Viljayfirlýsing um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands
Samtökin sem standa að þessari yfirlýsingu vilja ná sem víðtækastri samstöðu um verndun miðhálendis Íslands með stofnun þjóðgarðs í eigu íslensku þjóðarinnar allrar. Við teljum að hálendisþjóðgarður yrði stærsta framlag okkar tíma til náttúruverndar á Íslandi. Hann myndi styrkja ímynd Íslands sem lands náttúruverndar og yrði til hags fyrir fólkið í landinu og þá sem sækja Ísland heim. Þjóðgarðurinn yrði griðastaður fyrir þá sem vilja njóta náttúru miðhálendisins og nýta hana til útivistar og náttúruupplifunar.
Verðmæti
Miðhálendið er einn mesti fjársjóður landsins. Þar má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar. Saman mynda þessi náttúrufyrirbæri stórbrotnar landslagsheildir á einum stærstu víðernum Evrópu. Kraftarnir sem náttúruöflin leysa úr læðingi, þar með talið samspil elds og íss, móta stöðugt þetta tilkomumikla landsvæði, en öræfakyrrðin sem á það til að umlykja ferðalanga er ógleymanleg hverjum þeim sem hana hefur upplifað.
Að finna megi á einu svæði samansafn þeirra náttúruverðmæta sem hér er lýst er einstakt á heimsvísu. Að auki fækkar stöðugt í heiminum stórum óbyggðum svæðum og víðernum þar sem náttúran ræður ríkjum. Við Íslendingar erum enn í þeirri öfundsverðu stöðu að geta staðið vörð um þessi verðmæti hér á landi með því að vernda miðhálendið.
Aðgengi
Réttur almennings til útivistar og náttúrufræðslu innan þjóðgarðsins skal vera tryggður. Einnig þarf að taka fullt tillit til áratuga sögulegrar nýtingar útivistarfélaga á miðhálendinu og allar nauðsynlegar breytingar sem kunna að eiga sér stað skulu teknar í samráði við fulltrúa þessara hagsmunahópa. Einn af hornsteinum hálendisþjóðgarðs er skilningur fyrir nauðsyn þess að útivistarfólk geti nýtt miðhálendið með sjálfbærum og ábyrgum hætti, hvort sem ferðast er akandi, gangandi, ríðandi, hjólandi, róið á vötnum eða þegar farið er til veiða.
Tækifæri
Í þjóðgarði felast mörg tækifæri. Náttúruvernd er þar undirstaðan því tækifærin byggja á því að náttúrugæðum miðhálendisins verði ekki raskað frekar og að upplifun víðerna- og óbyggða sem þar má finna hverfi ekki. Fyrir ferðaþjónustuna er það grundvallaratriði því ferðamenn sækja í miðhálendið vegna upplifunarinnar sem þar býðst. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja að ferðaþjónustufyrirtæki geti starfað á miðhálendinu í samræmi við markmið um sjálfbæra þróun. Búa þarf svo um hnútana að hægt sé að þróa atvinnustarfsemi sem spillir ekki náttúrugæðum miðhálendisins, en hefur á sama tíma jákvæð áhrif á byggða- og atvinnuþróun í nærsveitarfélögum og landinu öllu.
Mörk þjóðgarðsins tækju mið af svæðisskipulagi miðhálendisins. Við skipulag hans yrðu verndarflokkar Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, (IUCN, International Union for Conservation of Nature), hafðir að leiðarljósi. Verndarflokkar IUCN gera kleift að flokka svæði í mismunandi verndarflokka eftir því hvaða starfsemi er leyfð. Miðhálendið er stórt svæði og mismunandi verndarflokkar eru mikilvægir til að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu hálendisins, og mæta margvíslegum þörfum þeirra sem þess njóta.
Samvinna
Þátttaka náttúruverndar- og útivistarhreyfinga, aðila í ferðaþjónustu, auk ríkis og sveitarfélaga að stjórn þjóðgarðsins er meginatriði að okkar mati.
Taka þarf tillit til nýtingarréttar og skilningur þarf að ríkja á nauðsyn þess að bændur, ferðaþjónustan og útivistarfólk geti nýtt miðhálendið í samræmi við markmið um sjálfbæra þróun.
Hálendisþjóðgarður myndi tryggja yfirsýn og stýringu ferðamála í takt við náttúruvernd og um leið einfalda og styrkja stjórnkerfið sem ferðaþjónustan treystir á. Þá myndi samvinna náttúruverndarsamtaka, útivistarsamtaka, aðila í ferðaþjónustu, nærsveitarfélaga og ríkis þegar kemur að náttúruvernd, innviðastyrkingu og atvinnustarfsemi verða skilvirkari og gagnsærri.
Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu yrði fallið frá frekari virkjunum og háspennulínum á svæðinu. Mikilvægt er að ná sátt um gerð vega á miðhálendinu. Það ættu að vera ferðamannavegir sem raski sem minnst náttúrfari og falla vel að landi.
Hálendisþjóðgarði fylgdi þannig nýting í formi útivistar og ferðamennsku sem byggði á sjálfbærri atvinnuþróun.
7. mars 2016
________________________________ ______________________________
f.h. Landverndar f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands
_________________________________ ______________________________
f.h Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) f.h. Ferðafélagsins Útivistar
____________________________________ __________________________________
f.h. Gætum garðsins f.h. Ferðaklúbbsins 4×4
___________________________________ ____________________________________
f.h. Náttúruverndarsjóðs Pálma J. f.h. Skotvís
__________________________________ ____________________________________
f.h. Íslenska Alpaklúbbsins f.h. Fuglaverndar
__________________________________ ____________________________________
f.h. Ungra umhverfisverndarsinna f.h. Framtíðarlandsins
__________________________________ ____________________________________
f.h. Eldvatna f.h. NAUST
__________________________________ ____________________________________
f.h. NSVE f.h. NSS
__________________________________ _______________________________
f.h. Félags um verndun hálendis A-lands f.h. Landvarðafélags Íslands
__________________________________ ____________________________________
f.h. Vina Þjórsárvera f.h. Áhugahóps um verndun Jökulsána í Skagafirði