Landvörður vikunnar, 3. – 9. ágúst

Vonandi áttu lanverðir góðan Alþjóðlegan dag landvarða, síðastliðinn föstudag. Eftir hann byrjaði ágúst mánuður og má því með sanni segja að tekið er að líða á seinni hluta þessa sumars. Bráðlega fara landverðir að detta af svæðunum sínum og halda í það sem þeir gera á veturna. En landvörður vikunnar heldur áfram og að þessu sinni kíkjum við enn á ný í Vatnajökulsþjóðgarð.

 

Landvörður vikunnar er Stefanía Ragnarsdóttir og starfar hún í Nýadal  á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður?
Þetta er þriðja sumarið mitt.

Hefuru unnið sem landvörður á fleiri stöðum á landinu?
Já, var eitt sumar í Skaftafelli

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?
Drekk aðallega rauðvín fyrripartinn, banna svo hitt og þetta eftir skapi, skoða svo blóm og steina…

Svona án gríns þá er starfið ótrúlega fjölbreytt og krefjandi. Maður þarf að ganga og jeppast, stika gönguleiðir eða ákveða að stika alls ekki. Vera með fræðslugöngur og gefa ábendingar til ferðafólks um áhugaverða staði eða óveður eða jafnvel eldgosahættu. Raka eftir utanvegaakstur og ótrúlegt en satt útskýra utanvegaakstur, ræsa úr pollum, tína rusl o.sfrv …

Hvaða eiginleika þinnar starfstöðvar finnst þér mikilvægast fyrir landvörð að gæta? 
Sprengisandurinn og Tungnaöræfin eru ótrúleg svæði þar sem hægt er að upplifa hágæða íslensk víðerni og frelsi. Auðvelt er að segja að gæta þarf landsins sérstaklega fyrir utanvegaakstri og að skiltin verði ekki of mörg…

En svo eru það stóru skemmdirnar. Landverðir vinna hjá ríkinu við að vernda landið útaf ferðafólki, en það þarf fyrst og fremst að vernda það fyrir ríkistjórninni… Það er víst ekki hægt að raka yfir þær skemmdir eins og utanvegaaksturinn.

Hvað geriru á veturna?
Hitti meira af fólki, vinn og klifra í Klifurhúsinu, læri grafíska hönnun í lhí, fer stundum upp á jökul með fjalló, mála og teikna.

Hvert er uppáhalds fjallið þitt?
Skrauti í Vonarskarði.

Hvert er uppáhalds blómið þitt?
þau eru nú þónokkur sem gleðja… Fjalladepla, blágresi, eyrarrós og svo er lambagrasið klassík.

Ef þú gætir unnið sem landvörður hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vilja vinna?

Klifurlandvörður í Yosemite gæti verið ágætt…

Hver er þín sutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?
Mjög stutt er: manneskja sem elskar mosa.