Einn góðan veðurdag sumarið 2000 mættu tveir landverðir til vinnu að morgni dags eins og venjulega. Þegar þeir mættu í gestastofuna um morguninn fengu þeir upphringingu og þeim sagt að húsbíll væri staddur nálægt Grímsstöðum í Mývatnssveit. Landverðirnir flýttu sér af stað til þess að tilkynna fólkinu að í Mývatnssveit væri óheimilt að gista í tjaldi eða bíl utan tjaldsvæða. Þegar þeir mættu á staðinn sást greinilega að tvennt var í bílnum og lágu þau þar inni. Töluvert rusl lá í kringum bílinn og eldunaráhöld ýmiss konar. Annar landvörðurinn fór út úr bílnum og sagði fólkinu frá reglum svæðisins. Konan í bílnum kom til dyra innvafin í sæng. Hún var alls ekki ánægð með að þurfa að færa sig og skellti hurðinni aftur. Landvörðurinn fór þá inn í bíl og beið. Engin hreyfing sást inni í húsbílnum. Að 10 mínútum liðnum, án þess að nokkur hreyfing sæist þar, fór landvörðurinn aftur út og bankaði. Konan kom aftur til dyra og tók því afar illa að landvörðurinn væri að ónáða sig aftur og biðja hana að færa sig. Hún snaraði sér því út úr bílnum á Adamsklæðunum einum og týndi upp leirtau, potta, pönnur og annað rusl sem þarna lá um allt með bossann beran eins og ekkert væri sjálfsagðara. Landverðirnir keyrðu svo í burtu og eftir u.þ.b. 100 m grenjuðu þeir af hlátri.