Fjölmenn sendinefnd sækir 5. heimsþing landvarða

peopleandplace

peopleandplaceÍslenskir landverðir ætla heldur betur að hressa upp á alþjóðatengslin í ár. Hvorki meira né minna en þrettán manna hópur hyggst sækja alþjóðaráðstefnu landvarða í Stirling í Skotlandi 14. – 21. júní nk. Mun þetta verða ein fjölmennasta sendinefndin á þinginu. Yfirskrift ráðstefnunnar er People and Place – The Natural Connection og verður m.a. fjallað um hlutverk og möguleika landvarða í því að virkja fólk til vitundar og stuðla að ábyrgri fræðslu samfara náttúruvernd.

tugofwarDagskrá ráðstefnunnar og nánari upplýsingar um hana má fá á vefsetri hennar.

Undirbúningur fyrir ráðstefnuna er í rífandi gangi hjá íslensku sendinefndinni og nokkrar undirnefndir að störfum. Meðal annars er unnið ötulllega að fjáröflun og má í því sambandi reikna með að landverðir láti mjög á sér bera í helstu verslunarmiðstöð höfuðborgarinnar í apríl. Nánari fregnir af þeim áformum síðar.

Landvarðavefurinn óskar Skotlandsförum góðs gengis og hvetur aðra landverði og almenning allan til að styðja vel við bakið á þeim, því ekki er í lítið ráðist fyrir lítið félag. Eða eins og einhver sagði – ÁFRAM ÍSLAND!