Fundarstaður: Laugarnesvegur 80, Reykjavík.
Mætt: Elísabet Kristjánsdóttir, Rebekka Þráinsdóttir og Sveinn Klausen. Áki Jónsson, Kristín Guðnadóttir og Dagmar Sævaldsdóttir boðuðu forföll. Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, fulltrúi í alþjóðanefnd, var gestur fundarins.
Dagskrá og umræður:
- Afsögn formanns og boðun aðalfundar. Kristín Guðnadóttir hefur með formlegum hætti sagt af sér sem formaður og hætt stjórnarstörfum. Ástæðurnar eru fyrst og fremst persónulegar. Aðrir stjórnarmenn harma þessa ákvörðun, en þakka jafnframt Kristínu gott samstarf og vel unnin störf.
Þar sem kjósa þarf formann félagsins á aðalfundi var ákveðið að boða til aðalfundar félagsins fimmtudagskvöldið 10. mars. Í ljósi aðstæðna var fallið frá því að hafa aðalfundinn samhliða Landvarðaþingi. Fundarstaður var ákveðinn (Litlabrekka í Lækjarbrekku) og hugað að hugsanlegum arftaka Kristínar. Auk hennar hafa Elísabet og Sveinn ákveðið að ganga úr stjórn, þannig að kjósa þarf þrjá nýja aðalmenn. Þess utan verða eflaust einhver mannaskipti í nefndum félagsins, auk þess sem hugmyndir eru uppi um að stofna nýja nefnd. Rýnt var í félagatalið og spáð í hugsanlega kandídata í hin ýmsu embætti. Stjórnarmenn skiptu með sér verkum varðandi þreifingar. - Landvarðaþing. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að falla ekki frá því að efna til Landvarðaþings, þrátt fyrir breyttar aðstæður. Lagt var til að þingið standi heilan laugardag, helst 9. apríl, þemað verði náttúrutúlkun og farin verði vettvangsferð sem taki lungann úr deginum. Ákveðið að leita til tveggja valinkunnra kvenna úr landvarðastétt varðandi fyrirlestrahald og túlkun á vettvangi. Verkum skipt varðandi þennan þátt.
- Landvarðaráðstefna í Noregi 16. – 18. febrúar. Fengist hafa styrkir og vilyrði fyrir fjárstuðningi frá Umhverfisráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Starfsgreinasambandi Íslands. Hanna Kata og Rebekka verða fulltrúar Landvarðafélagsins og halda þær utan 15. febrúar. Ákveðið var að ef afgangur verður af styrkfénu þegar ferðakostnaður hefur verið gerður upp skuli hann renna í sérstakan ferðasjóð félagsins, eyrnamerktan alþjóðasamskiptum landvarða. Einnig var mælst til þess við útsendara félagsins að þær skýri hinum almenna félagsmanni frá helstu atriðum ráðstefnunnar og samskiptunum við norræn starfssystkin, bæði í fréttabréfinu ÝLI og á fræðslufundi.
Rætt var hvernig best sé að fulltrúar L.Í. kynni félagið á ráðstefnunni, svo og starf íslenskra landvarða og starfsaðstæður. Gestgjafar ráðstefnunnar, landvarðasamtök Noregs, ætlast til að gestirnir haldi kynningu og tengi hana þemanu „friluftsliv“. Rætt var um sérstöðu landvörslu á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin og á hvað helst ætti að leggja áherslu í kynningunni. Einnig spáð í heppilegt myndefni.