Fjaðrárgljúfur opnað en enginn heilsárslandvarsla

Göngustígar við Fjaðrárgljúfur fyrir snjókommu, mynd: Hanna Valdís, landvörður, 2019.

Fjaðrárgljúfur opnaði á ný 23. janúar. Landvarðafélagið tekur undir með Sveit­ar­stjórn Skaft­ár­hrepps og vill heilsárslandvörslu á svæðinu.

Göngustígar við Fjaðrárgljúfur í janúar 2019 fyrir snjó, Fanney Gunnarsdóttir, landvörður.

 

Landvarsla þörf allt árið

Sveitastjórn Skaftárhrepps harmar þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að hafa ekki landvörð við Fjaðrárgljúfur frá áramótum og fram á sumar. En í janúar 2018 kom fram á síðu Umhverfisstofnunar að þörfin á landvörslu á þessum tíma væri mikil í Fjaðrárgljúfri eins og annars staðar á landinu. Það er því einkennileg ákvörðun hjá Umhverfisstofnun að ljúka landvörslu á svæðinu 31. desember 2018 í stað þess að hafa landvörð allt árið.

Fjaðrárgljúfur er með vinsælustu ferðamannastöðum á suðurlandi og hefur Sveitastjórn Skaftárhrepps ítrekað beðið um heilsárslandvörslu á svæðinu. Árið 2017 komu 282.423 gestir í Fjaðrárglúfur og álíka fjöldi virðist hafa komið árið 2018. Þörfin fyrir heilsárslandvörslu er því mikil á svæðinu og tekur Landvarðafélagið undir það.

 

Ábyrgð ferðafólks og lokanir

Vissulega er erfitt er að halda göngustígum góðum þegar frost og þíða er til skiptis og stígurinn verður að drullu. Ferðafólk tekur þá upp á því að traðka út fyrir stígana til að sleppa við bleytuna sem stækkar þá stígana með tilheyrandi gróðurskemmdum. Á Íslandi eru þessar aðstæður óhjákvæmilegar á hverju ári og því þurfum við að vera viðbúin. Það þekkst til að mynda erlendis að ákveðum stígum er ávallt lokað þegar frost er að fara úr jörðu. Með heilsárslandvörslu er hægt að vakta svæði, byggja upp þekkingu á aðstæðum, leiðbeina ferðafólki og grípa inn í með aðgerðum áður en skemmdir eru orðnar of miklar.

Ábyrgð ferðafólks og ferðaþjónustu er hins vegar mikil gagnvart landinu og það skiptir máli að meta aðstæður og setja náttúruna í fyrsta sætið. Það þarf að skipuleggja sig og t.d. með plan b hvort sem að landvörður sé á svæðinu eða ekki.

 

Sameiginleg stofnun fyrir náttúruvernd

En Fjaðrárglúfur getur einnig verið dæmi um það hvernig sameiginleg Þjóðgarðstofnun gæti bætt landvörslu, náttúruvernd og mögulega nýtt fjármagn betur. Umhverfisstofnun hefur séð um landvörslu í Fjaðrárgljúfri frá lok maí 2017 sem lauk núna 31. Desember 2018 en í um það bil 10 km fjarlægð frá svæðinu er starfsfólk allt árið í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Instagram stjarna

Fjaðrárgljúfur er gott dæmi þar sem náttúruvernd og samfélagsmiðlar lenda saman. En svæðið má kalla eina helstu instagram stjörnu landsins. Það var t.d. gífurleg aukning á gestum í gljúfrið þegar heimsþekktur söngvari setti inn mynd af sér að busla í gljúfrinu á samfélagsmiðlinum Instagram árið 2015. En meðalfjöldi bifreiða á dag var um 160 árið 2015 en seinasta ár var talan komin upp í 435. (talningar, Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir).

Það er því augljóst að það þýðir ekki aðeins að ganga á merktum stígum, tína og taka upp rusl heldur þarf líka að iðka náttúruvernd á samfélagsmiðlum. Til dæmis með því að auglýsa ekki staði sem þola ekki ágang og sýna frumleika með því að hætta að reyna ná sömu myndinni og allir hinir og traðka þar af leiðandi niður sama staðinn. Frekar má nýta tækifærið og láta boðskap um náttúruvernd fylgja myndum.

 

Stefanía Ragnarsdóttir

Formaður Landvarðafélags Íslands