Landvörður vikunnar, 15. – 21. júní

Nú ættu flestir landverðir að vera komnir til vinnu og mörg svæðin öll að lifna við af gestum og gróðri. Sum hafa þó ekki ennþá fengið vott af sumri til sín og eru jafnvel ennþá klædd hvítri kápu. Þessa vikuna lítum við á eitt slíkt svæði til landvarðar sem starfar á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Þessa vikuna er Sigurður Erlingsson landvörður vikunnar. Sigurður hefur starfað sem landvörður við Dettifoss að vestan en hefur starfað við Öskju í vetur vegna eldgossins í Holuhrauni. Sigurður verður því þar þetta sumarið og er trúnaðarmaður norður- og austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður?

Þetta er annað vorið mitt við Dettifoss en verður fyrsta sumarið. Hef þó oft farið með landvörðum og reynt að hjálpa til. Ég vann áður sem leiðsögumaður og fyrirtækið sem ég var með var með nokkra staði. Þar kom ég inn á margt sem að landverðir eru líka í, t.d gönguleiðagerð -merking og -stjórnun. Annars má segja að ég hafi byrjað sem landvörður í móðurkviði í Mývatnssveit sumarið ´77.

 

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi?

Ég er að mörgu leyti búinn að vera í dálítið sérstöku starfi, kannski dálitlu brunaliði. Söfnun og miðlun upplýsinga er stór þáttur. En við Dettifoss er gæsla á öryggi gesta mjög stórt atriði. Þar notum við snjóstikur til að stjórna umferð. Aðstæður þarna á vorin voru að miklu leyti óþekktar, það breyttist með nýja veginum fyrir ca 5 árum. Á vorin þarf stundum að breyta gönguleiðum á hverjum degi vegna leysinga, jafnvel lína sem maður hefur lagt um morguninn þarf að breyta seinnipartinn því að leysingavatn hefur fundið sér leið gegn um snjóinn. Svo er viðhald göngustíga stórt mál. Þeir eru á stórum hluta í lausum sandi þannig að drena og ræsta þá fram sklar miklu í gróðurvernd. Ef vatn rennur yfir stíginn á kafla þá færir fólk sig út á gróðurinn sem ekki er svo mikið af.

Og svo eru auðvitað kamarþrif og pot.

 

Hvaða eiginleika þinnar starfstöðvar finnst þér mikilvægast fyrir landvörð að gæta?

Mér finnst sérstaðan kannski vera að svæðið er á hálendinu en það er uppbyggður malbikaður vegur þangað. Fólk kemur til að sjá Dettifoss „Most powerfull waterfall in Europe“ en fær nasaþef af öræfum. Þannig að reyna að gæta upp á og miðla óbyggðastemmingunni finnst mér mikilvægt en það getur verið erfitt á stað þar sem gestum fjölgar mjög hratt. En með góðu aðgengi að Dettifossi verður kannski hægt að vernda miðhálendið fyrir malbikuðum vegum og massatúrisma eitthvað lengur.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?

Ég er eiginlega bestur einhverstaðar einn út í náttúrunni með járnkarl og skóflu. Það að ræsta fram poll á göngustíg sem kannski hefur verið alltaf þarna þegar rignir með tilheyrandi utanslóðalabbi, svo kemur meður næsta dag og allir halda sig á stígnum, það er rosalega gefandi. En einnig munur frá ári til árs, að fá að sjá hvaða máli vinnan skiptir.

Það að tala og miðla upplýsingum til fólks er einnig gaman en „verðlaunin“ eru frekar óáþreifanlegri.

 

en leiðinlegast?

Ég hef svo sem enga sérstaka ánægju af því að hræra upp í kömrum en ætli það leiðinlegasta sé ekki að sjá skaða á náttúrunni. Að sjá fólk misvirða beiðnir og bönn, kannski beint fyrir framan nefið á þér og ganga og troða niður viðkvæman gróður af því það vill ekki fá sand á skóna… Vilja svo ekki skilja þegar maður reynir að útskýra fyrir þeim af hverju við biðjum það að fylgja merktu slóðinni. Ef maður lendir í nokkrum í röð sem að „skilja“ ekki sem mér finnst skýr skilaboð, þá er stundum erfitt næst að vera ekki fúli byrsti kallinn sem að segir hárri ákveðinni rödd. „Ekki ganga á gróðrinum, fylgið helvítis leiðinni. Þá er meira að segja stundum nokkuð gefandi á sjá þá sökkva í krapa upp fyrir hné 🙂

Hvað gerirðu á veturna?

Ég hef verið að gera eitt og annað en í vetur var ég landvörður við eldgosið. Ég læt ráðast hvað ég geri næsta vetur. Annars finnst mér þessi spurning frekar sorgleg, hún sýnir hvað það er lítið til af heilsárslandvörðum sem þó er svo mikil þörf á. En ég er núna landvörður alveg rúmt hálft árið svo þarf maður eitthvað frí og oft hægt að grípa í leiðsögn.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn?

Húsönd, restin af Íslandi bara óheppin. Svo skemmtilegt sambýli manna og fugla sem að tengjast þeim fugli og hvað Mývetningum þykir almennt vænt um hana.

 

Hver er uppáhalds gönguleiðin þín á íslandi?

Af merktum leiðum er það leiðin milli Vesturdals (Hljóðakletta) og Dettifoss um Hafragilsundirlendið. Alveg magnað. En einna skemmtilegast þykir mér að ganga og smala fé og líklega enginn hefur gengið síðan ég fyrir ári.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?

Línudans að mörgu leyti. T.d. finna línuna milli verndar og aðgengis.