MÍN SKOÐUN
Upphaflega birt í fréttabréfinu Ýli í október 2002.
Landverðir hafa stundum rætt það sína á milli að bæta þyrfti ímynd þeirra, jafnvel að þörf sé á auglýsingaherferð í þeim tilgangi. En hafa landverðir slæma ímynd, eða er það einhver klisja sem þeir eru sjálfir duglegastir að viðhalda? Sé þessi slæma ímynd hinsvegar til staðar, hvað er það þá sem veldur?
Síðastliðið vor höfðu landverðir á Þingvöllum afskipti af nokkrum flugköppum sem lentu fisum sínum hér á tjaldsvæðinu. Kapparnir vildu meina að þeir mættu lenda hvar sem er á slíkum farkostum en landverðir bentu á að um vélknúna flugdreka giltu ákvæði flugreglna (F 2-1. Nr. 578/2001). Af þessu spratt nokkur rekistefna, ekki síst vegna aðvífandi gesta sem tóku óumbeðið þátt, flestir þeirrar skoðunar að landverðir tækju „of hart” á málinu…. Lítið dæmi um aðstæður sem við þekkjum öll, þó kveikjan geti verið mismunandi. Spurningin er, spilla svona uppákomur ímynd landvarða?
Sömu landverðir og tóku á fluguppákomunni höfðu fyrr um daginn tekið á móti hópum grunnskólanemenda og frætt þá um náttúru og sögu staðarins. Einnig farið í gönguferð með erlenda gesti um þinghelgina og áttu síðan eftir að taka á móti leikskólabörnum og foreldrum þeirra sem þeir ætluðu með í stutta gönguferð og náttúruleiki…. Sama spurning, eru það svona móttökur sem spilla ímynd landvarða?
Landverðir inna af hendi ótal verkefni á hverjum degi. Í skipulagðri fræðsludagskrá, þrifum, rukkun á gistigjöldum, upplýsingagjöf á skrifstofu og á förnum vegi, margs konar aðstoð og reddingum við gesti og gangandi, viðhaldi ofl. ofl…. Er það e.t.v. eitthvað af þessu sem kemur vondri ímynd á landverði?
Eru þetta ekki bara dæmi um landverði að vinna vinnuna sína? Þarf nokkuð meira til? Er ekki nóg að við tökum starf okkar alvarlega og vinnum af fagmennsku? Ruglum t.d. ekki saman okkar prívat persónu og þeirri sem kemur fram fyrir hönd stofnunarinnar sem unnið er fyrir. Það er mín skoðun að ekki sé nein þörf á að landverðir fari út í sérstaka herferð til að auglýsa ímynd sína. Þeir sjá alveg um það sjálfir með gjörðum sínum.
Guðrún St. Kristinsdóttir, Þingvöllum