Landvörður vikunnar, 29. júní – 5. júlí

Þá er komið að mánaðarmótum. Hápunktur sumars nálgast og krökt er af ferðafólki víðs vegar um landið. Landverðir vita varla hvaðan á þeim stendur veðrið en taka þessu vonandi með yfirvegaðri ró. En að landverði vikunnar; að þessu sinni snúum við okkur aftur að Vatnajökulsþjóðgarði.

 

Þessa vikuna er Sylvía Dröfn Jónsdóttir landvörður vikunnar og starfar hún í Jökulsárgljúfrum.

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður?

Þetta er annað sumarið mitt sem landvörður en ég var verkamaður í tvö sumur áður en ég fór á námskeiðið.

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Fjölbreytnin. Það er enginn dagur eins og þú hittir alltaf nýja ferðalanga sem geta sagt þér eitthvað nýtt.

en leiðinlegast?

Að koma að kamri í annarlegu ástandi.

Hvaða eiginleika þinnar starfstöðvar finnst þér mikilvægast fyrir landvörð að gæta?

Mér finnst mikilvægast að gæta þess að maðurinn hafi sem minnst áhrif á náttúruna, bæði ásýnd og lífríki.

Hvað gerirðu á veturna?

Í vetur var ég að ferðast í Suður- og Mið-Ameríku en er óákveðin hvað ég geri í haust.

Hvert er uppáhalds fjallið þitt?

Án efa Hafrafell, eða Tungufjall eins og það er alltaf kallað. Það sést út um eldhúsgluggann minn og örugglega fjallið sem ég hef eytt mestum tíma í að horfa á og klífa í gegnum tíðina.

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Maríuerlan finnst mér afskaplega falleg og íslensk.

Hver er uppáhalds gönguleiðin þín á íslandi?

Forvöð, sem er austan við Jökulsá, á móti Hólmatungum er ótrúlega friðsæll og fallegur staður þar sem er auðveldlega hægt að verja heilum degi í lautarferð og njóta náttúrunnar.

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Landvörður fræðir gesti og gangandi um náttúruna og svæðið auk þess að passa upp á umgengni og ástand svæðisins.