Friðland að Fjallabaki fagnaði 40 ára afmæli sínu 13. ágúst og í gær 5. september héldu velunnarar Fjallabaks upp á afmælið með skemmtilegu og áhugaverðu málþingi. Það eru fáir sem efast um fegurð og undur friðlandsins með Landmannalaugar sem sitt helsta kennileiti. Friðlandið er yfir 44.000 hektarar af fjölbreyttu landslagi sem endurspeglar sérstöðu íslenskrar náttúru. Þetta er eitt elsta friðlandið okkar og í aldanna rás hafa íslendingar nýtt sér Fjallabak og það finnst varla sá einstaklingur sem er alin upp við innanlands ferðalög sem hefur ekki komið inn í Landmannalaugar.
Það eru skýr merki um væntumþykju íslendinga og; þá sérstaklega heimamanna, að Fjallabak skuli vera eitt af þeim svæðum sem voru friðlýst einna fyrst. Það ætti því ekki að koma neinum íslending á óvart að Fjallabak er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á hálendinu bæði á sumrin og veturna. Sjálf á ég mínar bestu minningar frá Fjallabaki að vetri. Kyrrðin og fegurðin sem snævi hvít jörðin skapar er ólýsanleg upplifun og ekki er verra þegar norðurljósin skína á meðan legið er í heitri lauginni í Landmannalaugum.
Samkvæmt lagalegri skilgreiningu er friðland stórt svæði til land og/eða sjávar sem nýta skal til verndar, óbreytt eða lítið breytt með náttúrulegum einkennum sínum og áhrifum án varanlegrar eða umtalsverðar búsetu og stjórnað er til að náttúrlegt horf þess varðveitist.
Á þessum 40 árum hefur margt breyst að Fjallabaki, mannlífið, aðstaðan og reglur. Þetta hefur bæði haft jákvæð en því miður einnig neikvæð áhrif á náttúru svæðsins. Það er engin launung að líðandi áratugur hefur verið sérstaklega krefjandi fyrir Fjallabak eins og flestum friðlýstum svæðum landsins. Á sama tíma hefur margt jákvætt gerst í þróun friðlandsins en með auknum fjölda gesta hefur pressan á uppbygginu og verndun aukist. Þessi pressa hefur ekki einungis ýtt undir framfarir heldur einnig aukið samstarfs þeirra aðila sem hafa komið að friðlandinu seinustu ár. En þetta samstarf er lykilinn að góðri framtíð Fjallabaks.
Það er auðvelt að bölva auknum ágangi ferðamanna að Fjallabaki en það er skemmtilegra að gleðjast saman yfir því að fjöldi fólks vilji njóta með okkur. Það þýðir samt einnig að við þurfum að beita ákveðinni stjórnun á nýtingu svæðisins og þá ekki síst nýtingu manneskjunnar sem felst fyrst og fram í því njóta fegurð náttúrunnar. Við verðum að setja reglur, takmarkanir og þora að beita lokunum. Við þurfum að finna milliveg nýtingar og verndunar svo við getum haldið áfram að njóta svæðisins án þess að gestgjafinn okkar, náttúran sjálf hljóti skaða.
Það má vel færa rök fyrir því að svæðið þurfi meiri fjárhagslegan stuðning og enn meiri landvörslu. En svæðið þarf einnig samstöðu allra, ekki bara þeirra sem vilja njóta núna heldur einnig þeirra sem vilja að aðrir njóti seinna. Það þarf samstöðu um að auka virðingu, verndun, uppbyggingu og betra umtal. Við þurfum að hjálpast að við að auka þekkingu allra gesta á viðkvæmni svæðisins sem oft lítur út fyrir að þola meira en það gerir. Það yrði því besta afmælisgjöf til Friðlandsins að Fjallabaki að standa saman að öflugu átak í verndun og uppbyggingu Friðlandsins að Fjallabaki til framtíðar.
Innilega til hamingju Friðland að Fjallabaki megi svæði þitt stækka og náttúra þín dafna áfram um ókomin ár.
Fyrir hönd stjórnar Landvarðafélags Íslands
Anna Þorsteinsdóttir