjast á sambærilegum tjaldsvæðum: afmarkað stæði fyrir tjald og bíl, áningarborð, bjarndýrsheldur matarskápur og eldstæði. Í göngufjarlægð var svo vatnssalerni, vatnshani og uppvöskunarstöð. Tjaldsvæðið samanstóð af nokkrum slaufum (lúppum) og slaufan sem ég var í var fyrir tjöld eingöngu. Það er kostur því maður vill vera laus við suðandi bensínrafstöðvarnar sem yfirleitt fylgja húsbílunum.

Madison campground

Madison Junction er við vesturinngang Yellowstone og fyrir utan tjaldsvæðið er þar aðeins að finna litla landvarðastöð sem ég heimsótti þó ekki. Norris er ekki langt norðan við Madison Junction; þar er einnig tjaldsvæði og stórkostlegt hverasvæði, sem og gömul aflögð landvarðastöð sem er í dag “Museum of the National Park Ranger.” Safnið er ekki stórt, en gaman að skoða það og fá smá innsýn í líf landvarðanna eins og það var áður fyrr.

Museum of NP Ranger
Aðstöðuhús landvarða í West Thumb

Á einum sjö öðrum stöðum eru þjónustumiðstöðvar þar sem má finna gestastofur, matvöru-, minjagripa- og útivistarvöruverslanir, veitingastaði, hótel, skála, tjaldsvæði og fleira í þeim dúr. Sennilega má líkja þessum stærstu svæðum við Geysissvæðið í Haukadal, nema bara í tíunda veldi. Ég heimsótti þrjár gestastofur: í Old Faithful, Mammoth og Canyon, og fannst þær allar áhugaverðar. Það vakti þó athygli mína bæði í Old Faithful og Canyon að ýmislegt af þessu tæknilega var með heimatilbúnum “Out of order” miða og var mjög “hughreystandi” að sjá National Park Service í Bandaríkjunum glíma við sömu vandamál og sömu “lausnir” og við hér heima.

Þökk sé fyrirmyndarhegðun var ég laus við öll afskipti landvarða, en gat þó stundum leitað til þeirra þegar ég vildi vita meira um það sem fyrir augu bar. Ég fór líka í tvær fræðslugöngur með landvörðum sem báðar gengu fyrst og fremst út á að útskýra jarðfræðina á viðkomandi stað. Hvor landvörður um sig gerði það mjög skilmerkilega án þó þess að fara í djúpa náttúrutúlkun. Það gerði hins vegar landvörður í öðrum þjóðgarði sem ég heimsótti síðar í ferðinni, en hann var líka að vinna með efni sem er mögulega auðveldara viðfangs: Vatn.

Landvörður með fræðsludagskrá

Eitt af því sem mér fannst til fyrirmyndar vel gert var hvernig umgengni gagnvart villtum dýrum var brýnd fyrir gestum. Ég kom inn í þjóðgarðinn að norðanverðu og í inngangshliðinu þar fékk ég bækling og tiltal frá landverði sem snérist fyrst og fremst um hegðun gagnvart björnum. Í Mammoth keypti ég svo piparúðabrúsa og fékk þá sýnikennslu í því hvernig ætti að beita honum, og allsstaðar voru skilti sem minntu mann á hættuna og rétta hegðun. Satt best að segja varð ég svo pínu hissa að ferð lokinni þegar ég komst að því að í 150 ára sögu Yellowstone er aðeins sjö þekkt tilfelli þar sem birnir hafa drepið menn. Fjölmargir hafa reyndar slasast en það er alveg klárt mál að forvarnir þjóðgarðsins eru að skila sér.

Ég keypti tvær bækur í Yellowstone sem báðar fjalla um þjóðgarðinn og sögu hans; önnur heitir Wonderlandscape og var mjög góð, hin heitir Death in Yellowstone. Það er í raun alveg ótrúleg lesning og tvímælalaust lærdómsrík fyrir landverði og stjórnendur þjóðgarða. Bókin er nokkurskonar annáll fyrir öll þau tilfelli þar sem fólk hefur látið lífið í Yellowstone, ef frá eru talin tilfelli vegna veikinda eða bílslysa. Gáleysi og vanþekking eru sennilega algengustu orsakir dauðsfalla í Yellowstone en stundum er það bara hreinræktuð heimska eða óheppni. Bókin á það þó til að verða pínu þurr upptalning en engu að síður er óhætt að mæla með henni.

Það má líka mæla með heimsókn í Yellowstone: stórkostleg hverasvæði, magnað dýralíf, einstök saga og síðast en ekki síst þá eru yfirgnæfandi líkur á því að maður komi lifandi heim!