Aðalfundur 10. apríl 2012

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands 10. apríl 2012 kl. 19
Fundarstaður:  Litla Brekka, Lækjarbrekku, Bankastræti 2, Reykjavík

Mætt:  Ásta Rut Hjartardóttir, Linda Björk Hallgrímsdóttir, Friðrik Dagur Arnarson, Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, Hákon Ásgeirsson, Kristín Þóra Jökulsdóttir, Gunnar Guðjónsson, Steinunn Egilsdóttir, Örn Þór Halldórsson, Ingibjörg Eiríksdóttir, Aurora G. Friðriksdóttir, Torfi Stefán Jónsson, Þórunn Sigþórsdóttir.  

Dagskrá
1.  Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, ávarpaði fundinn.  Hún ræddi um nauðsyn þess að störf landvarða verði metin að verðleikum.  Að hennar mati er fræðsluhlutverkið mikilvægasta hlutverk landvarða, og það að setja náttúruna í fyrsta sæti, og hagsmuni komandi kynslóða.  Ræddi um náttúrubrest, að fólk sé búið að missa tengsl við náttúruna.  Til að mynda verja börn í Bretlandi sífellt meiri tíma fyrir framan tölvu, og það heyrist jafnvel að hér á landi megi finna börn sem hafa aldrei gengið í fjöru eða á þúfum og aldrei farið á fjöll.  Þau verja lífi sínu algerlega í manngerðu umhverfi.  Að hennar mati eru heilsárslandverðir mikilvægir til þess að auka tengslin á hverjum stað.  Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga þess efnis að breyta Umhverfisráðuneytinu í Umhverfis og auðlindaráðuneyti. Sumar stofnanir fara sjálfkrafa inn í þetta nýja ráðuneyti, en óljóst er með aðrar.  Stóra málið verður endurskoðun á Náttúruverndarlögum, og stefnt er að því að skila drögum að frumvarpi í maí.  Svandís óskaði einnig eftir því að landverðir lesi frumvarpið yfir og komi með athugasemdir.  Margt mætti fara betur, til að mynda gilda válistar ekki fyrir lögum.  Rammaáætlun er einnig í farvatninu, líka í farvatninu að Umhverfisstofnun fái fjárveitingu til að hefja friðlýsingarferli strax.  Jafnvel hugmynd um 5 nýjar stöður.  Síðan stendur til að sameina þjóðgarðana í eina þjóðgarðsstofnun.  Ákvörðun að hennar hálfu liggur fyrir, en það sem er enn óljóst er staða Þingvalla.  Í hennar huga þá á að halda inni svæðisráðunum, sem komið var á við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.  

Friðrik Dagur benti á nauðsyn þess að stofna stöður heilsárslandvarða, sem myndu nota veturinn í að fara í skóla, en vinna úti á sumrin.  Hann spurði einnig að því hvort stefnt verður að því að hafa atvinnuátaksverkefnin áfram starfandi, og nefndi niðurskurð i landvörslu.  Svandís sagði að það væri stefnt að því, og sagði að hennar stærstu beiðnir til fjárlaga snúast um landvörslu.  

Örn nefndi hvort það ætti að skjóta tekjum undir væntanlega þjóðgarðastofnun, þ.e. með gjaldtöku á ferðamönnum.  Svandís nefndi að gistináttagjaldið sem átti að verða áhrifaríkt varðandi þetta, hafi tekið breytingum á þingi, þannig að það varð ekki að þeirri lyftistöng sem það átti að vera.  Svandís er þó ekki mjög hrifin af almennri gjaldtöku inn á svæðin.  

Torfi nefndi að bæði hvað varðar  Vatnajökulsþjóðgarð og Þingvallaþjóðgarð, þá eru yfirmenn þjóðgarðanna ekki staðsettir innan þjóðgarðanna, heldur vinni í Reykjavík.  Svandís telur þetta ekki vera til ama, heldur sé mikilvægara að það sé nægilegt vinnuafl á svæðunum.  

Friðrik Dagur nefndi einnig að það væri mikilvægt að búa til betri umgjörð fyrir aðkomu áhugamanna og frjálsra félagasamtaka að ákvarðanatöku varðandi náttúruverndarmál.

Ingibjörg Eiríksdóttir spurði um það hvort það væri í farvatninu að breyta aðkomu heimamanna að þjóðgörðum í hinni nýju þjóðgarðastofnun. Svandís sagði að það væri ekki í farvatninu.  

1.  Kosning fundarstjóra
Friðrik Dagur Arnarson kosinn fundarstjóri

2.  Skýrsla stjórnar
Í stjórn þessa starfsárs sátu Ásta Rut Hjartardóttir, Linda Björk Hallgrímsdóttir, Þórunn Sigþórsdóttir, Torfi Stefán Jónsson og Guðrún Lára Pálmadóttir.  Það útskrifuðust um 30 nýir landverðir nú í vor.  Dönsku landvarðasamtökin hafa boðið landverði frá Íslandi að sitja aðalfund sinn.  Þórunn fór nú í ár.  Í ágúst nú í ár á að vera námsstefna fyrir landverði í Riga í Lettlandi.  Alþjóðaráðstefna landvarða verður haldin í Tansaníu í nóvember í ár.  Varðandi kjaramál, þá samdist ekki síðasta ár.  Tengiliður landvarða hjá ASÍ hefur hætt störfum, og því hafa tengslin rofnað töluvert við það. Fræðslu og skemmtinefnd blés til ferðar um Reykjanes 17. mars.  Skráðir félagar 1. apríl eru 136.  

((samningur við Landbúnaðarháskólann))

Hákon spurði hvort það hefði verið sótt um styrk til landvarðaferðarinnar hjá Umhverfisstofnun.  Þórunn sagði að það hefði ekki verið gert nú, en það hafi verið gert áður og ekkert fengist.  Nefnt að það væri ágætt að sækja um hjá Vatnajökulsþjóðgarði og hjá þjóðgarðinum á Þingvöllum.  

Friðrik Dagur nefndi að nauðsynlegt væri að kjaranefnd og stjórn funduðu um það hvaða mál ætti að setja á oddinn varðandi kjaramál.  

Torfi nefndi að varðandi stimpilklukkur, þá eigi það að vera þannig að ef það á að vera að nota hana, þá eigi líka að nota þetta, þ.e. ef einhver bankar á hurðina, þá eiga landverðir líka að stimpla það inn.  

Friðrik Dagur – félagið þarf að gera mjög harðar kröfur á Umhverfisstofnun að það verði fundað um þessi mál, hvað varðar landvarðaréttindi og kennslu.

Skýrsla stjórnar var samþykkt.

3.  Endurskoðaðir reikningar

Torfi Stefán Jónsson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins, bæði frá árinu 2010, þar sem þeir voru ekki samþykktir á síðasta aðalfundi, og frá árinu 2011.

Reikningar ársins 2010 voru samþykktir.  
Ekki var búið að ná í báða endurskoðendur reikninga varðandi árið 2011, og í þá reikninga vantaði aðalfundinn.  Samþykkt með athugasemdum um að reikningsnúmer er rangt á yfirlitinu, og að það þarf að laga reikningsskekkju upp á 500 kr.  

4.  Lagabreytingar
Stjórnin kom fram með tillögur um lagabreytingar um það að fækka nefndum.  Tvær tillögur eru settar fram.  Í þeirri fyrri er sett fram sú tillaga að kjaranefnd og laganefnd væru sameinaðar, en að Umhverfis og náttúruverndarnefnd verði lögð niður.  Í þeirri síðari er einnig auk þessara breytinga lagt til að ritnefnd verði lögð niður, og að Fræðslu og skemmtinefnd sinni fræðslu og upplýsingamiðlun.  
Kristín Þóra nefndi að henni þætti mjög leiðinlegt að Umhverfis og náttúruverndarnefnd yrði lögð niður.  Fram komu hugmyndir um það hvort það gæti verið gott að taka upp samstarf við náttúruverndarsamtök.  

Friðrik Dagur nefndi að stjórnir félagsins mættu vera duglegri að „reka“ nefndir félagsins áfram.  Linda Björk var sammála þessu.  Ingibjörg Eiríksdóttir nefndi að það gæti verið gott að stjórn hitti meðlimi nefnda.  Linda nefndi einnig að hlutverk nefndarmeðlima væri óljóst og það hvernig þeir skipta með sér verkum.  Gerð var smávægileg breyting á lagabreytingatillögunum, og skáletruðum texta bætt við „Á vegum félagsins starfa fastanefndir.  Kosið er um alla meðlimi þeirra til eins árs í senn og þeir skipta með sér verkum“.  

Friðrik Dagur nefndi varðandi Umhverfis og náttúruverndarnefnd að í stað hennar þyrfti stjórnin að vera vakandi um þessi málefni og skipar nefndir varðandi þessi mál ef þurfa þykir.  

Varðandi sameiningu kjara og laganefnda, þá nefndi Friðrik Dagur að starfsemi þessara nefnda væri tímabundin, og skaraðist ekki.  Því hentaði þetta ágætlega.

Steinunn Egilsdóttir nefndi að nauðsynlegt væri að muna að það eru ekki allir á Facebook, og því þurfi vefur félagsins einnig að vera virkur.  

Tillaga 2 var samþykkt.  

4.  Ákvörðun félagsgjalda
Þau eru óbreytt, 2500 kr. á ári.  

5.  Kosning stjórnar
Kosið er um tvo meðstjórnendur, og tvo varamenn.  Guðrún Lára Pálmadóttir gefur ekki kost á sér áfram, en Torfi Stefán Jónsson gefur áfram kost á sér.  Örn Þór Halldórsson var kosinn nýr meðlimur stjórnar.   Kristín Þóra Jökulsdóttir og Elías Már Guðnason bjóða sig áfram sem varamenn, og voru kosin sem slík.  

6.  Kosning nefnda
Kjara og laganefnd:  Kristín Þóra Jökulsdóttir og Torfi Stefán Jónsson bjóða sig fram í þessi störf.  Unnur …. var áður í þessari nefnd.  Ingvar Einarsson og Hrönn Guðmundsdóttir voru kosin sem varamenn (án þess að vera viðstödd).

Fræðslu og skemmtinefnd:  Örn Þór Halldórsson býður sig fram áfram.  Sævar xxx kosinn (fjarverandi) í nefndina.  Ákveðið var að þeir myndu finna þriðja meðliminn.

Alþjóðanefnd:  Bauð sig fram áfram.

Endurskoðendur:  Ingibjörg Eiríkdóttir og Aurora G. Friðriksdóttir kosnar áfram.  

7.  Önnur mál:
Stjórn falið að senda mjög ákveðið bréf til Umhverfisstofnunar, með afriti til Umhverfisráðuneytis, þar sem óskað er eftir því að stofnunin hafi samband við gamalreynda landverði og athugi hvort þeir ætli að starfa áfram, þar sem upp hefur komið mál þar sem landvörður með margra ára starfsreynslu fékk ekki starf sökum þess að hann sótti um einungis nokkrum klukkustundum of seint.  

Ingibjörg Eiríksdóttir nefndi að nauðsynlegt væri að félagið ýtti á að landverðir gangi í félagið.  Félagið ætti að fá nemendalistann af landvarðanámskeiðinu, og senda bréf á þau.

Kristín Þóra óskaði eftir skoðunum fólks varðandi launamál.  Ríkið vill minnka dagpeningagreiðslur.  Fundarmenn nefndu að nauðsynlegt væri að ef stimpilklukka á að vera til staðar, þá stimpli landverðir sig inn hvenær sem er þegar landverðir eru ræstir út aftur.  

Friðrik Dagur nefndi einnig skópeningana sem í boði eru.  Í ljós hefur komið að fáir landverðir hafa nýtt sér þetta.  Nauðsynlegt að minna landverði á þetta.  Friðrik Dagur nefndi að stjórnin ætti að senda út áminningu fyrir félagsmenn um það að nýta skópeningana.  

Kristín Þóra nefndi að meistaragráður gefi ekki neina hækkun á launaflokkum.  Ýmislegt undarlegt varðandi launaflokka og menntun.  Til að mynda gefur ferðamálafræðimenntun á framhaldsskólastigi hækkun á launaflokkum, en ekki ferðamálafræðimenntun á háskólastigi.  

Friðrik Dagur nefndi að nauðsynlegt væri að Landvarðafélagið óski eftir því að fá tengilið hjá Starfsgreinasambandinu.  

Ingibjörg Eiríksdóttir benti á mikilvægi þess að fólk ýti á „like“ á fréttir er varða náttúruverndarmál.  Friðrik Dagur sagði að það væri mikilvægt að fólk léti raddirnar heyrast.  Til að mynda væri nauðsynlegt að vekja áherslu á það að á meðan ferðamönnum fjölgar, þá fjölgar landvörðum miklu síður.  

Fundi slitið kl. 22:20

Ritari:
Ásta Rut