Stjórnarfundur 19. jan. 2005 kl. 20:30 (7. fundur)

Fundarstaður: Suðurgata 16, Hafnarfirði. 
Mætt: Kristín Guðnadóttir, Sveinn Klausen, Áki Jónsson, Elísabet Kristjánsdóttir og Dagmar Sævaldsdóttir.

Dagskrá og umræður:

  1. Tekin var fyrir og rædd ferð fjögurra landvarða á ráðstefnu í Noregi 16. – 18. febrúar nk. Ef ekki fæst nægur styrkur var samþykkt að einungis einn landvörður fari og mun félagið þá styrkja viðkomandi um 40.000. Stjórnin tilnefnir Hönnu Kötu til þessarar ferðar.
  2. Rætt um landvarðaþing og aðalfund sem verður haldinn í tengslum við þingið. Stefnt að þinghaldi dagana 8. – 9. apríl nk. Ítrekað að þörf er á fræðslu um náttúrutúlkun og nauðsynlegt að fá einhvern góðan fyrirlesara, jafnvel fleiri en einn, fyrir þingið. Hvað aðalfundinn varðar upplýstu Kristín, Sveinn og Elísabet að þau gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
  3. Fundur með umhverfisráðherra. Stjórnin vonast til að fundur fáist með Sigríði Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra, í lok janúarmánaðar.
  4. Stjórni telur rétt að koma á umhverfis- og náttúruverndarnefnd á næsta aðalfundi til að marka og fylgja eftir stefnu landvarða í náttúruverndarmálum.
  5. Inntaka nýrra félaga. Senda á nokkrum áhugasömum aðilum bréf og bjóða þeim að leggja inn formlega umsókn þar sem fram kemur reynsla þeirra af landvörslu og fleira. Sveinn sér um þennan lið.
  6. Rætt um þátttöku L.Í. í Ísland örum skorið. Ákveðið að styðja kynningu á kortinu/ástandinu með einni skjáauglýsingu og einni útvarpsauglýsingu. Kristín ræðir um framhaldið í því máli við Hönnu Kötu.
  7. Rætt um nauðsyn þess að UST standi við áætlaða ráðningardaga fyrir sumarið 2005. Rætt og ákveðið að senda UST strax bréf og óska svara frá Davíð Egilssyni, Árna Bragasyni, Ragnari Frank og Sigþrúði Stellu um fækkun landvarða í Skaftafelli og á Mývatni þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Einnig hver stefna UST er í landvörslu. Hvernig verður þessu svo háttað næsta sumar?
  8. Messufall varð á jólaglögginu því einungis tveir mættu og ekki er kunnugt um neinar myndatökur frá þeirri skemmtan.
  9. Kanna á hvort ekki sé hægt að hafa myndakvöld fyrir vorið.
  10. Talað var um að námskeið sem boðið er upp á í Leiðsöguskólanum í Kópavogi henta ekki öll landvörðum.

Fleira var ekki rætt.
Ritari: Dagmar Sævaldsdóttir