Landvörður vikunnar, 13. – 19. júlí

Frá einum Sigurði til annars. Frá Vatnajökulsþjóðgarði og yfir á Umhverfisstofnun.

 

Landvörður vikunnar er Sigurður Jóhannson. Hann starfaði við Mývatn fram að 9. júlí en er nú kominn í Snæfellsjökulsþjóðgarð.

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?

Í Gestastofu og í leiðsögn kynni/túlka ég náttúruna á svæðinu (Mývatn/Snæfellsnes), og úti á mörkinni laga/hreinsa/endurbæti ég gönguleiðir og svæðin sjálf.

 

Hvar hefuru unnið sem landvörður?

2007: Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum.
2009, 2012, 2014: Mývatn.

2010, 2011, 2013: Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull.

Til þessa hef ég alltaf unnið á einum stað á sumri, en í sumar (2015) verða staðirnir tveir.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Að vera úti í náttúrunni, og vinna með henni.

 

en leiðinlegast?
Að elta uppi og hafa afskipti af fólki sem ekki virðir umgengnisreglur og verndarreglur svæða, og þurfa að kalla eftir vegabréfum þeirra og skrá niður nauðsynlegar upplýsingar úr þeim til skýrslugerða (utannvegaakstur, umgengni við fálkahreiður/fuglafriðland).

 

Hvert er uppáhalds fjallið þitt?

Helgafell í Mosfellsbæ. Annars er það fjallið sem ég er að ganga á hverju sinni.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Húsöndin (fálkinn er full áberandi).

 

Hver er frægasta manneskjan sem þú hefur hitt í þínu starfi sem landvörður?

Á Gestastofum (Hellnar/Mývatn) og í fræðslugöngum nær maður sjaldnast að kynnast fólkinu mjög mikið á þeim stutta tíma sem samskiptin vara – eða veita því athygli hvort þar fari frægur eða minna frægur einstaklingur.

Minnistæðasta manneskjan er Þóra Arnórsdóttir hjá RUV þegar hún kom með fjölskyldu sína í heimsókn í Vatnshelli síðsumars, sama ár og hún var með góða umfjöllun um hellinn í Katljósi.
Og líklega var mesta nándin við einstaklinga í leiðsöguferðum um Vatnshelli.

 

Ef þú gætir unnið sem landvörður hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vilja vinna?

Mest langar mig til að vinna á Íslandi, en að því slepptu í Norður Ameríku (Kanada/USA), Evrópu eða hvar þar sem starfskraftar mínir og reynsla koma mest og best að notum.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Að vinna í og með náttúrunni – og túlka hana fyrir öðru fólki/samferðamönnum á Jörðinni.