Velheppnað málþing um menntun landvarða

Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 var haldið málþing um menntun landvarða. Málþingið var vel sótt af fjölbreyttum hópi landvarða og öðrum sem málið varðar. Stjórn Landvarðafélagsins gerði einnig tilraun við að gefa þeim sem eru utan höfuðborgarsvæðisins tækifæri á að taka þátt í gegnum fjarfund. Það tókst nokkuð vel miðað við fyrstu tilraun og engan aukakostnað. Við munum halda áfram að gera okkar allra besta í að tengja saman landverði á öllu landinu í framtíðinni.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra setti þingið með ávarpi þar sem hann kom meðal annars inná hversu mikilvæg menntun landvarða er þegar starfið stækkar og kröfurnar aukast á landverði. Ráðherra velti líka fyrir sér þekkingu landvarða, hvað þurfa landverðir að kunna, þurfa allir að kunna allt eða á að bjóða upp á sérhæfða menntun. Ráðherra nefndi einnig allan þann fjölda friðlýsinga sem verið er að vinna og mikilvægi þess að koma öllum landvörðum undir sömu stofnun. En frumvarp um Þjóðgarðastofnun verður langt fyrir á vorþingi. Ráðherra kom einnig inná möguleika á aukna samvinnu landvarða og vísindamanna í rannsóknum og annað áhugavert.

Eftir ávarpið var stuttlega farið yfir menntunar möguleika landvarða í dag og síðan fyrir kaffihlé var frumsýnt fyrsta kynningarmyndbandið um landverði og landvörslu. Á næstunni munu fimm myndbönd vera sýnd opinberlega með því markmiði að kynna betur landverði og starf þeirra.

Eftir kaffi var skipt upp í umræðuhópa þar sem byrjað var á frjálsum umræðum en síðan voru hóparnir beðnir um að svara ákveðnum spurningum saman. Í lokin voru þessar spurningar teknar saman í gegnum veraldarvefinn og þá gátu einnig þeir sem fylgdust með yfir netið tekið þátt. Það voru mjög áhugaverðar og gagnlegar niðurstöður sem komu í ljós og hér fyrir neðan er hægt að sjá þær ásamt nokkrum aukaspurningum í lokinn sem allir gátu svarað og voru bæði til gagns og gamans.

Í framhaldi málþingsins mun stjórn Landvarðafélagsins taka saman niðurstöðurnar úr umræðuhópum og fleiri ábendingar sem hafa borist. Niðurstöðurnar verða síðan birtar og kynntar á aðalfundi félagsins 3. apríl og komið í hendur þeirra sem fara með málefni landvarða og menntun þeirra. 


Fyrstu niðurstöður af málþinginu hér