Fréttatilkynning

18. mars 2021

Fréttatilkynning

– Landverðir skora á Alþingi að ljúka við stofnun Hálendisþjóðgarðs

Í gærkvöld lauk aðalfundi Landvarðafélags Íslands þar sem eftirfarandi ályktun var samþykkt:.

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands lýsir yfir stuðningi við stofnun  Hálendisþjóðgarðs og skorar á Alþingi að ljúka málinu fljótt og vel. Stofnun Hálendisþjóðgarðs mun ekki aðeins efla náttúruvernd á Ísland, heldur einnig verða mikilvægur hluti af viðspyrnu atvinnulífs að loknum heimsfaraldri. Með garðinum skapast tækifæri til þess að byggja upp ferðaþjónustu í meiri sátt við náttúru og umhverfi á sama tíma og garðurinn fjölgar störfum um land allt.

Landvarðafélag Íslands hvetur Alþingi til þess að gera ráðningu landvarða í Hálendisþjóðgarði og á öðrum friðlýstum svæðum óháða sértekjum. Óvissa um ráðningu landvarða vegna sértekna grefur undan náttúruvernd, mannauði friðlýstra svæða og þeirri sérþekkingu sem landverðir afla sér.

Stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði mikil framför fyrir náttúruvernd á Íslandi og mun stofnun þjóðgarðsins auka skilvirkni í allri vinnu við náttúruvernd, með sameiningu friðlýstra svæða á hálendinu og aukinni samvinnu landvarða. Hálendisþjóðgarður mun stuðla að nýtingu náttúrunnar á sjálfbæran hátt en á sama tíma tryggja að komandi kynslóðir geti notið þeirra töfra sem hálendi Íslands býr yfir um ókomna tíð.

Þá var kosið til stjórnar og er nýr formaður Landvarðafélags Íslands Nína Aradóttir landvörður í friðlandi að Fjallabaki. Ásamt Nínu er ný stjórn skipuð: Hrafnhildi Völu Friðriksdóttur, Rakel Önnu Boulter, Guðrúnu Tryggvadóttur og Þórhalli Jóhannssyni. Varamenn eru þau: Benedikt Traustason og Eyrún Þóra Guðmundsdóttir.

Fyrir hönd landvarðafélagsins,
Nína Aradóttir
6614748