Landvörður vikunnar, 10. ágúst – 16. ágúst

Þar með lýkur landverði vikunnar þetta sumarið. Við höfum stoppað víða á þessari yfirferð yfir svæði og landverði þessara þriggja stofnanna sem hvað duglegastar eru að halda úti landvörslu hér á Íslandi. Landverðir vikunnar hafa verið mismunandi eins og þeir voru nú margir en vissulega er mikil tenging á milli þeirra og svo sannarlega svipaður þráður í svörunum. Sérstaklega í þeim svörum sem sneru að því hvað felst í því að vera landvörður. Lykilorðin maður og náttúra var þar til staðar og oftar en ekki tengingin þar á milli. Skemmtilegast var þó hvað landverðir voru fjölbreytilegir í vali á uppáhalds blómi og mögulegum þjóðarfugli.

Landvörður þessa síðustu viku er Gunnar Grímsson og starfar hann í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

 

Hvað hefurðu unnið lengi sem landvörður?

Þetta er mitt þriðja sumar sem landvörður.


Hefurðu unnið sem landvörður á fleiri stöðum á landinu?

Ásamt Þingvöllum hef ég unnið í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

 

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?

Ýmislegt minniháttar viðhald á mannvirkjum, fræðsla og upplýsingar til gesta, skipulagðar göngur, veiðieftirlit, tjaldsvæðarukkun, ruslatínsla og að sjálfsögðu klósettþrif.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Það er mjög gefandi að tala við gesti og veita fólki innsýn í náttúru og sögu staðarins. Svo er útivera yfir höfuð almennt mjög skemmtileg.

 

en leiðinlegast?

Að lagfæra för eftir utanvegaakstur.


Hvert er uppáhalds fjallið þitt?

Bárðarkista því þar á að leynast fjársjóður.

 

Hvert er uppáhalds blómið þitt?

Gullkollur.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Haförninn.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Maður er eins og húsvörður, nema bara að húsið er dálítið stórt.