Fundur stjórnar með Alþjóðanefnd 17.11.2013
Mættir voru: Sævar Þór Halldórsson, Linda Björk Hallgrímsdóttir, Torfi Stefán Jónsson, Þórunn Sigdórsdóttir, Ásta Davíðsdóttir, Auróra Friðriksdóttir
Fyrsta mál á dagskrá var Rúmenía, en í sumar hafði Mihai úr rúmenska landvarðafélaginu samband við Þórunni varðandi styrk sem hægt væri að sækja um vegna skiptiprógramms. Þannig að landverðir frá Rúmeníu kæmu til Íslands og fræddust hér á landi og á móti gætu íslenskir landverðir farið til Rúmeníu að fræðast um landvörslu þar í landi. Ekkert hefur hinsvegar enn komið í sambandi við styrkinn – Þórunn ætlaði að hafa samband við Mihai og athuga hvort hann hafi heyrt eitthvað.
Króatía – Í maí 2014 verður haldin evrópsk landvarðaráðstefna. Rætt var um hvar hugsanlega væri hægt að sækja um styrki, en róðurinn verður kannski heldur erfiðari nú heldur en áður. Ákveðið var að allir skyldu hafa augu og eyru opin varðandi hvar væri hægt að sækja um styrki en alþjóðanefndin myndi halda utan um umsóknir og annað varðandi það.
Skotland – upp kom sú hugmynd að við myndum reyna að sækja Skota heim, Íslendingar og Skotar eru í svokölluðu „twinning“ samstarfi og skulduðum við þeim eiginlega heimsókn en þeir komu hingað til lands fyrir nokkrum árum. Gæti þetta verið hluti af endurmenntun. Vegna evrópu ráðstefnu 2014 og svo Alþjóðaráðstefnu 2016 væri kannski heppilegast að fara til Skotlands 2015. Þetta verður að skoða aðeins nánar.
Fræðslufundur – einnig kom sú hugmynd fram að Alþjóðanefnd og fræðslu-og skemmtinefnd myndu sameina krafta sína og hafa sameiginlegan fræðslufund fljótlega eftir áramót þar sem þemað væri á þann veg þeir landverðir sem hafa farið til útlanda og kynnt sér þjóðgarða og landvarðastarfið erlendis. Þar mundum við fá til okkar íslenska landverði sem hafa nýlega farið út t.d. Guðmundur í Skaftafelli en hann fór fyrir ári síðan til Bandaríkjanna á námskeið, Þórunn fór í sumar til Rúmeníu og Hákon fór til Bretlands að kynna sér þjóðgarða þar. Jafnfram yrði komið inn á fyrsta evrópsku ráðstefnuna sem var í Rúmeníu 2007. Tekið var mjög vel í hugmyndina og var farið að skipta með sér verkum. Þórunn ætlaði að tala við Gumma og Hákon. Sævar og Auróra fara í það að finna sal fyrir viðburðinn. Hugsanleg dagsetning fyrir þetta er föstudagurinn 7. Febrúar! Jafnframt þyrfti að vera skráning á viðburðinn upp á hugsanlegar veitingar. Ákveðið var að allt þyrfti að vera komið á hreint fyrir áramót en það þarf að auglýsa þetta með minnsta kosti 3-4 vikna fyrirvara.
Ekki var meira rætt á fundi með alþjóðanefnd að þessu sinni!