Viðburðir á Alþjóðadegi landvarða

lundar

Alþjóðadagur landvarða er 31. júlí ár hvert en fyrsti alþjóðadagur landvarða var haldinn 31. júlí 2007 á 15 ára afmæli Alþjóðasamtaka landvarða IRF (International Ranger Federation). Dagurinn er haldinn til að minnast þeirra mörgu landvarða sem hafa látist eða slasast við skyldustörf. Einnig er þessi dagur haldinn hátíðlegur til að fagna starfi landvarða um allan heim við að vernda náttúru- og menningalegu verðmæti heimsins. Í tilefni dagsins voru íslenskir landverðir víðsvegar um landið með gönguferðir.

 

Skaftafell

Í Skaftafelli var boðið upp á göngu frá þjónustumiðstöðinni og um Gömlutún, en þar er að finna margar tóftir, flestar frá 19. öld: bæi, fjárhús og réttir, svo eitthvað sé nefnt. Þaðan var gengið að gömlu rafstöðinni í Bæjargili og svo í Sel þar sem landverðirnir Hrafnhildur Ævarsdóttir og Sigurður Ingi Arnarson fræddu gesti um lífið í bænum og gáfu þeim svo blóðbergste og kleinur í lokin en 10 manns mættu í gönguna.

Látrabjarg

lundarLandverðir við Látrabjarg skipulögðu gönguferð um brúnir Látrabjargs og var Þröstur Reynisson landvörður leiðsögumaður. Í gönguna mættu fjórir Hollendingar og einn Íslendingur. Lagt var af stað frá Bjargtangavita og gengið upp með Látrabjargi þar sem gestir voru fræddir um fuglana í bjarginu. Helstu tegundir sem verpa í Látrabjargi eru lundi, álka, langvía, stuttnefja, rita og fíll. En einnig er þar nokkrar sjaldséðari tegundir að finna. Lundinn vekur mesta athygli, enda skrautlegur og vappar um á bjargsbrún eins og fyrirsæta sem bíður þessa að vera mynduð. Þröstur sagði frá því hvernig landeigendur nytjuðu bjargið fyrr á öldum með eggjatöku og fuglaveiðum. Það lagðist að mestu af eftir að tveir ungir menn hröpuðu þar 1926 þegar þeir voru í bjargsigi.

refirGengið var upp á Hrútanefi og þá stefnan tekin í átt frá bjarginu í Seljadal. Þar voru gestir fræddir um flóruna sem er fjölbreytt í dalnum og bragðað á berjum. Í Seljadal vaxa krækiber, bláber og aðalbláber sem vel flest voru orðin þroskuð og ómótstæðilega ljúffeng. Í dalnum er gamalt sel sem bændur frá Látrum notuðu fyrir kýr og kindur yfir sumartímann, enda er þar gott beitiland. Talið er að þetta sel sé eitt af þeim síðustu sem voru í notkun hér á landi, eða allt fram á miðja síðustu öld. Fremst í Seljadalnum er tófugreni með a.m.k. fjórum yrðlingum. Það vakti mikla lukku hjá Hollendingunum þar sem þau höfðu aldrei séð heimskautaref í villtri náttúru. Yrðlingarnir voru mis hugrakkir að sýna sig, en einn af þeim spókaði sig lengi fyrir utan grenið og lét mynda sig í bak og fyrir. Í lok ferðarinnar sýndi Þröstur gamla refagildru sem er hlaðin úr steini. Það tíðkaðist að nota þess konar gildrur fyrir tíma riffilsins. Þessar gildrur finnast um allt land og sumar þeirra standa enn eins og sú sem gestir sáu. Eftir 3 tíma göngu í blíðskapar veðri voru gestir kvaddir og allir ánægðir með velheppnaða göngu á Alþjóðadegi landvarða.