Landvörður vikunnar, 20. – 26. júlí

Skartandi sínum fögrustu freknum taka útiteknir landverðir vel á móti seinni hluta þessa sumars. Aldrei hafa verið hér jafn margir ferðamenn og sjaldan hefur landvörðurinn verið jafn mikilvægur og ómissandi fyrir náttúruna. Sum okkar vakna af værum svefni með snævi þaktar auðnir blasandi við úr dyrakarminum meðan aðrir blóta sólinni í hljóði og biðja um eilítið ský. Mikið erum við heppin með fjölbreytileika þessa lands.

 

 

Landvörður vikunnar er Halla Mia sem starfar í Hvannalindum á Austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður?

Ég hef unnið eitt sumar sem landvörður.

 

Hefuru unnið sem landvörður á fleiri stöðum á landinu?

Nei, en ég þóttist vera landvörður bæði þegar ég var 6 ára og bjó á Þingvöllum eitt sumar og þegar ég dvaldi í Jökulsárgljúfrum stóran hluta úr sumri þegar ég var 8 ára.

 

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?

Miklum tíma er varið í vegalandvörslu, upplýsingagjöf og fræðslu akandi vegfaranda. Landvörður í Hvannalindum býður upp á daglegar göngur, sér um merkingar og viðhald stíga, tekur á móti sjálfboðaliðum, býður hálendisvaktinni í lummur og sinnir tilfallandi viðhaldi. Landvörður í Hvannalindum sér einnig um að telja heiðagæsahreiður og fylgist náið með dýra- og fuglalífi í Krepputungu.

 

Hvaða eiginleika þinnar starfstöðvar finnst þér mikilvægast fyrir landvörð að gæta?

Hvannalindir eru viðkvæm vin á hálendinu sem mikilvægt er að koma fram við á nærgætinn hátt. Ætli það sé ekki mikilvægast að fræða vegfarendur um svæðið og reyna að stilla það inná sérstöðu og orku svæðisins. Eins og Kolbrún Halldórsdóttir sagði svo fallega á Hálendishátíðinni í Háskólabíói: Að fara inná hálendið er eins og að koma inní herbergi þar sem er nýfætt barn, þar er sérstök orka sem þarf að stilla sig inná.

 

Hvað geriru á veturna?

Ég vinn við heimildamyndagerð og tilfallandi skemmtileg verkefni.

 

Hvert er uppáhalds blómið þitt?

Lambagras.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Heiðagæs.

 

Ef þú gætir unnið sem landvörður hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vilja vinna?

Hvannalindum.

 

Hver er þín sutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Að vera tengill manns og náttúru, málsvari náttúrunnar.