Stjórnarfundur LÍ 11. febrúar 2007

Stjórnarfundur sunnudaginn 11.febrúar 2007 kl. 13:30

Mætt:  Aurora Friðriksdóttir, Ásta Kristín Davíðsdóttir, Ásta Rut Hjartardóttir, Elías Már Guðbrandsson og Þórunn Sigþórsdóttir.

Helstu mál:

1. Fundagerð síðasta aðalfundar
Elísabet Kristjánsdóttir, fyrrverandi formaður LÍ fann fundargerðina heima hjá sér og kom henni á tölvutækt form.  Þórunn hafði sent stjórninni skjalið og var það rætt á fundinum.  Ákveðið var að setja hana á netið.

2. Netföng félagsmanna
Nokkuð hefur verið um það að tölvupóstar frá félaginu hafi komið til baka, þar sem póstföngin eru óvirk.  Senda á tölvupóst á öll póstföng og óska eftir svari, eða að senda hann með þeim formerkjum að póstur sendist sjálfkrafa til baka þegar hann er opnaður.

3. Skýrsla Jóhönnu Katrínar og Rebekku
Rætt var stuttlega um skýrsluna sem þær sömdu eftir ráðstefnuferð þeirra til Noregs.

4. Námskeið í náttúrutúlkun í Danmörku í júní
Þó nokkrir eru nú þegar búnir að skrá sig í ferðina og lítur út fyrir að það sé talsverð stemning fyrir henni.  Rætt var stuttlega um það hvernig skipulagningin á henni gengi og hvar væri best að óska eftir styrkjum vegna námskeiðsins.

5. Skotar á ferðalagi til Íslands
Rætt var stuttlega um stöðu mála varðandi skoska landverði sem hyggja á ferðalag um Ísland í lok júlí/byrjun ágúst.  Stefnt er að því að senda fulltrúa frá LÍ með í ferðina, enda er nauðsynlegt að viðhalda þeim tengslum sem náðst hafa við Skosku landvarðasamtökin.

6. Ráðstefna í Danmörku í apríl
Fulltrúar frá öllum hinum Norðurlöndunum mæta á þessa ráðstefnu, en þarna gefst frábært tækifæri til að auka samvinnuna á milli landvarðasamtaka á Norðurlöndum, enda er það tilgangurinn með ráðstefnunni.  Stjórn LÍ þykir nauðsynlegt að félagið taki þátt í þessu, enda geta mikil tækifæri verið falin í þessu. 
Ákveðið var að stefna að því að senda Auróru og Þórunni á þessa ráðstefnu.  Reynt verður að finna styrki fyrir þær.  Boðinu á ráðstefnuna fylgdu þó einhverjir styrkir fyrir einn fulltrúa.  Stjórnin telur þó að meira geti áunnist með ráðstefnunni fyrir LÍ ef tveir fulltrúar séu sendir, enda hefur það oft reynst betur.

7. Aðalfundur
Ákveðið var að stefna að því að hafa fundinn þriðjudaginn 27. mars 2007.  Athuga á hvort Litlabrekka sé ekki laus þann dag.  Rætt var um að gaman gæti verið að fá nýjan forstjóra Umhverfisstofnunar til að halda stutt erindi.  Einnig var rætt um að áhugavert gæti verið að fá umhverfisráðherra til að halda erindi.

8. Ritstjórn Ýlis
Ekki hefur tekist að finna ritstjórn að Ýli, þrátt fyrir að auglýst hafi verið eftir fólki í ritstjórnina.  Ákveðið var að stjórnin myndi taka að sér að skrifa næsta Ýli, sem þá ætti að koma út sem fyrst.  Einnig var rætt um það hvort stjórnin ætti hreinlega að taka alfarið að sér ritstjórn Ýlis.  Stjórnarmeðlimir tóku ágætlega í það.

9. Fjöldi nefnda í LÍ
Rætt var um það hvort nefndir í LÍ séu of margar miðað við það hve lítið félagið er.  Illa hefur gengið að manna í nefndirnar og eru oft sömu aðilar í nokkrum nefndum.  Því spunnust umræður um það hvort það megi sameina einhverjar nefndir og fækka þeim þannig.

10. Málbeinið
Málbeinið, spjallsíðan á landverdir.is virðist vera að lognast út af.  Rætt var um það að hafa samband við nokkra landverði sem áhuga gætu haft á að lífga það við.  Ef okkur tækist að fá líf í Málbeinið, mætti þá senda upplýsingar um lykilorð á alla félagsmenn.  Það er hins vegar ljóst að það væri líklegast gagnlaust ef síðustu umræður eru ársgamlar.  Því er nauðsynlegt að fá nokkra áhugasama landverði í það að hefja lífgunartilraunir á Málbeininu, enda súrt ef þessi mikilvægi vettvangur til umræðna lognast út af.

Fundi slitið um kl. 15

Ritari: Ásta Ru