Umhverfisþing fyrri hluti og fundur með Lizzie Watts frá NPS

Meirihluti stjórnar mætti á fróðlegt og skemmtilegt Umhverfisþing 9. nóvember síðastliðin í Reykjavík. Yfirskriftin var ný hugsun í náttúruvernd og þjóðgarður á miðhálendinu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson setti þingið og á eftir fylgdu sérstaklega líflegir fyrirlestrar frá ungu kynslóðinni en Sigurður Jóhann Helgason frá F.Í. var með frábæra og líflega ferðasögu frá Laugaveginum og Anna Ragnarsdóttir Pedersen landvörður ræddi um áhugaverð og mótandi uppvaxtarár í Skaftafelli.

Nigel Dudley ráðgjafi hjá Internatinal Union for Conservation og Nature ræddi um sex verndarflokka IUCN og að land eins og Ísland með mikil víðerni gæti nýtt sér sérstaklega flokk 1b. Wilderness areas. Flokkurinn sé nefnilega sérstaklega hugsaður fyrir víðerni eða villta náttúru með nokkuð ákveðinni verndun til að viðhalda viðkvæmri náttúru og einstöku upplifunargildi víðerna sem að krefst þess að horft sé á stærri svæði sem heild. Einnig ræddi hann um svokallaða 75% reglu sem að leyfir aukna nýtingu á 25% auðlinda innan svæða eins og fyrir ferðaþjónustu, landbúnað, veiði eða annað.

Jukka Siltanen kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar um Efnahagsáhrif friðlýstra svæða. Margt áhugavert kom fram í fyrirlestrinum eins og að 90% starfsfólks friðlýstra svæði starfaði hjá Þingvöllum eða Vatnajökulsþjóðgarði og að landverðir hér á landi væru daglega með um 80-260 gesti á mann. Niðustaðan um efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða var sú að hver króna sem að ríkið setur í friðlýst svæði verður að 23 krónum og af þeim eru 8 krónur sem fara beint í skatta til ríkisins aftur. Það er því óhætt að fullyrða að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða séu gífurleg og góð fjárfesting fyrir ríkið!

Bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson ræddi um áhrif þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á samfélagið á Snæfellsnesi og nýlega var viðtal við Kristinn sem má nálgast HÉR. Ragnhildur Helga Jónsdóttir bóndi og umhverfisfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands var með fyrirlestur um samleið náttúruverndar og landbúnaðar. Hún tók máli sínu til stuðnings dæmi frá Andakíl þar sem heimamenn fylgjast daglega með fuglalífi og breytingum á náttúrunni og búa þar af leiðandi yfir mikilli þekkingu á svæðum sem hægt er að nýta til náttúruverndunar, nýtingar og stýringar ferðamanna.

 

LIzzie Watts er þjóðgarðsvörður yfir þrem svæðum hjá National Parks Service í Bandaríkjunum og ræddi hún um samstarf opinberra og einkaaðila á vernduðum svæðum og NPS í heild. Þjóðgarðastofnun bandaríkjanna er frá 1916 og er undir innanríkisráðuneytinu, stofnunin sér um svokallaða garða eða parks en undir því hugtaki eru um 19 skilgreiningar og ein af þeim er þjóðgarðar. Lizzie ræddi sérstaklega um samstarf við einkaaðlia en NPS gerir samninga við einkaaðila um rekstur á veitingahúsum, gistingu, verslunum og samgöngur. Þessir samningar eru ódýrir fyrir einkaaðilina en gefa NPS kost á að setja meðal annars að setja öryggis- og verndarreglur ásamt fræðsluáherslum sem fyrirtækin verða að fylgja.

Lizzie Watts heimsótti Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgar og Þingvallaþjóðgar og stjórn landvarðafélagsins fundaði einnig með Lizzie og áttum við gott spjall um áskoranir Íslands í náttúruvernd, skilgreiningar á starfi og mikilvægi landvarða. En Lizzie hefur starfað í þjóðgörðum í áratugi og einnig sem lögreglulandvörður og fræðslulandvörður áður en hún varð þjóðgarðsvörður og er því mikill viskubrunnur. Það var sérstaklega ánægjulegt og fróðlegt að eyða tíma með henni og tala um landvörslu á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Á brúnni milli Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans

Hér eru nokkrar myndir frá fundi stjórnar með Lizzie Watts en við nýttum tímann og fórum í bíltúr um Reykjanesið sem bauð upp á kraftmikið veður og fallegt útsýni. Þar hittum við meðal annars á Ástu Davíðsdóttur landvörð hjá UST á Reykjanesi og í Reykjavík. Reykjanesið er einstaklega fallegt svæði og þar er hægt að upplifa atlantshafið og svartar klettafjörur, grimma sögu Geirfuglsins, háhitasvæði, jarðmyndanir, móa, mosa, stríðsárin, virkjanir, verndun, landvörslu og ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt!

Enn má horfa á Umhverfisþingið í heild sinni HÉR

Ásta landvörður og Lizzie ræða málin við Gunnuhver
Lizzie og Þórey Anna stjórnarmeðlimur við Bláa lónið
Ásta landvörður, Lizzie og Stefanía formaður landvarðafélagsins við Brimketil þar sem við dáðumst að útsýninu og efninu í útsýnispallinum sem virtist vera mjög stamt og ætti því að virka vel í sjó og frosti!