Landvörður vikunnar, 8. – 14. júní

Nú er önnur vika júní mánaðar hafin og tími til að útnefna nýjan landvörð vikunnar. Frá Skaftafelli horfum við þvert yfir landið og alla leið á Vestfirði. Að þessu sinni er það landvörður úr röðum Umhverfisstofnunnar sem tekur á móti okkur.

 

 

Landvörður vikunnar, 8. til 14. júní, er Dagný Bryndís Sigurjónsdóttir. Hún starfar í Vatnsfirði og er trúnaðarmaður landvarða fyrir Umhverfisstofnun.

Í stuttu máli, hvað gerir þú í þínu starfi? Ég er mikið í eftirliti og viðhaldi stíga, þar af eru nokkrar vikur sem ég hef sjálfboðaliða í liði með mér í stærri verkefni við viðhald og lagningu á nýjum göngustígum. Annars er ég oftast ein á ferðinni með verkfæri og nesti á bakinu í þessu. Ég er með skipulagðar gönguferðir fimm sinnum í viku upp í Surtabrandsgil. Vinnusvæðið er mjög stórt og það getur farið mikill tími í akstur þar sem ég fer suma daga nánast alla sunnanverða Vertfirði eða frá Vatnsfirði, til Dynjanda, á Bjargtanga og jafnvel með viðkomu á Rauðasandi.

 

Hvað hefuru unnið lengi sem landvörður?Þetta er þriðja sumarið mitt.

 

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?Það er svo svakalega margt skemmtilegt við starfið. Það er mjög skemmtilegt að hitta fólk allstaðar að úr heiminum og best er þegar maður finnur að skipulagðar gönguferðir hafa aukið á jákvæða upplifun gesta. Ég hef einnig mjög gaman af að vinna í stígagerð og að halda skrá yfir hvaða dýrategundir eru á svæðinu og hvar innan þess.

 

…en leiðinlegast?Það er minna skemmtilegt að lenda í þrætugjörnum gestum og laga skemmdir sem hafa verið unnar í virðingarleysi. En sem betur er það ekkert sem ég hef verið að takast á við daglega.

 

Hvað geriru á veturna? Ég hef verið búsett erlendis síðustu 4 ár þar sem ég hef bæði numið félagsmannfræði og unnið. Það er svo dásamlegt að koma heim á sumrin, hitta fjölskyldu og vini, og njóta útivistar og Íslenskrar náttúru.

 

Hvert er uppáhalds fjallið þitt?Súlur í Eyjafirði.

 

Hver finnst þér að ætti að vera þjóðarfuglinn? Hrafninn.

 

Hver er frægasta manneskjan sem þú hefur hitt í þínu starfi sem landvörður? Homo islandus.

 

Hver er þín stutta skilgreining á hvað það er að vera landvörður?Örstutta svarið er; Landvörður er sá sem sinnir eftirliti og stuðlar að jafnvægi milli náttúru og manns á náttúruverndarsvæðum.