Yfirlýsing Landvarðafélags Íslands vegna niðurskurðar í landvörslu

Í apríl 2013 sendi Landvarðafélag Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem harmað var að fjölgun landvarða hefur ekki haldist í hendur við fjölgun ferðamanna og hafði félagið af því miklar áhyggjur.

Nú berast þær fréttir að Umhverfisstofnun skeri töluvert niður í landvörslu þetta árið, úr 232 landvarðavikum í 125 landvarðavikur. Þetta er gífurleg skerðing sem getur engan veginn gengið upp. Það er einfaldlega ekki rökrétt að fækka landvarðavikum um leið og ferðamönnum fjölgar og ferðatímabilið lengist.

Landverðir eru sú starfsstétt sem vinnur við það að leiðbeina og fræða ferðamenn um staðhætti hvers svæðis. Eins eru þeir ferðaþjónustuaðilum reiðubúnir til aðstoðar ef þörf krefur. Síðast en ekki síst vinna landverðir við innviði á ferðamannastöðum, merkja og setja upp skilti, sjá um þrif og eru ómetanlegir við öryggiseftirlit. Þeir fylgjast með ástand gönguleiða og fylgjast með hvar ágangur er orðinn of mikill og hvar þarf að hlúa að náttúrunni svo ekki horfi til varanlegra skemmda. Náttúran er auðlind landsins sem dregur ferðamenn öðru fremur til landsins og því er allt sem kemur í veg fyrir eftirlit, fræðslu og uppbyggingu á ferðamannastöðum á sama tíma og ferðamönnum fjölgar ár eftir ár í raun ógnun við náttúru og atvinnulíf þjóðarinnar.

Landverðir eru oftar en ekki, ásamt öðrum starfsmönnum í ferðaþjónustu, andlit Íslands út á við. Hvað Umhverfisstofnun gengur til með að ætla að skilja ýmsar náttúruperlur eftir án eftirlits er stjórn Landvarðafélags Íslands með öllu hulið. Þessar fréttir um samdrátt eru þeim mun undarlegri þegar það liggur fyrir að síðastliðið sumar annaði umfang landvörslunnar engan veginn þeim verkefnum sem þurfti að vinna, svæði voru víða undirmönnuð, vinnudagar voru of stuttir, vinnutímabil á árinu var of stutt, einkum að haustinu og mörg fjölsótt svæði nutu takmarkaðrar eða engrar beinnar landvörslu.

Það er að sönnu ósanngjarnt að þrátt fyrir það að íslenska ríkið fær miklar skatttekjur af ferðamönnum, ætlar það ekki að gera neitt til að varðveita náttúruna, náttúru sem flestir ferðamenn heillast af og nefna sem aðalástæðu ferðalags síns til landsins. Það má jafnvel spyrja hvort umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun horfist ekki í augu við borðliggjandi staðreyndir og séu með því að stefna orðspori ferðaþjónustunnar í hættu, ímynd Íslands sem hreins og ómengaðs svæðis og grundvelli þjónustunnar í tvísýnu með því að vernda ekki auðlindina sem hún byggir á.

Landvarðafélag Íslands skorar á ríkisstjórn Íslands, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Umhverfisstofnun að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurð í landvörslu árið 2014. Ennfremur skorum við á viðkomandi aðila að fjölga landvarðavikum frá því sem var 2013 eða að öðrum kosti fækka þeim ekki.

Stjórn Landvarðafélags Íslands