Landvörður vikunnar, 6. – 12. júlí

Að lokinni einnar mestu ferðahelgi ársins hljóta margir landverðir að vera úrvinda. Þeir sem fengu að vera í fríi jafnvel úrvinda eftir ferðir og göngur, meðan þeir sem stóðu vaktina úrvinda eftir að taka á móti þeim órafjölda gesta og gangandi sem sóttu svæði þeirra heim. Eins og áður byrjum við líka nýja viku á að skipa nýjann landvörð vikunnar.

Landvörður vikunnar er Sigurður Óskar Jónsson sem starfar þetta sumar í Eldgjá og Langasjó, með bækistöð í Hólaskjóli. Sigurður hefur einnig starfað í Skaftafelli m.a. undanfarna þrjá vetur.

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?

Í stuttu máli gera íslenskir landverðir í rauninni allt það sem þarf að gera. Ef málið má vera aðeins lengra, þá hafa verkefni mín í gegnum tíðina verið mjög misjöfn, bæði milli svæða og milli árstíma. Stór hluti starfsins í Skaftafelli á sumrin felst í umsjón og þjónustu við tjaldsvæðið, sem er í rauninni ekki beinlínis landvarsla, en maður nær vissulega betri tengslum við gesti ef maður hittir þá.

Starfið á veturna er meira afgreiðslustarf og upplýsingagjöf í Skaftafellsstofu. Þá er maður líka nokkuð mikilvægur öryggisþáttur, því með auknum straumi erlendra ferðamanna yfir vetrarmánuðina, kemur meira af fólki sem er að mörgu leyti ekki útbúið til vetrarferða um Ísland, og „gleymir“ jafnvel að verða sér úti um upplýsingar um veður og færð. Þar geta vetrarlandverðir komið til sögunnar „við að vernda fólkið fyrir náttúrunni.“ Þó ber þess að geta að stór hluti starfsins á veturna felst í því að segja fólki hvað það tekur langan tíma að ganga að Svartafossi, (ef það er yfir höfuð fært þangað), og hvað það er langt að Jökulsárlóni, (ef það er ekki brjálað rok á leiðinni þangað).

Starfið í Eldgjá/Langasjó er talsvert öðruvísi. Vissulega er upplýsingagjöf stór þáttur þá daga sem maður er í Eldgjá, en hina dagana er maður meira í eftirlitshlutverki. Við keyrum mikið um svæðið og t.d. fer maður helst alla daga inn að Langasjó, sem tekur um klukkutíma hvora leið frá Hólaskjóli.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Mér dettur í hug skemmtilegu spurningarnar sem maður hefur fengið í Skaftafelli. Tveir spurðu t.d. í vetur: „Is this the INTERnational park?“ Það þótti mér skondið í ljósi þess að nánast allir þeir sem koma í Skaftafell á veturna eru erlendir ferðamenn, fyrir utan leiðsögumenn og rútubílstjóra. Mér finnst líka alltaf gaman ef það kemur fólk að tali við mann og hefur virkilegan áhuga á svæðinu og hefur kynnt sér málin mun betur en margir aðrir.

 

en leiðinlegast?
Leiðinlegust hlýtur að vera vanvirðingin gagnvart þjóðgörðum og náttúrunni yfir höfuð, sem maður verður vitni af á hverjum degi í starfinu. Sumir henda rusli þar sem þeir standa, og keyra jafnvel út fyrir veg á verndarsvæðum og auðvitað víða annars staðar líka. Klósettpappír með tilheyrandi glaðningum á víð og dreif, og svona mætti lengi telja. Við landverðir þekkjum þetta auðvitað allt og meira til.

 

Hvert er uppáhalds fjallið þitt?

Að öðrum ólöstuðum, Ketillaugarfjall í Nesjum í Hornafirði.

 

Hvert er uppáhalds blómið þitt?

Ég á mér ekkert sérstakt uppáhalds blóm, en verandi frá austurhelmingi landsins, þá rennur mér blóðið til skyldunnar að segja bláklukka.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Þetta er erfið spurning, það koma margir til greina, t.d. kría, skúmur, fýll, spói, heiðagæs, lundi, súla, hrossagaukur og tjaldur (sem reyndar er þjóðarfugl Færeyinga). Músarrindill hefur verið í uppáhaldi hjá mér undanfarin ár, en kannski ekki nóg til að vera þjóðarfugl. Mér finnst líklegast að ef það yrði kosið um það, yrði heiðlóa fyrir valinu.

 

Hver er frægasta manneskjan sem þú hefur hitt í þínu starfi sem landvörður?

Það hafa vissulega komið stöku amerískar „smástjörnur“ í Skaftafell meðan ég hef verið þar. Annars kom einu sinni ung kona inn í Skaftafellsstofu. Hún var berfætt og í slitnum og skítugum brúðarkjól. Eins og það hafi ekki verið nógu skrítið, þá spurði hún okkur hvort hún gæti fengið lánaðan hamar og nokkra nagla svo hún gæti lagað líkkistu sem hún var með á ferð, sem hún fékk. Síðar kom í ljós á þarna var á ferð hljómsveitin Sólstafir að taka upp myndbandið við lag sitt sem heitir Fjara.

 

Ef þú gætir unnið sem landvörður hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vilja vinna?

Bandaríkin heilla töluvert, aðallega út af góðu utanumhaldi um bæði gesti og starfsfólk.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Eitt sinn las ég viðtal við reyndan landvörð, að mig minnir bandarískan, sem var að hætta störfum. Hann sagði að landvarsla snerist um að „vernda náttúruna fyrir manninum, vernda manninn fyrir náttúrunni og stundum að vernda manninn fyrir öðrum mönnum.“ Íslenskir landverðir þurfa reyndar ekki oft að vernda fólk fyrir öðru fólki, en mér fannst þetta góð skilgreining á sínum tíma og finnst það enn.