Undirritaður stofnanasamningur

Kæru félagar,

Þann 3. nóvember var stofnanasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum loks undirritaður. Eins og þið vitið hafa samningaviðræður tekið rúmt eitt og hálft ár og það eru því gleðitíðindi að hafa klárað þennan samning. 

Stofnanasamninginn er hægt að finna undir kjaramál hér á heimasíðunni eða með að smella hérna. Við hvetjum ykkur öll til að kynna ykkur hann vel. Hér fyrir neðan er samantekt á helstu breytingum á samningum:

 • Nú er, í fyrsta skipti einn stofnanasamningur fyrir Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.
 • Grunnlaun þjónustufulltrúa, verkamanna og landvarða hækka um einn launaflokk. 
 • Grunnlaun yfirlandavarða hækka um tvo launaflokka.
 • Hægt er að hækka í persónubundnum þáttum um fjóra launaflokka í stað þriggja og ekki er lengur hækkað í kjölfar endurgjafasamtals sem tekið var af næsta yfirmanni.
 • Hægt er að hækka um einn launaflokk vegna sérstakrar ábyrgðar í starfi eða aukinna verkefna sem hefur ekki verið áður.
 • Búið er að skilgreina betur hvað felst í því að starfa einn á starfsstöð.
 • Landvörður sem starfar einn á svæði/svæðum vegna forfalla meira en 5 daga í mánuði hækkar um einn launaflokk fyrir þá daga. 
 • Breyting er á launaflokkahækkun eftir starfsaldri. Í nýjum samning hækkar starfsfólk um eitt launaþrep eftir; 6 mánuði, 1 ár, 2 ár, og 5 ár.
 • Breyting er á hvernig sí- og endurmenntun er metin. Fallið hefur verið frá töflunni sem var í gamla samningnum og nú er hækkað eftir fjölda klukkustunda í endurmenntun. Bætist við einn launaflokkur fyrir hverjar 60 klst., að hámarki 240 klst. (4 launaflokkar að hámarki). Landvarðaréttindin falla þar inn og eru metin sem 120 klst.
 • Allir fá 3000 kr á mánuði í fatapeninga sem eiga að vera skattfrjálsir og þurfa ekki að skila inn kvittun. Við mælum þó með að geyma kvittanirnar ef að skatturinn óskar eftir þeim við skattframtal. Upphæðin hækkar með vísitölubreytingu.
 • Ferðakostnaður verður áfram greiddur með svipuðu fyrirkomulagi og nú er.
 • Greiddur ferðatími skerðist um ca. helming í akstri að hverri láglendisstarfsstöð (sjá töflu í samningi). Ferðatími frá láglendisstarfsstöð að hálendisstarfsstöð telst sem áður að fullu til vinnutíma.
 • Athugið að sérstök bókun er varðandi starfsfólk á Þingvöllum er varðar ferðatíma í samræmi við núgildandi fyrirkomulag þar.
 • Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2023.
 • Sérstök eingreiðsla, kr. 12.000,-, kemur til greiðslu 1. desember 2022 fyrir það starfsfólk sem er í fullu starfi í nóvember og desember 2022 og hlutfallslega til annars starfsfólks.

Við munum halda fund 16. nóvember kl. 20 til að kynna samninginn nánar og sendum út póst með fundarboði þegar nær dregur. Fundurinn verður bæði fjar- og staðfundur (staðfundur í Guðrúnartúni 1, höfuðstöðvum SGS). 

Endilega hafið samband við okkur, SGS eða stofnanirnar ef þið hafið einhverjar spurningar er varða samninginn.

Fyrir hönd Landvarðafélags Íslands

Kær kveðja,
Nína og Benedikt