Jólafundur stjórnar 2. desember 2003 (7. fundur)

Fundarstaður: Stigahlíð 10, Reykjavík. 
Mættir: Elísabet Kristjánsdóttir, Kristín Guðnadóttir, Sólveig María Kjartansdóttir, Steinunn Hannesdóttir og Sveinn Klausen.  Áki Jónsson trúnaðarmaður var gestur fundarins.

Dagskrá fundarins og umræður:

 1. Jólaglögg
  Hanna Kata og Guðrún buðust til að halda jólaglöggið og allir stjórnarmenn hæstánægðir með það. Þær búa að Tómasarhaga 40. Rætt var hvort heppilegt væri að hafa myndakvöld á undan jólaglögginu og verður það rætt við þær sem halda samkvæmið. Allir sáttir við að láta glöggið byrja kl. 21:00.

  Aðgangseyrir: Miðað við þær veitingar sem fylgja jólaglögginu fannst okkur ásættanlegt verð kr. 600 og 1200 fyrir þá sem eiga eftir að greiða félagsgjöld.
  Fyrirkomulagið á glögginu: Dagskrá og verður látin ráðast af stemmingunni, svona eins og gengur.
  Ýmsar hugmyndir voru uppi um uppistand, m.a. um karókí. Þótti einum of vélvætt fyrir landverði, betri stemming fyrir gítarnum: Kalli Bridde mætir á svæðið.

  Kristín, Steinunn og Solla vilja ólmar baka smákökur fyrir jólaglöggið, sér og öðrum til ánægju en einnig til að létta róður félagsins. Því var vel tekið af öðrum stjórnarmeðlimum sem hugsa sér gott til glóðarinnar.

  Skemmtinefndin þarf fljótlega að fara að huga að gerð auglýsingar og senda út til félagsmanna. Starfsmönnum umhverfisstofnunnar (Náttúruverndarsviðs) verður boðið. Sérstaklega verða makar, vinir og sambýlisfólk landvarða hvattir til mæta til að setja svip sinn á hátíðina.
  Vegna félagsdeyfðar ætlum við að bregða á það ráð að vera með hvatningarsímtöl, sem felast í því að vissir fulltrúar t.d. hvers svæðis hringja í sitt fólk og minna þá á glöggið þegar nær dregur og hvetja til að mæta líka – því við vitum að allir verða svo hamingjusamir eftirá með það að hafa ekki misst af fjörinu.

  Skemmtinefnd mun láta sér detta í hug sniðugan happdrættisvinning sem allir landverðir þrá að eiga.

 2. Töðugjöldin
  Áki mætti á stjórnarfund sem gestur til að segja frá Töðugjöldum UST þar sem stjórnin var ekki viðstödd. Stjórnarmenn voru sammála um að a.m.k. einn stjórnarmeðlimur mæti á töðugjöldin framvegis til að vera í betri tengslum við það sem er að gerast á svæðunum og skoðanir landvarða. Þannig vildi til þetta árið að aðeins einn stjórnarmeðlimur var starfandi fyrir UST sl. sumar og sá sér ekki fært að mæta á töðugjöldin.

  Formaður UST, Davíð Egilsson hóf töðugjöldin með inngangsræðu og bar þar mest á fánamálinu og þar á eftir talaði hann um kvartanir yfir landvörðum sem ekki voru skilgreindar nánar. Stjórnin ræddi um að þannig mættu samskiptin alls ekki vera. Ef kvartanir berast er allra hagur að þær séu ræddar strax við yfirmann viðkomandi svæðis og tafarlaust reynt að bæta úr. Það er ótækt að tala um eitthverjar þrjár kvartanir þegar langt er liðið á vetur, sem enginn veit hver á að taka til sín. Þessi ræða féll ekki í góðan jarðveg. Var álit manna að það hefði mátt vera bjartara yfir henni því vissulega var mikil gróska í starfinu á mörgum stöðum í sumar þar sem landverðir leystu verk sín snilldarlega af hendi þrátt fyrir misgóðar aðstæður.
  En þegar líða tók á töðugjöldin var tónninn orðinn annar og menn nokkuð sáttir við aðra þætti fundarins.

  Fyrirkomulag töðugjaldanna var með breyttu sniði þetta árið og var mönnum skipt í umræðuhópa eftir svæðunum sem þeir störfuðu á.

  Áki starfaði á einmenningsstað í sumar við Gullfoss og Geysi. Hann gaf okkur dæmi um þær umræður sem fram fóru í hans hópi eftir sumarið:

  • Landverðir þurfa að vera vel merktir, því er enn ábótavant.
  • Einmenningssvæði: Fríin – hver er þá á staðnum á meðan?
  • Vantar tíma til fræðslu.
  • Hætta við stöðnun einmenningslandvarða, menn athuguðu með vörð til að geta losnað við landvörðinn.
  • Skýrslur þarf að taka fyrir með starfsfólki – hvað er gert með skýrslurnar?
  • Skoðun landvarða; hvernig má landvörður tjá skoðun sína? Setja þarf reglur.
  • Hvert er viðhorf stofnunar til landvarða – traust? Stofnunin gerir of mikið úr fánamálinu. Stendur stofnunin með starfsmönnum sínum?
  • Óskað eftir fljótari afgreiðslu við ráðningar.
  Hóparnir ræddu allir um kvartanir, af hverju eru kvartanir ekki tilkynntar svæðunum og yfir hverju var kvartað?

  Stjórnin ætti að fá kvartanir frá UST til sín, svo hægt sé að bæta úr ef þörf er á.

  Vandamál eins og í Herðubreiðarfriðlandi og Öskju sem koma upp aftur og aftur: Af hverju er ekki tekið á þeim t.d. með því að funda með Ferðafélagi Akureyrar um hvar vandamálin liggja og hver sé rótin að þeim?

  Landverðir koma ár eftir ár að vinna við misgóðar aðstæður, það þarf að hæla þeim líka fyrir það sem er vel gert.

  Fleiri frá stofnunni þyrftu að mæta á töðugjöldin til að heyra hvernig sumarið fór.
  Landverðir þurfa að fá að taka sinn tíma til að kynna sumarið.

  Stjórn LÍ fór á stúfana til að hlýða á raddir landvarða um töðugjöldin og fékk eftirfarandi punkta til að styðjast við:

  • „Fámennt og þar af leiðandi ekki eins skemmtilegt og oft áður.“
  • „Haldið allt of seint, fólk er komið úr takt við sumarið og farið að hugsa um jólin.“
  • „Kostir og gallar við hið breytt fyrirkomulag en ágætisform að geta rætt við þá sem voru á staðnum og farið yfir stöðuna eftir sumarið. Fannst hitt formið vera orðið of langdregið, því sumir fóru langt yfir tímamörk.“
  • „Inngangsræða fundarins ekki til góðs, alltof neikvæð og of miklir dómar. Fannst skrýtið að þetta væri það sem stæði uppúr eftir sumarið.“
  • „Talað var um í inngangsræðunni að viðhorf landvarða til gesta væri slæmt og þá væri ekki nema von að framkoman væri slæm og þar af leiðandi kvartað. Þetta var byggt á þremur kvörtunum eða umtali um landverði sem ræðimaður fékk frá gestum og gangandi, m.a. í sinni fjölskyldu! Reyndar var bent á að það væru ca. 500.000 ferðamenn sem legðu leið sína um þessi svæði og því ekki mikið að þrjár kvartanir bærust.“
  • „Mætingin á töðugjöldin var alltof léleg, t.d. enginn úr Skaftafelli og líklega er það að hluta til vegna tímasetningarinnar. Ætti að halda töðugjöldin fljótlega eftir sumarlok.“
 3. Önnur mál
  • Hugmynd fundarins um að það vanti „farlandvörð“ sem m.a. gæti leyst aðra landverði af í fríum verður rædd betur síðar og komið á framfæri við UST.
  • Áframhaldandi umræður frá síðasta fundi um hvernig við ætlum að ráðstafa styrknum frá Umhverfisráðuneytinu. Þær hugmyndir enn í mótun og verða kynntar síðar.
  • Jón Björnsson af Ströndum bauðst til að vera með fræðslukvöld um stjörnur og himingeiminn. Það tókst vel síðast fyrir ca. tveimur árum, gaman væri að heyra hvort áhugi væri fyrir því. Hann langaði að komast með landverði á Seltjarnarnesið í stjörnukíkinn. Bera þetta undir fræðslunefnd.
  • Rætt um hvort félögum þætti þægilegra að hafa uppákomur félagsins í sal en ekki í heimahúsi. Meira aðlaðandi fyrir nýrri félaga og almennt. Þetta er betra fyrirkomulag á margan hátt, en yfirleitt hafa heimahúsin orðið fyrir valinu í sparnaðarskyni. Ákveðið var að reyna að breyta til á næstunni, þó það verði ekki fyrir jólaglöggið. Hugmyndir eru þegar komnar um húsnæði á góðu verði.
  • Fundur þessi er ekki einungis síðasti fundur ársins heldur einnig sá fjölmennasti sem nýja stjórnin hefur haldið og fögnum við því sérstaklega.  Líflegar og skemmtilegar umræður eins og þetta kvöld gera það svo sannarlega þess virði að vera í stjórn LÍ.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
Ritari: Elísabet