Nýtt vefsetur fætt

Nú er nýja vefsetrið okkar loks aðgengilegt hér. Eins og sést er útlitið gjörbreytt og ýmsir nýir möguleikar í boði.

Mikilvægasta nýjungin sem snýr að félagsmönnum L.Í. er án efa sú að nú geta þeir skráð sig inn á landvarðavefinn með notandanafni og aðgangsorði. Með því fá félagsmenn aðgang að upplýsingum og aðgerðum sem ekki eru opnar almennum vefnotendum. T.d. geta félagsmenn sent inn til birtingar fréttir og tilkynningar um viðburði, tekið þátt í umræðum, vísað á áhugaverðar vefkrækjur og sett upp myndir, myndamöppur og raunar heilu „myndasýningarnar“ á myndasíðu. Nánari upplýsingar um þessi atriði verða á næstunni sendar hverjum og einum nettengdum félagsmanni. 

Til þess að geta fengið notandanafn og aðgangsorð á landvarðavefnum þarf fólk í fyrsta lagi að vera skráð í Landvarðafélagið og í öðru lagi að vera með virkt netfang. Þeir sem ekki eru með netfang eða gefa það ekki upp geta einfaldlega ekki nýtt sér alla möguleika sem bjóðast á nýja vefnum.

Skráðir félagar með netfang ættu þegar að hafa fengið notendanöfn sín og aðgangsorð send í tölvupósti. Þeir sem ekki kannast við að hafa fengið þessar upplýsingar eru beðnir um að láta vefstjóra vita, með tölvupósti á netfangið vefstjori@landverdir.is. Sama gildir ef einhver á í erfiðleikum með að skrá sig inn. Mikilvægt er að félagsmenn tilkynni vefstjóra tafarlaust um ný og breytt netföng. 

Nýi vefurinn er enn í mótun og verður reynt að laga hann að óskum félagsmanna og þörfum félagsins. Á þessu stigi er rétt að nefna eftirtaldar nýjungar og breytingar:

  • Auðvelt er nú að leita í efni vefjarins. Sláið inn leitarorð í reitinn efst til hægri eða veljið aðgerðina „Leit“ á aðalvalmynd.
  • Tveir rammar á forsíðu sýna það efni sem er nýjast (fréttnæmast) hverju sinni og hvað er mest skoðað. Undir þetta falla fréttir, tilkynningar, fundargerðir og umræðuefni sem birt eru á vefnum.
  • Auðvelt er að setja upp skoðanakannanir og atkvæðagreiðslur. Fyrsta könnunin snýr að nýja vefnum og því hvernig fólki finnst hann koma út. Takið endilega afstöðu og komið með tillögur að nýjum könnunum.
  • Undir „ORÐ AÐ SÖNNU“ á forsíðu birtast af handahófi ýmis kjörorð landvarða og lögmál ferðamannsins.
  • Undir „Á LÍNUNNI“ sést hvað margir eru að skoða vefinn og hvort einhverjir eru skráðir inn.
  • Undir liðinn „Um félagið“ á aðalvalmynd er raðað ýmsum þáttum sem snerta Landvarðafélagið og starfsemi þess, ekki ósvipað því sem var á gamla vefnum. Athugið að einn liður, „Félagatal“, opnast aðeins þeim sem skrá sig inn á vefinn með notandanafni og aðgangsorði.
  • Undir hattinn „Landverðir“ er sett ýmislegt sem lýtur að starfi og menntun landvarða, líkt og gert var á gamla vefnum.
  • Liðurinn „Fréttnæmt“ vísar á síðu með fréttum og tilkynningum, flokkuðum í möppur eða undirsíður. Þarna er líka ný umræðusíða.
  • Þegar smellt er á liðinn „Vefkrækjur“ kemur upp síða þar sem áhugaverðar krækjur/vefslóðir eru flokkaðar eftir efni. Nánari lýsing fylgir mörgum krækjunum. Félagar í L.Í. geta bætt við krækjum og eru beðnir að láta vita ef einhver slóðin virkar ekki.
  • Undir liðinn „Spurningar“ verður safnað saman spurningum sem félaginu berast og svörum við þeim.
  • Sé smellt á „Myndir“ kemur upp myndasafn sem kallast „zOOm Gallerí“. Viðmótið í þessum hluta er á ensku. Búið er að koma fyrir tveimur galleríum eða myndaröðum af gamla vefnum, frá Gljúfrum og Mývatnssveit, en eftir er að setja upp fleiri raðir. Innskráðir félagar geta bætt eigin myndum inn í fyrirliggjandi gallerí/möppur eða sett upp ný gallerí fyrir myndir sínar. Til að bæta við myndum þarf að velja liðinn „User System“ á myndasíðunni að lokinni innskráningu.
Vonandi verða landverðir duglegir við að nýta sér tæknina og láta til sín taka á landvarðavefnum. Hver skyldi ríða á vaðið og fitja upp á skoðanaskiptum á umræðusíðunni? Boltinn er hjá ykkur, ágætu landverðir. Látið svo í ykkur heyra ef þið sjáið eitthvað athugavert eða saknið einhvers á vefnum okkar.

Með kærri kveðju,
Sveinn Klausen
vefstjori@landverdir.is