Haust fréttabréf

Kæru landverðir.

Til hamingju með dag íslenskrar náttúru sem var í gær þ. 16. september en forsagan er sú að árið 2010 ákvað ríkisstjórnin að til að undirstrika mikilvægi náttúrunnar skildi henni vera tileinkaður sérstakur heiðursdagur. Dagurinn sem varð fyrir valinu er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur Ómar verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins. 

Í tilefni dagsins fékk félagið boð í viðtal hjá Samfélaginu á rás1 og gátu Nína og Rakel mætt  fyrir okkar hönd en í viðtalinu lögðu þær sérstaka áherslu á fræðsluhlutverk okkar landvarða. Heyra má viðtalið hér: https://www.ruv.is/utvarp/spila/samfelagid/23617/7hl5m9.

Dagbók landvarða

Í sumar ákváðum við að endurvekja dagbókina góðu, en hún hefur átt nokkuð erfitt með ferðalög undanfarið. Til að auðvelda henni ferðalögin ákváðum því að færa hana í rafrænan búning í ár. Rafdagbókin okkar komst í form og er komin á kreik en ekki náðist að ljúka við færslur í hana á öllum svæðum áður en þið lesið þetta bréf. Ef þið sjáið að það eigi eftir að skrifa fyrir ykkar svæði þá sendið okkur endilega línu og við bætum úr því. Þessi dagbók getur orðið skemmtileg heimild þegar frá líður og leið til að fylgjast með þróun starfa okkar landvarða og vonumst við því til að geta haldið henni lifandi. Hér er tengill á dagbókina, njótið 🙂

https://sites.google.com/view/landverdir2021/home?authuser=2

Félagsgjöldin

Á næstu dögum kemur innheimtutilkynning fyrir félagsgjöldin í heimabankann ykkar og vonumst við til að sjá ykkur öll áfram í félaginu. Félagsgjöldin eru óbreytt frá fyrri árum, aðeins 2.500 kr. Við minnum á að félagar njóta m.a. afslátta sem lesa má nánar um hérna: https://landverdir.is/um-felagid/afslaettir/

Haustdagskrá

Við stefnum á að halda úti skemmtilegri og fróðlegri dagskrá í haust, enda kominn tími til að landverðir geti hist í raunheimum og gert sér glaðan dag. 

  • Fyrst má nefna haustferðina í Þjórsárdal, 9.-10. október. Nánari upplýsingar komu í tölvupósti frá okkur fyrir stuttu og inn á facebook (https://www.facebook.com/events/586194939228754). Vonumst við til að sjá sem flesta í ferðinni og lofum mikilli skemmtun og fræðslu og verður kostnaði haldið í algeru lágmarki. 
  • Við ætlum að byrja aftur með fræðslugöngurnar okkar á friðlýstum svæðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en vegna covid höfum við haldið þær óreglulega sl. 2 ár. Við erum hins vegar bjartsýn á að geta farið af stað með þær aftur í vetur og sendum frá okkur frekari upplýsingar þegar þar að kemur.
  • Kjaramálin eru okkur ennþá ofarlega í huga, þ.e. endanlegur frágangur Stofnanasamningsins sem fór í hnút í vor eins og kunnugt er. Við vonum að hægt verði að taka upp þráðinn sem fyrst en það veltur ekki eingöngu á okkur. Við munum upplýsa ykkur um gang mála og köllum saman kjarafund félagsmeðlima ef okkur finnst það þurfa. 
  • Fleiri viðburðir eru á dagskrá í vetur eins og pubquiz, fræðslukvöld um umhirðu og akstur breyttra bíla o.fl. og hlökkum við til að geta sagt nánar frá þeim.

Annars hlökkum við bara til að sjá ykkur sem flest og oftast í vetur. 

Kær kveðja,

Stjórnin