Stjórnarfundur 5. okt. 2004 kl. 20:30 (5. fundur)

Fundarstaður: Suðurgata 16, Hafnarfirði. 
Mætt: Áki Jónsson, Dagmar Sævaldsdóttir, Dagný Indriðadóttir, Kristín Guðnadóttir og Sveinn Klausen. Elísabet Kristjánsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir boðuðu forföll.

Formleg dagskrá lá ekki fyrir fundinum. Farið var yfir fundargerð síðasta fundar og helstu dagskráratriði hans rædd frekar. Eftirtalin mál bar hæst:

  1. Menntamál landvarða, sbr. síðasta fund. Formaður skýrði frá því að nokkrir landverðir hefðu komið saman til að fjalla um menntamál, en þeir voru Friðrik D. Arnarson, Glóey Finnsdóttir, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir og Kristín Guðnadóttir. Tildrög þess að hópurinn kom saman var beiðni Árna Bragasonar hjá UST um að landverðir legðu fram tillögur um hvar nám í landvörslu ætti að fara fram. Niðurstaða umræðnanna var sú að ekki væri tímabært að velja menntastofnun fyrir nám í landvörslu fyrr en námið hefur verið endurskoðað, en núverandi námskrá er að stofni til frá árinu 1984. Þá kom einnig fram að afar mikilvægt er að landverðir haldi áfram að kenna allt á þessum námskeiðum sem þeir geta kennt, því reynslan hefur sýnt að erfitt er að miðla til verðandi landvarða á námskeiðunum nema þekkja vel til starfsins. Lagt var til við UST að stofnað yrði nokkurs konar fræðsluráð, með fulltrúum frá UST, Þingvallaþjóðgarði og Landvarðafélagi, þar sem tillögur að nýrri námskrá í grunnmenntun og símenntun landvarða yrðu mótaðar.
  2. Fundur með nýjum umhverfisráðherra, sbr. síðasta fund. Enn hefur ekki tekist að fá umræddan fund en formaður vinnur að því áfram. Samþykkt að bæta einu atriði á lista yfir umræðuefni með ráðherra: Fyrirspurn um hvort ráðuneytið telji ekki eðlilegt og nauðsynlegt að gerðar séu kröfur um að rekstraraðilar í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum framfylgi ákveðinni umhverfisstefnu.
  3. Landvarðaþing, sbr síðasta fund. Dagný lagði til að næsta þing yrði helgað kennslu og þjálfun í náttúrutúlkun/umhverfistúlkun, fremur en bílaviðgerðum og verklegri kunnáttu annars konar. Rökstuðningur: Sérhæfð verkþekking getur vissulega komið sér vel, en sé hún talin skilyrði fyrir starfi á tilteknum svæðum hlýtur það að vera á ábyrgð vinnuveitandans að veita viðeigandi þjálfun. Kjarni landvarðastarfsins liggur hins vegar annars staðar, í vörslu og hvetjandi fræðslu. Þar er umhverfistúlkun sterkasta vopnið. Fundarmenn voru, út frá eigin reynslu, sammála um að full þörf væri á dýpri skilningi hins almenna landvarðar á aðferðum umhverfistúlkunar og því ástæða til að huga að endurmenntun. Námskeið á landvarðaþingi mætti t.d. byggja á fyrirlestrum, hópastarfi og vettvangsferð með túlkun.
  4. Töðugjöld UST og hautsfagnaður. Töðugjöld standa fyrir dyrum. Útfærslan í fyrra mæltist ekki vel fyrir en undirbúningurinn í ár gefur tilefni til bjartsýni um að nú takist betur til. Stjórn L.Í. er boðið að vera viðstödd töðugjöldin. Stefnt er að því að halda haustfagnað félagsins í tengslum við töðugjöldin, en ómótstæðilegt tilboð um ókeypis samkomustað hefur borist stjórn eftir óformlegum leiðum. Skemmtinefnd annast undirbúning og framkvæmd.
  5. Stefnuleysi UST í landvörslumálum. Fundarmenn lýstu áhyggjum yfir því stefnu- og metnaðarleysi sem virðist ríkja hvað varðar ráðningar landvarða. Þetta lýsir sér m.a. í bagalegri undirmönnun sumar eftir sumar á Mývatnssvæðinu. Í Skaftafelli hefur orðið varasöm þróun, en þar voru sl. sumar mun fleiri starfsmenn í gestastofu en þeir sem ráðnir voru til beinnar landvörslu. Ljóst er að þetta hlýtur að koma niður á eftirliti með svæðinu, sem og skipulegri fræðslu og gönguferðum. Þessi þróun getur tæpast talist vænleg út frá náttúruverndarsjónarmiði.
  6. Ný starfstækifæri og hugmynd að kynningarátaki fyrir landverði. Rædd var fyrirhuguð stækkun Skaftafellsþjóðgarðs og áætlanir um fastráðningu tveggja landvarða í tengslum við hana. Þessum áætlunum ber að fagna. Einnig var rætt um þörfina á landvörlsu í og við þéttbýli. Heiðmörk og Esjusvæðið voru nefnd sem dæmi. Út frá þeim vangaveltum varpaði Dagný fram hugmynd um að landverðir geri sig sýnilega á svonefndum Esjudegi, verði á ákveðnum stöðum í fjallinu og bjóði þeim göngumenn sem það vilja fræðslu. Landverðir kynni þannig starf sitt og hlutverk.
  7. Umsóknir um inngöngu í félagið. Fundarmenn voru sammála um þá túlkun að þeir sem starfað hafa sem verkamenn í þjóðgörðum geti almennt ekki talist uppfylla inngönguskilyrði í c-lið 4. gr. í lögum félagsins, þar sem kveðið er á um „landvörslutengd störf“. Nýlegar umsóknir verða teknar til meðferðar í þessu ljósi.
  8. Fánamál. Fánamálið 2003 kom til umræðu. Ljóst er að tveir landverðir telja ómaklega að mannorði sínu og starfsheiðri vegið og eru afar ósáttir við málsmeðferð UST.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 22:30.
Ritari: Sveinn