Að leyfa eða ekki leyfa – það er höfuðverkurinn

Það er aldrei auðvelt að taka ákvarðanir þegar landverðir verða varir við framferði sem þeim þykir óeðlilegt. Afstaða þeirra er byggð á þekkingu og reynslu og þeir gera sér oftast betur grein fyrir afleiðingum hegðunarinnar, til lengri tíma litið, en sá sem sýnir hana af sér. Landverðinum blöskrar oft alveg hugsunarleysi þeirra sem brjóta af sér en stundum eru menn í góðri trú og bestu meiningu að gera eitthvað sem þeir eru vanir, án þess að átta sig á því að ekki er lengur leyfilegt að gera það sem áður mátti. Slíkt átti sér stað í Mývatnssveit á 9. áratugnum. Landvörður kom um kvöldmatarleytið að eldra fólki sem var búið að bera talsvert af dóti út í móa og var greinilega að útbúa sér náttstað. Áður en farið var að tjalda var þó sest niður í kaffi og kleinur. Landvörður fór og spjallaði við fólkið og þáði kleinur og kaffi. Jafnframt þurfti hann að segja fólkinu að því miður gætu þau ekki tjaldað þarna því aðeins væri leyfilegt að gista á tjaldsvæðum. Þetta urðu þeim mikil vonbrigði. Þau höfðu ekki komið í sveitina síðan í brúðkaupsferðinni 40 árum áður. Þá höfðu þau tjaldað á þessum stað og höfðu hlakkað til að endurlifa staðinn. Landverðinum var vandi á höndum því hann hafði fulla samúð með þessum „lögbrjótum”. Ekki kom þó til að hann þyrfti að teygja á samvisku sinni, því þetta indæla fólk sagði að fyrst þetta væru reglurnar myndu þau að sjálfsögðu hlýða því. Þau fengu síðan hjálp við að taka saman og bera dótið í bílinn, fundið var gott pláss fyrir þau á tjaldsvæði og á annan hátt reynt að greiða þeim götu. Þau fóru úr sveitinni þremur dögum síðar, ánægð með viðtökurnar og þjónustuna. Og landvörðurinn þurfti ekki að beita valdi sínu eða fara í kringum reglurnar, honum til mikils léttis.