Eru landverðir bara að tína rusl?

landvardadagurinn skaftafell

Landverðir vinna í þjóðgörðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum. Starfið er margþætt og þótt oft á tíðum virðist bera mest á ruslatínslunni (hafa landverðir ekki farið varhlutan af að tína upp klósettbréf og annað ófögnuð) þá er það langt í frá það eina sem landverðir gera. Fjölbreytileikinn er það sem einkennir starf landvarða og er fræðsla til gesta einn af mikilvægum þáttum í starfi landvarða ásamt eftirliti með umgengni og umferð fólks þar sem gætt er þess að náttúruverndarlögum sé fylgt. Viðhald og merking göngustíga eru einnig á könnu landvarða og spilar öryggisþátturinn líka stórt hlutverk, t.d. vara landverðir við hættum og setja upp viðeigandi merkingar.

 

Landverðir út um allan heim eru í grunninn að vinna að því sama, vernda og fræða. Starfið er að vísu mishættulegt eftir svæðum og geta landverðir þurft að takast á við t.d. veiðiþjófnað og hættulegt dýralíf. Landverðir um allan heim munu fagna alþjóðadegi landvarða 31. júlí en sá dagur var haldinn í fyrsta skipti 31. júlí 2007 á 15 ára afmæli Alþjóðlega landvarðafélagsins (International Ranger Federation).

landvardadagurinn skaftafell

Landvarðafélag Ísland er eitt af 63 landvarðafélögum víðsvegar um heiminn sem eru hluti af Alþjóðlega landvarðafélaginu (IRF) og mun halda upp á daginn. Dagurinn er haldinn til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Einnig er þessi dagur haldinn hátíðlegur til að fagna starfi landvarða um allan heim við að vernda náttúru- og menningalegu verðmæti heimsins.

Landverðir víðsvegar um landið bjóða fólki að fagna með sér með ýmsum hætti:

Landverðir í þjóðgarðinum á Þingvöllum taka forskot á sæluna en þeir munu ræða vinnu sína, uppáhalds staði og reynslu sína af þjóðgarðinum þegar unnið er á bak við birkið fimmtudagskvöldið 30. júlí.

Á sjálfan Alþjóðdaginn 31. júlí þá munu landverðir í þjóðgarðinum Snæfellsjökli bjóða gestum að gerast „landvörður í einn dag“.

Í friðlandinu í Vatnsfirði bjóða landverðir í fjallgöngu upp að Helluvatni. Mæting er við Hótel Flókalund kl. 13:00, þar sem gangan hefst. Nánari upplýsingar í síma: 822-4019.

Landverðir í Öskju bjóða upp á göngu kl: 13:00 þar sem verður lögð sérstök áhersla á þátt landvörslu í verndun nýs náttúrufyrirbæris. Landverðir hafa unnið að því að veita aðgengi að “nýja Holuhrauni” með markvissri stýringu ferðafólks, landvörslu og fræðslu á sama tíma og fyrirbæri eru tekin frá til verndar. Gangan hefst við austara bílastæðið og tekur 45 mínútur

Landverðir í Krepputungu bjóða upp á göngu kl: 17:00 – Krepputungan er oft á tíðum bara leið á áfangastað sem er þá Kverkfjöll, Hvannalindir og/eða Askja. Oft er gefið sér lítill tími til að doka við og upplifa landslagið, en landverðir stefna á að opna augu fólks fyrir Krepputungunni og landvörslu. Nánari upplýsingar er í sima: 842-4234

Í Skaftfelli bjóða landverðir fólki í Skaftafellsstofu á Meet the Rangers þar sem sýndar verða myndir úr starfi og landverðir deila reynslusögum.

 

Vona að þið sjáið ykkur fært að taka þátt í einhverju af þessu með okkur og fagna deginum.

Landverðir – til hamingju með daginn.