Aðalfundur Landvarðafélagins samþykkir þrjár ályktarnir

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands fór fram með breyttu sniði miðvikudaginn 6. maí 2020. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu var boðuðum aðalfundi á Þingvöllum í byrjun apríl frestað tímabundið. Að lokum var ákveðið að best væri að fundurinn færi fram í gegnum fjarfundabúnað. Fundurinn var styttur töluvert og einungis lagt upp úr því að afgreiða hefðbundin aðalfundastörf.. Fyrir utan smá tækni örðuleika gekk hann nokkuð áfallalaust fyrir sig.

Fimm nýir stjórnarmeðlimir
Sævar Þór Halldórsson, Stefanía Ragnarsdóttir og Valdimar Kristjánsson yfirgáfu stjórn og þökkum við þeim fyrir þeirra störf. Inn í stjórn til tveggja ára komu, Guðrún Tryggvadóttir og Þórhallur Jóhannsson og til eins árs kom Þórunn Lilja Arnórsdóttir.  Með þeim sitja svo áfram í stjórn Anna Þorsteinsdóttir formaður og Nína Aradóttir. Varamenn í stjórn voru kjörnir eru Benedikt Traustason og Eyrún Þóra Guðmundsdóttir.

Einnig var kosið í nefndir. Í kjara- og laganefnd voru kosin,  Þórunn Lilja Arnórsdóttir, Helga Hvanndal Björnsdóttir og Guðrún Tryggvadóttir. Í skemmti- og fræðslunefnd voru kosnar Margrét Gísladóttir, Nína Aradóttir og Helga Hvanndal Björnsdóttir. Í alþjóðanefnd voru kosnar Linda Björk Hallgrímsdóttir, Þórunn Sigurþórsdóttir og Hrafnhildur Ævarsdóttir. Skoðanamenn reikninga voru kosnar Ingibjörg Eiríksdóttir og Auróra Friðriksdóttir.

Eftir hefðbundin aðalfundarstörf var stjórn með þrjú önnur mál. Ný rafræn félagaskírteini voru kynnt og síðan stuttlega farið yfir skýrsluna frá málþingi um menntun landvarða. Í lokin voru svo þrjár ályktanir lagðar fyrir aðalfund til samþykktar. Þær voru samþykktar samhljóða með örlitlum málfars og áherslu breytingum sem stjórn hefur nú gengið frá og birtast ályktanir hér fyrir neðan.

Ályktun aðalfundar Landvarðafélags Ísland um stofnanasamninga við Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og Þjóðgarðinn á Þingvöllum. 

Nú hefur nýr kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Ísland og ríkisins verið samþykktur. Það er ljóst að hann hefur í för með sér töluverðar breytingar á kjörum og vaktafyrirkomulagi landvarða. Við teljum þess vegna nauðsynlegt sé að endurskoða stofnanasamninga við þær þrjár megin stofnanir sem landverðir starfa hjá. Í dag eru tveir stofnanasamningar, einn við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun og annar við Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Aðalfundur hvetur þessar þrjár stofnanir til að semja saman einn stofnanasamning við Starfsgreinasambandið. Það yrði mikið framfaraskref fyrir landverði ef kjör þeirra verða samræmd á milli stofnana og fyrsta skref í því að sameina málefni landvarða undir einum hatti hjá ríkinu.

Ályktun aðalfundar Landvarðafélags Ísland um Þjóðgarðastofnun

Aðalfundur Landvarðafélagsins Íslands, haldinn 6. maí 2020 telur mikilvægt að koma málefnum friðlýstrasvæða undir eina ríkisstofnun. Á vorþingi  ætlaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp um Þjóðgarðastofnun. Nú hefur því verið frestað fram á haustþing vegna þeirra aðstæðna sem ríkja í samfélaginu og á Alþingi vegna Covid-19. Aðalfundur Landvarðafélags Ísland 6. maí 2020 hefur skilning á því en telur jafnframt að nauðsynlegt sé að taka frumvarpið til umfjöllunar á haustþingi. Ekki einungis vegna þess að frumvarp þetta mun samræma og bæta alla náttúru- og umhverfisvernd á Íslandi. Heldur einnig sameina alla landverði og þeirra störf undir eina stofnun. 

Ályktun aðalfundar Landvarðafélagsins um Hálendisþjóðgarð

6. maí 2020 samþykkti aðalfundur Landvarðafélagsins ályktun þar sem mikilvægi Hálendisþjóðgarðs er undirstrikað. Nú hefur frumvarpi um Hálendisþjóðgarð sem áætlað var að leggja fyrir vorþing Alþingis verið frestað fram á haust. Aðalfundur Landvarðafélagsins hefur fullan skilning á frestun frumvarpsins en á sama tíma leggur hann áherslu á að frumvarpið verði tekið til umræðu og samþykkt á haustþingi. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu. Nú þegar byggja þarf aftur upp samfélagið telur aðalfundurinn nauðsynlegt að byggja það upp í meiri sátt við náttúruna og umhverfið. Hálendisþjóðgarður mun efla náttúrvernd til muna á Íslandi og gera alla vinnu við vernd og umgengni um hálendis Íslands skilvirkari. Hálendisþjóðgarður mun einnig skapa fleiri störf og efla byggðir í kringum landið. Aðalfundurinn telur einnig að nú þegar uppbygging ferðaþjónustunnar hefst aftur þá felist tækifæri í því að gera það samhliða uppbyggingu Hálendisþjóðgarðs með meiri samvinnu og markvissari vinnu um verndun náttúru Íslands sem er mesta auðlind þjóðarinnar.

Krækjur á gögn frá aðalfundi