Fundarstaður: Lynghagi 4, Reykjavík.
Mættir: Elísabet Kristjánsdóttir, Kristín Guðnadóttir og Sveinn Klausen.
Dagskrá fundarins og umræður:
- Félagsdeyfð, hvað er til ráða? Hvers vegna taka félagsmenn ekki þátt í viðburðum félagsins sbr. haustferðina, sem fella þurfti niður?
Umræðan hófst á haustferðinni, hvað veldur lélegri þátttöku? Með hvaða hætti er hægt að efla áhugann á viðburðum félagsins almennt? Þessi umræða var tekin fyrir á síðasta aðalfundi og enn veltum við þessu fyrir okkur. Það getur verið margt sem veldur, það getur legið hjá stjórninni eða hjá félögum sjálfum eða hvort tveggja. Í þetta sinn létum við okkur nægja að koma fram með tvær leiðir sem okkur langar að athuga hvort beri árangur til að efla áhuga félagsmanna:- Reynt verði fyrir næsta atburð að hafa samband við tengilið frá hverju landvörslusvæði og ýta þannig undir meiri þátttöku.
- Reynt verði að gera næstu ferð á vegum félagsins áhugaverðari, t.d. með því að hafa skipulagðari fræðslu með tilheyrandi fræðara eða leiðsögumanni.
- Næstu atburðir á vegum Landvarðafélagsins:
- Haustferðin féll niður en það þýðir lítið að leggja árar í bát. Næsti viðburður hvað félagið snertir er væntanlega „Töðugjöldin“, sem haldin eru á hverju ári af UST. Skemmtinefndin vill nýta tækifærið þar sem svo margir félagar verða samankomnir og blása til vetrargleði að þeim loknum. Staður og stund verða ákveðin síðar en líklegt er að töðugjöldin fari fram í nóvember.
- Desember er tími JÓLAGLÖGGS. Ákveðin var dagsetningin 20. desember, sem er laugardagur. Hugmyndir eru uppi um húsnæði fyrir gleðina og verður það kannað hið fyrsta. Aðgangseyri verður stillt í hóf en hugmyndin er sú að hann verði helmingi lægri fyrir skuldlausa félagsmenn en aðra. Að sjálfsögðu verða starfsmenn UST, Þingvallastarfsmenn og nýir landverðir sérstaklega hvattir til að mæta.
- Fjárhagsstaða félagsins og innheimta félagsgjalda:
- Gjaldkeri gerði grein fyrir fjárhagsstöðunni. Að frátöldum styrk Umhverfisráðuneytisins, upp á kr. 300.000, eru sjóðir félagsins ekki digrir, eða um kr. 40.000 þegar eldri skuldir hafa verið gerðar upp.
- Um 85 félagar hafa nú greitt félagsgjöldin fyrir 2003 en tæplega 40 eiga þau enn ógreidd. Nokkur hefur fækkað í röðum félagsmanna að undanförnu og áhyggjuefni er hversu fáir sóttu nýafstaðið landvarðanámskeið. Ákveðið var að bjóða nýútskrifuðum landvörðum þegar inngöngu í félagið og einnig þeim sem útskrifast hafa undanfarin ár frá ferðamálabraut Hólaskóla og umhverfisbraut Garðyrkjuskóla ríkisins.
- Ráðstöfun styrks frá Umhverfisráðuneytinu, sbr. síðustu fundargerð.
Nokkuð er um liðið síðan styrknum var úthlutað og tími til kominn eftir nokkrar vangaveltur og ýmsar hugmyndir að hann verði notaður á skynsamlegan hátt, þannig að það komi landvörðum að gagni um leið og jákvæð mynd skapast af störfum landvarða.
Sú hugmynd sem stjórninni hefur litist best á hingað til er enn í mótun og verður unnið að frekari undirbúningi fyrst um sinn, en síðan verður hugmyndin kynnt landvörðum sem fyrst ef mögulegt reynist að framkvæma hana. - Önnur mál.
Rædd hugmynd um að kynna landverði og störf þeirra í fjölmiðlum, t.d. í þáttum eins og Kastljósinu, Ísland í bítið eða álíka þáttum. Ágæt hugmynd að hrinda í framkvæmd þegar nær dregur sumri.
Fleira ekki gert og fundi slitið.
Ritari: Elísabet