Þorrabjór og náttúruvernd

Elsku landverðir! Og þið hin líka!

Sumarið er alveg að koma! Ert þú búin(n) að mynda þér skoðun á nýjum miðhálendisþjóðgarði? Veistu eitthvað um þessa þjóðgarðastofnun? Ertu þyrst(ur)? Við þurfum að ræða allt sem er að gerast í náttúruvernd á Íslandi og skála fyrir þorranum í leiðinni.

Landvarðafélagið býður öllum áhugasömum að hittast á Loft hostel fimmtudaginn 7. febrúar. Við munum taka á móti sérfræðingum úr Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í kynningu og spjall á málaflokknum um náttúruvernd í ráðuneytinu. Þetta er kjörið tækifæri að kynna sér það sem er að gerast í umhverfismálum á Íslandi í dag, væta kverkarnar og sýna smá lit í skammdeginu.

Þau Steinar Kaldal, verkefnisstjóri við undirbúningsvinnu við stofnun miðhálendisþjóðgarðs, Guðríður Þorvarðardóttir, sérfræðingur í málefnum friðlýstra svæða, og Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður Umhverfis-og auðlindaráðherra, munu mæta og kynna ýmislegt sem snýr að málaflokknum; átak í friðlýsingum, miðhálendisþjóðgarð, aukinn kraft í landvörslu (tímabundinni og heilsárs), frumvarp til laga um þjóðgarðarstofnun, nýja reglugerð um landverði, fjármögnun málaflokksins og fleira. Endilega mætið og spyrjið þau spjörunum úr.

Happy hour er á barnum frá kl. 16-19!