Stjórnarfundur 13. maí 2011

Stjórnarfundur Landvarðafélags Íslands föstudaginn 13. maí 2011 kl. 16:00

Fundarstaður:  Íslenski barinn
Mætt:  Ásta Rut Hjartardóttir, Linda Björk Hallgrímsdóttir, Torfi Stefán Jónsson og Þórunn Sigþórsdóttir

 

Helstu fundarefni
1.  Kjarasamningar
Torfi Stefán Jónsson, sem er í kjaranefnd (ásamt því að vera í stjórn LÍ), gerði grein fyrir stöðu kjarasamninga.  Fundir hafa verið haldnir með fulltrúum Starfsgreinasambandsins, Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Landvarðafélags Íslands.  Niðurstaða þessara funda var sú að fresta gerð kjarasamninga til næsta hausts.  

2.  Trúnaðarmenn
Finna þarf trúnaðarmenn fyrir hönd landvarða sem munu starfa í Vatnajökulsþjóðgarði eða hjá Umhverfisstofnun í sumar.  

3.  Vorferðin
Send var út auglýsing um vorferð sem vera átti 7. maí.  Ekki reyndist næg þátttaka til að halda ferðina og var hún því felld niður.  Rætt var um það að næst þyrfti félagið að auglýsa ferðina betur.  Einnig komu upp hugmyndir um að fara frekar í haustferð, enda er þá enginn prófatími eins og í maí.  

4.  Endurskoðaðir reikningar
Endurskoðandi reikninga, Aurora G. Friðriksdóttir, gerði athugasemdir við reikninga sem lagðir voru fyrir aðalfund LÍ ía apríl sl., þar sem uppgjörið hafði verið gert frá apríl 2010 til apríl 2011 en ekki á milli áramóta.  Því samþykkti hún reikningana með fyrirvara.  Einnig komu fram athugasemdir á aðalfundi félagsins um að greiðslur farþega úr Snæfellsnesferðinni væru ekki inni í uppgjörinu.  Torfi Stefán Jónsson gjaldkeri hefur verið að fara yfir reikningana til að laga þá samkvæmt þessum athugasemdum.  Búið er að laga villuna með greiðslur farþega úr Snæfellsnesferðinni, en þó eru enn einhverjar skekkjur í reikningunum, þannig að uppgjörið stemmir ekki.  Torfi er því enn að vinna í málinu.  

5.  Samskipti við Vatnajökulsþjóðgarð
Á fundinum var rætt um að hafa samband við þjóðgarðsverði Vatnajökulsþjóðgarðs til að athuga hvort þeir og stjórn Landvarðafélagsins geti fundað, til að mynda þegar þjóðgarðsverðir ættu leið um Reykjavík.

6.  Mönnun nefnda
Samkvæmt ákvörðun á aðalfundi, var rætt við Ingibjörgu Eiríksdóttur um áframhaldandi setu í Umhverfisnefnd.  Hún að halda áfram setu í nefndinni, enda hafa nú bæst við tveir nefndarmeðlimir þannig að hún er ekki ein í nefndinni lengur.  Einnig var ákveðið að ræða við Ingibjörgu varðandi það hvort hún vill starfa áfram sem skoðunarmaður reikninga.

7.  Fréttabréf
Þórunn benti á að nú væri kominn tími á að stjórnin gæfi út fréttabréf um störf félagsins.  þar mætti til að mynda ræða um kjaramál, trúnaðarmenn sumarsins ásamt því að koma með lista yfir fólk sem situr í nefndum félagsins.  

Fundi slitið kl. 17:24
Ritari: Ásta Rut