Upphaflega birt í fréttabréfinu Ýli í maí 2001.
Landverðir halda til starfa sinna, sumir á slóðum sem þeir óskuðu sjálfir, aðrir þar sem starfstími og aðstæður henta. Öll væntum við þess að sumarið verði gjöfult á ánægjuleg samskipti náttúru og manna. Sumir kunna að þrá ys og þys, en sennilega vilja fleiri hóflegan fjölda ferðamanna sem eru viðráðanlegir, fróðleiksfúsir og gætnir. Hlutverk landvarðarins er að fræða til þess að allir þeir sem eru á ferðinni eru megi njóta alls sem er, en þekking og áhugi ferðafólks á náttúrunni hefur líka áhrif á hegðun þeirra og umgengni. Að ljúka upp augum þeirra sem eiga leið um starfssvæði okkar er líka það sem er mest gefandi, það þekkjum við svo vel. Heiti blómsins, fuglsins, samspil vatns, jarðar og lífsins og mótun landslags. Hvað getur verið meira gefandi en það að vekja skilning?
En eru þetta kannski hálfgerðir draumórar? Þurfum við ekki að gera betur? Eða höfum við náð eyrum þeirra sem við hefðum þurft að ná til, hvar voru stjórnmálamennirnir og verkfræðingarnir? Höfum við verið að fræða ranga aðila um gildi náttúrunnar og rétt hennar til framþróunar á eigin forsendum? Oft óska ég þess að eins auðvelt væri að ná til þjóðfélagsins alls, og snúa þjóðinni á braut væntumþykju um landið – nei alveg sérstaklega um náttúru landsins okkar.
Hvers vegna stöndum við nú frammi fyrir því að orkuiðnaðurinn ætlar sér nú með góðu eða illu að skemma Þjórsárver með Norðlingaölduveitu og 6. áfanga Kvíslaveitna?
Ljóst er að nú þegar hefur nær öllu vatnafari á Suðvesturlandi verið breytt í þágu orkuframleiðslu eða landbúnaðar. Þjórsá, Tungnaá, Markarfljót, Elliðár, Andakílsá og margar ónefndar ár eru ekki lengur í eiginn farvegi eða að rennsli þeirra er stýrt með öðrum hætti. Vatnsmiðlanir eru víða, Þingvallavatn, Elliðvatn, Skorradalsvatn, já þú þekkir fleiri nöfn.
Vorflóð ánna fá ekki lengur að flytja lífríkinu í ánum og umhverfi þeirra þá næringu sem þau gerðu.
Finnur þú kannski fyrir öryggi þess sem telur sig ráða og ríkja yfir náttúruöflunum? Ef svo er þá skaltu ekki lesa lengra.
Ef þú hins vegar fyllist réttlætiskennd vegna þess að einhver hefur knúið ána til þess að renna í röri eða skurði, tekið burt fossinn sem hjalaði og söng og var frjáls í fari sínu, eða að einhver sökkti hreiðurstæðum félaga þinna, fuglanna, þá eigum við samleið.
Ég óttast að skammsýni og áhugaleysi samferðafólks okkar leiði til þess að eyðingarsveitir orkuiðnaðarins láti ekki staðar numið í Vonarskarði, heldur reyni einnig að kúga undir mannlega stjórn stórár sem smáar ár á norðausturhálendinu, rétt eftir að þær hafa, í nafni aukinnar álframleiðslu með „endurnýjanlegum” orkulindum, lokið siðlausum árásum sínum á Þjórsárver.
Hristum af okkur slenið, við eigum nú þegar að fylkja liði að baki kröfunni um að skynsamlega verði virkjað, að ekki verði færðar frekari stórfórnir. Að hafin verði endurheimt náttúrulegs lífríkis Þjórsárvera, með kröfunni um að Kvíslaveitumannvirkin verði fjarlægð þannig að Kvíslarnar, lífæðar veranna, fái flutt vatn um verin.
Baráttan um Eyjabakka var bara létt æfing miðað við þann slag sem verður að eiga við virkjunarsinna sem ætla sér að reisa núverandi kynslóðum þá hrikalegu níðstöng sem kölluð er Kárahnjúkavirkjun, þ.e. miðlunarlónið við Kárahnjúka.
Er það eitt hagkvæmt í virkjunum sem skilar mestri orku með minnstum tilkostnaði?
Hvers virði eru fórnirnar, Dimmugljúfur, malarhjallarnir meðfram Jökulsá á Dal, Sauðárfoss og sjálfur Töfrafoss?
Félagar, framundan er mikið verk fyrir okkur öll sem unnum náttúru landsins í því að kynna fyrir þjóðinni hvaða verðmætum orkuiðnaðurinn krefst að verði fórnað.
Það verða allir að vera með – það er vor í lofti.