Sumar fréttabréf

Gleðilegt síðsumar kæru félagar!

Nú er landvarslan komin á fullt skrið um allt land og fjöldinn allur af  innlendum og erlendum gestum á ferð. Við vonum að sumarið hafi farið vel af stað á öllum starfsstöðvum og að ferðamennirnir séu jafn glaðir og kýrnar á vorin.
En við erum með nokkur atriði sem við viljum koma á framfæri við ykkur: 

Stofnanasamningur

Þær fréttir höfum við að færa af stofnanasamningnum að hann er ekki í höfn þrátt fyrir mikla vinnu, fundahöld og samræður milli málsaðila. Nokkur atriði standa í kúnni og er þar um mikilvæg hagsmunamál fyrir okkur landverði að ræða, réttindi sem við munum ekki gefa eftir. Við munum segja ykkur ítarlega frá málum þegar niðurstöður liggja fyrir en mál eins og innheimting leigugjalds fyrir húsnæði á vinnustað og skerðing ferðakostnaðar- og tíma eru erfiðustu málin og sem ekki verður samið um að sinni. Mikilvægt er að við verjum okkar réttindi og það munum við halda áfram að gera.

Trúnaðarmenn

Við höfum átt í samtali við stéttarfélög og verkalýðsfélög sem landverðir eru félagar í til að fara yfir trúnaðarmannarmál landvarða en þau hafa ekki verið í nógu góðum málum hingað til. Þar sem við erum í mismunandi félögum og undir mismunandi stofnunum er þetta nokkuð flókin staða en sem við viljum reyna að einfalda eins og hægt er. Það náðist hins vegar ekki að kjósa trúnaðarmenn á öllum starfstöðvum fyrir sumarið. Á þeim stöðvum mun stéttar/verkalýðsfélagið sinna hlutverki staðgengils trúnaðarmanns þar til að lögleg kosning trúnaðarmanns getur átt sér stað.

Á eftirtöldum starfsstöðvum hafa trúnaðarmenn verið kosnir:

Ásbyrgi – Rakel Anna Boulter rakelboulter@gmail.com

Vesturland, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökli, Sunnanverðir Vestfirðir, Hornstrandir – Guðmundur Jensson (gudmundurj@ust.is)

Skaftafell – Maríanna Óskarsdóttir (marianna.oskarsdottir@vjp.is) 

Við hvetjum ykkur því til að kynna ykkur hvaða félagi þið tilheyrið og hvaða réttindi fylgja félagsaðild. Ýmis fríðindi fylgja því að vera í stéttarfélagi og sem vert er að nýta sér. Einnig minnum við á að landshlutar skipta hér máli og falla landverðir með sama vinnuveitanda því oft undir sitt hvort félagið. Þegar landvörður flyst milli starfsstöðva geta sum réttindi þó flust með, frá einu félagi til annars, svo ekki gleyma að kynna ykkur það.  

Dagbók landvarða

Okkur hefur ekki tekist nógu vel að halda dagbókinni góðu á flakki um landið sl. sumur en í ár ætlum við að gera tilraun og hafa hana í rafrænu formi. Við munum hafa samband við hverja starfsstöð og útskýra þetta nánar og síðan í haust getum við deilt henni með öllum félagsmönnum. Við vonum að þið takið vel í þetta nýja fyrirkomulag og að þetta takist vel. 

Samfélagsmiðlar

Eins og síðastliðið sumar ætlum við að láta instagram reikninginn okkar flakka á milli starfsstöðva til að veita fólki innsýn inn í fjölbreytt störf landvarða. Við hvetjum því alla til að fylgjast með og taka þátt frá sinni starfsstöð. 

Einnig hvetjum við landverði til að nota myllumerkið #landverdir til að sýna fjölbreytt störf landvarða. Eins og flestir landverðir þekkja of vel þá geta myndir á samfélagsmiðlum haft mikil áhrif á þróun svæða. Reynum að snúa þessu okkur í hag og nýta tækifærið og láta fylgja t.d. góðan boðskap um umgengni eða áhugaverðan fróðleik með færslum.

Haustferð 2021 

Vegna covid þurftum við að hætta við haustferðina okkur í fyrra en við stefnum á að halda þeim mun veglegri haustferð í ár, þ.e.a.s. ef þessi fjórða bylgja kemur ekki einnig í veg fyrir ferðina í ár. Við stefnum á að fara 2. – 3. október og að heimsækja Þjórsárdalinn sem er nýlega friðlýst náttúruperla og fræðast um svæðið. Nánari upplýsingar um ferðina sendum við ykkur seinna í sumar. 

Bestu kveðjur,

Stjórn Landvarðafélags Íslands