Votlendissvæði skráð á lista Ramsarsamningsins

Af vef umhverfisráðuneytis:

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tilnefndi Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið á lista Ramsarsamningsins yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði á ráðstefnu um votlendissvæði á Hvanneyri í dag. Umhverfisráðherra og landeigendur undirrituðu einnig viljayfirlýsingu um að friðlýsa votlendissvæði við Hvanneyri og að tilnefna svæðið á lista Ramsarsamningsins.

Markmið Ramsarsamningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega alþjóðlega mikilvæg svæði sem búsvæði fyrir votlendisfugla. Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið eru mikilvæg varp- og beitilönd heiðagæsa og Hvanneyri er mikilvægur viðkomustaður blesgæsa og annarra votlendisfugla vor og haust. Fyrir eru þrjú íslensk svæði á Ramsarlistanum: Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður.

Ísland gerðist aðili að Ramsarsamningnum árið 1978 og skuldbatt sig þar með til að lúta ákvæðum hans sem eru m.a. þau að tilnefna votlendissvæði á lista samningsins, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða, stofna friðlönd á votlendissvæðum og þjálfa starfsmenn þeirra, auk þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Votlendissvæði telst mikilvægt á alþjóðavísu þegar það fóstrar reglulega plöntu- og dýrategundir á viðkvæmu stigi lífsferils eða veitir þeim athvarf við erfið skilyrði, þegar það fóstrar reglulega 20.000 votlendisfugla og þegar það fóstrar reglulega 1% af einstaklingum stofns einnar tegundar. Alls eru 1888 svæði í heiminum á Ramsarlistanum og þekja þau ríflega 185 milljón hektara í 159 aðildarlöndum samningsins.