Haustferð Landvarðafélagsins 22-23 sept. 2018

22-23. september var árleg haustferð félagsins skipulögð af skemmtinefnd. Ferðinni var heitið í Landmannalaugar þar sem veðrið lék við okkur og landverðir Umhverfisstofnunar tóku á móti okkur og leiddu fræðslugöngu um svæðið.

Lagt var af stað frá Umhverfisstofnun á laugardagsmorgni og ekið í átt til Landmannalauga en Katrín Pálma – og Þorgerðardóttir stjórnarmeðlimur sem er einnig í skemmtinefnd ók fullri rútu fyrir félagið. Næsti landvörður var sóttur á Selfoss og eftir það var tekið kaffistopp í Árnesi. Á leiðinni var litið við í Hrauneyjum þar sem Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður hafa rekið saman starfstöð undanfarin sumur og Stefanía Ragnarsdóttir formaður og landvörður frá svæðinu kynnti starfstöðina, samstarfið og nýja fræðslusýningu. Eftir stutt stopp var ekið áfram áleiðis að laugum en á leiðinni fengum við að sjá landvörð í starfi þar sem Ari Eggertson landvörður í Hrauneyjum ræddi við gesti sem höfðu ekið út fyrir veg og tjaldað í hrauninu.

Þegar komið var í laugar skellti hópurinn í sig samlokum og kaffi og hélt af stað í fræðslugöngu í dýrindis veðri. Það voru þau Hákon Ásgeirsson sérfræðingur, Nína Aradóttir og Hringur Hilmarsson landverðir í Landmannalaugum sem skiptu á milli sín fræðslugöngunni en gengið var frá skálunum að Brennisteinsöldu og talað um álag ferðamanna á svæðið, framkvæmdir, jarðfræði og annan fróðleik. Gangan var virkilega áhugaverð og útsýnið með besta móti eins og myndirnar sína.

Eftir fræðslugöngu var komið aftur í skála þar sem hópurinn hjálpaðist að við að grilla vegan borgara, kartöflur og fleira. Opnaðir voru baukar og rautt rann í glös. Eftir góða máltíð og hreint eldhús færði hópurinn sig yfir í laugina þar sem stjörnur, stjörnuhröp og norðurljós birtust eftir pöntun.

Daginn eftir var skellt í góðan graut, skoður aðstaðan í Landmannahelli og svo héldu landverðir til byggða sælir með fagra fjallasýn í huga og góðar samverustundir með hressum landvarðahóp.

 

Stjórn þakkar öllum sem mættu í ferðina og þúsund þakkir fær skemmtinefndin þær Katrín Pálma- Þorgerðardóttir, Þórunn Lilja Arnórsdóttir og Helga Hvanndal Björnsdóttir fyrir frábæra ferð!

Fleiri myndir frá ferðinni má finna hér á Facebook