Bæklingur frá UST um akstur utan vega

gragaesadalur5

Af hverju má ekki aka utan vega á Íslandi?

Kominn er út á vegum Umhverfisstofnunar nýr bæklingur, Akstur utan vega, sem ætlaður er til kynningar fyrir alla ferðamenn, innlenda jafnt og erlenda.
gragaesadalur5
Í bæklingnum eru kynnt lög og reglugerðir sem snerta utanvegaakstur og fjallað um ástæður þess að akstur utan vega er bannaður á Íslandi og hverjar afleiðingar utanvegaakstur hefur á náttúruna.

Í maí gaf Umhverfisráðherra út reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands, nr. 528/2005. Í reglugerðinni er áréttuð sú meginregla að óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands.

Með reglugerðinni er brugðist við ósamræmi sem var milli eldri reglugerðar og gildandi náttúruverndarlaga um akstur utan vega. Í reglugerðinni er lögð rík áherslu á að akstur utan vega er óheimill.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Hægt er að nálgast bæklinginn meðal annars á upplýsingamiðstöðvum um allt land, á bílaleigum, í Norrænu og þjóðgörðum. Sýslumenn, lögreglan, náttúruverndarnefndir, heilbrigðisfulltrúar og fleiri fá bæklinginn sendan.