Stjórnarfundur LÍ 30. mars 2008

Stjórnarfundur Landvarðafélags Íslands 30.mars 2008 kl. 14
Fundarstaður: Lækjarbrekka
Mætt: Aurora Friðriksdóttir, Ásta Kristín Davíðsdóttir, Ásta Rut Hjartardóttir, Elías Már Guðbrandsson og Þórunn Sigþórsdóttir

Helstu mál

1.  Skoskir landverðir á ferð til Íslands
Eins og greint hefur verið frá í fyrri fundargerðum ætla skoskir landverðir að heimsækja okkur næsta sumar.  Eitthvað hefur framkvæmd þessarar ferðar verið á reiki, Skotarnir voru með áætlanir um að mæta með sjálfboðaliða, en það virðist ekki standa til lengur.  Samkvæmt nýjustu fréttum ætla sex Skotar að koma eftir miðjan ágúst.  

2.  Heimsþing landvarða í Bólivíu/Argentínu
Heimsþingið á að halda í mars 2009.  Vegna ótryggra aðstæðna í Bólivíu getur hins vegar verið að þingið verði ekki haldið þar, heldur í Argentínu.  Líklega verður komið í ljós í enda apríl hvort landið verður fyrir valinu.

3.  Skrif í fréttabréf bresku landvarðasamtakanna
Fulltrúi bresku landvarðasamtakanna hefur óskað eftir því að fá senda grein um landvörslu á Íslandi í fréttabréf sitt.  Ásta Rut mun hugsanlega taka þetta að sér.

4.  Umhverfisstofnun
Ólafur A. Jónsson hjá UST hefur óskað eftir fundi með stjórn LÍ, þann 14. apríl kl. 13, og munu fulltrúar stjórnar mæta þá.

5.  Sameining nefnda?
Sú tillaga kom fram að sameina laganefnd og kjaranefnd.  Ákveðið var að leggja þessa tillögu fyrir aðalfund.

6.  Aðalfundur LÍ
Aðalfundur Landvarðafélagsins verður haldinn 31. mars kl. 19 í Litlu brekku við Lækjarbrekku.  Friðrik Dagur Arnarsson verður fundarstjóri, en á fundinn mæta bæði umsjónarmaður landvörslu hjá Umhverfisstofnun, Ólafur Arnar Jónsson, og framkvæmdastjóri hins nýstofnaða Vatnajökulsþjóðgarðs, Þórður H. Ólafsson og munu þeir fræða landverði um stöðu mála hjá sínum stofnunum.  

7.  Fjármál félagsins
Aurora, gjaldkeri félagsins, fór yfir bókhald félagsins.  Í fyrra greiddu 87 manns félagsgjöldin.  Í árslok var inneign félagsins 276.000 kr. en mestur kostnaður fór í alþjóðasamskipti, vegna ferðalaga erlendis.  Ekki hefur þó enn fengist greiddur styrkur frá Norrænu ráðherranefndinni vegna ferðar tveggja fulltrúa stjórnar til Danmerkur á ársþing danskra landvarða, kr. 60.000.  Líkur eru þó til þess að hann fáist greiddur.  

8.  Starfsreglur vegna styrkja
Rætt var um að setja þyrfti starfsreglur vegna styrkja sem félagið aflar.  Til dæmis þarf að tryggja að allir hlutaðeigandi aðilar, stjórn, nefndir og aðrir sem koma að styrkjasöfnun viti hvað hinir eru að gera, svo tvíverknaður eigi sér ekki stað.  Einnig þarf að vera á hreinu hver á að sjá um hvað í þessum efnum.  

Fundi slitið um kl. 16

Ritari:
Ásta Rut