Aðalfundur 9. apríl 2013

Aðalfundur Landvarðafélags Íslands 9. apríl 2013 kl. 19
Fundarstaður:  Litla Brekka, Lækjarbrekku, Bankastræti 2, Reykjavík

Mætt:  Ásta Rut Hjartardóttir, Sigrún Sigurjónsdóttir, Kristín Þóra Jökulsdóttir, Aurora G. Friðriksdóttir, Helga Lilja Björnsdóttir, Ásta Davíðsdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir, Hákon Ásgeirsson, Örn Þór Halldórsson, Friðrik Dagur Arnarson, Þórunn Sigþórsdóttir, Torfi Stefán Jónsson, Sævar Þór Halldórsson, Eva Dögg Einarsdóttir

Dagskrá:

1.  Kosning fundarstjóra
Friðrik Dagur Arnarson kosinn fundarstjóri.

2.  Skýrsla stjórnar
Þórunn Sigþórsdóttir, fráfarandi formaður Landvarðafélagsins kynnti skýrslu stjórnar.  Í stjórn þessa starfsárs sátu Þórunn Sigþórsdóttir, Örn Þór Halldórsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Torfi Stefán Jónsson og Linda Björk Hallgrímsdóttir, sem þó tók sér leyfi í nóvember og kom þá Kristín Þóra Jökulsdóttir varamaður inn í stjórn.  

Í skýrslunni kom fram að stjórnin telji mikilvægt að kynna starf landvarða betur, til að mynda með því að hafa landvarðahorn á Rás 2 á Ríkisútvarpinu.  Einnig hefur verið rætt hvort sjónvarpsþátturinn Landinn á Ríkissjónvarpinu gæti verið með innslag sem fjallaði um störf landvarða.  Heimasíða Landvarðafélagsins þarfnast uppfærslu, og mun Guðrún Lára Pálmadóttir vefstjóri hennar sjá um það.  Fyrir rúmlega ári síðan kom upp mál þar sem reynslumiklum landverði var synjað um starf hjá Umhverfisstofnun sökum þess að hann hafði sótt um landvarðastarfið 5. mars 2012, en umsóknarfresturinn hafði verið fyrir 5. mars.  Þetta taldi stjórn Landvarðafélagsins vera orðhengilshátt og hafði því samband við Umhverfisstofnun.  Í svörum Umhverfisstofnunar kom fram að þetta hafi verið óheppilegt hjá þeim og því er stefnt að því að hafa skýrara orðalag framvegis þegar auglýst er eftir umsóknum.  Tveir landverðir, Linda Björk Hallgrímsdóttir og Hákon Ásgeirsson fóru á Alþjóðaráðstefnu landvarða sem haldin var í Tansaníu dagana 4. til 9. nóvember 2012.  Næsta Alþjóðaráðstefna verður haldin í Rocky Mountains í Bandaríkjunum árið 2016.  Þórunn ræddi einnig um breytingar á landvörslu komandi sumars.  Þannig verður ekki samstarf milli Ferðafélags Akureyrar og Vatnajökulsþjóðgarðs varðandi landvörslu og skálavörslu í Öskju og Herðubreiðalindum.  Í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli munu landverðir ekki sjá um Vatnshelli, og mun því landvarðastörfum fækka á því svæði, þar verða fimm landverðir í fjórum landvarðastöðum.  

Hjá Laga og kjaranefnd kom fram að engar samningaviðræður hafa farið fram á síðasta starfsári, en að það er kominn tími á að fara í þessi mál aftur.  Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður vilja taka dagpeninga út og hækka landverði í staðinn um einn launaflokk.  Þetta þykir Laga og kjaranefnd ekki vera nein kjarabót, og hefur þetta ekki mælst vel fyrir.  Einnig nefndu fulltrúar Laga og kjaranefndar að þak er á launaflokkahækkunum landvarða, þannig að upp getur komið sú staða að landverðir fái ekki metna að fullu þá menntun og reynslu sem þeir hafa.  Sömuleiðis fá yfirlandverðir einungis hækkun um einn launaflokk, þrátt fyrir að bera mun meiri ábyrgð á fjármunum og mannaforráðum en aðrir landverðir.  Þetta eru á meðal þeirra málefna sem kjaranefnd þykir mikilvægt að fá bót á.  

Fræðslu og skemmtinefnd er að skipuleggja ferð sem farin verður í Gvendarbrunna þann 18. apríl næstkomandi.  Þar mun fulltrúi Orkuveitunnar kynna vatnsverndarsvæði Reykjavíkurbúa.  Einnig er stefnt að ferð í vor í Hellisheiðarvirkjun.  

Umræður um skýrslu stjórnar:

Friðrik Dagur Arnarson nefndi að athuga ætti hvort ennþá væri inni í kjarasamningum forgangur landvarða að starfi sem þeir unnu árið áður.  Þetta nefndi hann vegna þess að upp hafa komið mál þar sem landvörður hefur ekki verið ráðinn aftur í starf, eða verið ráðinn annars staðar þótt hann hafi sótt um sitt gamla starf.  

Torfi Stefán Jónsson ræddi um stimpilklukkur, sem eru nýtilkomnar á sum starfssvæði.  Hann nefndi að það ætti að láta á það reyna að landverðir stimpli sig inn þegar þeir eru látnir vinna utan hefðbundins vinnutíma, enda eigi landverðir þá rétt á útkallslaunum.  Ef stofnanir sem hafa stimpilklukkur myndu neita að greiða viðkomandi landverði útkallslaun fyrir þessa vinnu, þá ætti að fara í mál við þær stofnanir.  

Landverðir hafa hingað til verið í Starfsgreinasambandi Íslands, en Kristín Þóra Jökulsdóttir benti á að það er félagafrelsi í landinu og að landverðir ættu að geta valið um að vera í öðru félagi en Starfsgreinasambandinu.  

Friðrik Dagur Arnarson ráðlagði landvörðum að vera meðvitaðir um launin sín og að þau séu rétt greidd út, og einnig að lesa ráðningasamningana áður en skrifað er undir þá.

Rætt var um landvarðahorn á Rás 2 og önnur kynningamál. Auk þess sem fram kom í skýrslu stjórnar, þá nefndi Ásta Davíðsdóttir að gott væri að ekki einungis landverðir úti á svæðum myndu fara í viðtal, heldur líka fulltrúi félagsins, sem myndi þá ræða almennt um störf landvarða og Landvarðafélagsins.  

Friðrik Dagur Arnarson spurði hver aðkoma Landvarðafélagsins væri að framkvæmd námskeiðs í landvörslu.  Þórunn Sigþórsdóttir sagði að aðkoman væri ekki mikil.  Friðriki Degi finnst að félagið eigi að taka meiri þátt í skipulagningu og framkvæmd námskeiðsins.  Rætt var um það að gott væri ef félagið myndi taka meira frumkvæði í að taka þátt í þessum málum.  

Skýrsla stjórnar var samþykkt með öllum atkvæðum.

3.  Endurskoðaðir reikningar
Torfi Stefán Jónsson, gjaldkeri félagsins, lagði fram endurskoðaða reikninga.  Linda Björk Hallgrímsdóttir byrjaði sem gjaldkeri á síðasta starfsári, en Torfi tók við í nóvember þegar Linda fór í leyfi.  

Endurskoðaðir reikningar voru samþykktir af fundarmönnum.

4.  Lagabreytingar
Engar breytingar voru lagðar til.

5.  Ákvörðun félagsgjalda
Samþykkt var að félagsgjöld væru óbreytt, 2500 kr á ári.

6.  Kosning stjórnar
Örn Þór Halldórsson og Torfi Stefán Jónsson sitja áfram í stjórn, en Þórunn Sigþórsdóttir og Ásta Rut Hjartardóttir ganga úr stjórn.  Á fundinum var Linda Björk Hallgrímsdóttir var kosin formaður félagsins.  Kristín Þóra Jökulsdóttir og Sævar Þór Halldórsson voru kosin sem meðstjórnendur til tveggja ára.  Eva Dögg Einarsdóttir og Ásta Rut Hjartardóttir voru kosnar sem varamenn.  

Kosning stjórnar var samþykkt af fundarmönnum.

7.  Kosning nefnda
Endurskoðendur reikninga:  Ingibjörg Eiríksdóttir og Aurora G. Friðriksdóttir halda áfram störfum sínum í þessari nefnd.

Kjaranefnd:  Torfi Stefán Jónsson og Kristín Þóra Jökulsdóttir halda áfram í nefndinni.  Auk þeirra var Friðrik Dagur Arnarson kosinn í nefndina.

Fræðslu og skemmtinefnd:  Örn Þór Halldórsson og Susanne Möckel halda áfram í nefndinni.  Auk þeirra voru Sævar Þór Halldórsson og Ásta Rut Hjartardóttir kosin í nefndina.

Alþjóðanefnd:  Aurora G. Friðriksdóttir og Ásta Davíðsdóttir halda áfram í nefndinni.  Þórunn Sigþórsdóttir var einnig kosin í nefndina.

8.  Önnur mál
Fundinum barst erindi frá Lindu Björk Hallgrímsdóttur.  Þar kom fram tillaga um að almenningi byðist tækifæri á að vera landvörður í einn dag.  Þannig mætti til að mynda nota landvarðadaginn þann 31. júlí til að bjóða upp á slíkt.  Einnig mætti skrifa Alþjóðafélagi landvarða og bera þessa hugmynd fram þar.  Á fundinum var vel tekið í þessa tillögu, og fram kom að þessu ætti að vísa til nýrrar stjórnar sem gæti kallað saman nokkra landverði til að sjá um slíkan dag.  

Friðrik Dagur nefndi að félagið ætti að láta frá sér ályktun varðandi mikla fjölgun ferðamanna.  Dag eftir dag hafa verið að koma fréttir um lélegt ástand ferðamannastaða, en þó er samdráttur í landvörslu.  Þannig er gríðarmikil fjölgun ferðamanna en eftirlitið ekki aukið.  Samin var tillaga svohljóðandi:

„Aðalfundur Landvarðafélags Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af því mikla álagi sem ýmsar helstu náttúruperlur liggja undir vegna hraðrar fjölgunar ferðamanna. Á sama tíma hefur fjöldi landvarða ekki aukist í sama mæli. Landvörslutímabil eru að mestu bundin við sumartímann, og þá jafnvel bara hluta af degi, þó ferðamannatíminn sé stöðugt að lengjast.  Yfir 80% ferðamanna koma vegna náttúru landsins og það verður að tryggja stóraukið fjármagn til uppbyggingar innviða ferðamannastaða, eftirlits og fræðslu ef auðlindin á ekki að eyðileggjast.“

Friðrik Dagur nefndi einnig að sveitafélög gætu ráðið til sín landverði og þá jafnvel í þéttbýli.

Kristín Þóra Jökulsdóttir benti á að gott væri að láta yfirmenn landvarða vita fyrir sumarið hvaða landverðir eru trúnaðarmenn.  

Í lok fundar sagði Hákon Ásgeirsson í máli og myndum frá ferð hans og Lindu Bjarkar Hallgrímsdóttur á Alþjóðaráðstefnu landvarða í Tansaníu síðasta haust.

Fundi slitið kl. 22:46

Ritari: Ásta Rut Hjartardóttir