Stjórnarfundur 9. maí 2005 kl. 18:00 (2. fundur)

Fundarstaður: Litli ljóti andarunginn, Lækjargötu. 
Mætt: Ásta Rut Hjartardóttir, Elísabet Svava Kristjánsdóttir, Áki Jónsson, Þórunn Sigþórsdóttir og Dagmar Sævaldsdóttir.

Dagskrá og umræður:

 1. Trúnaðarmenn fyrir árið 2005-2006. Tillögur voru settar fram um hugsanlega trúnaðarmenn, stjórnarmeðlimir settir í það að hafa samband við þá til að athuga hvort þeir hafi áhuga.
 2. Skiptilandvörður kemur – móttaka. Skiptilandvörður mun koma frá Skotlandi seinni part júnímánaðar og mun starfa í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli í sumar. Þórunn ætlar að sjá um að vel verði tekið á móti landverðinum. Gert er ráð fyrir að farið verði með landverðinum í dagsferð, þannig að hún fái að sjá örlítið af landinu góða.
 3. Gjaldkeramál (varðar m.a. ógreidda gíróseðla). Farið var yfir lista af félögum sem ekki höfðu greitt félagsgjöldin í eitt eða tvö ár. Ákveðið var að senda þeim sem ekki hafa borgað í eitt ár gíróseðil, en þeim sem ekki hafa borgað í 2 ár bréf svo þeir fái tækifæri til að borga, annars detta þeir af félagaskrá.
  Afgangur varð af styrkjum sem fengust í fræðsluferð tveggja landvarða til Noregs. Þessi peningur verður settur í sérstakan ferðasjóð, sem getur styrkt álíka ferðir síðar. Einnig kom sú tillaga fram að senda þeim sem styrktu ferðina einhvers konar skýrslu um ferðina.
 4. Fólk í náttúruverndar- og umhverfisnefnd félagsins. Rætt um mannaval í nefndina. Hrafnhildur Hannesdóttir hefur samþykkt að ganga í nefndina og verið er að athuga með fleiri hugsanlega meðlimi.
 5. Niðurskurður Landvarða vikna sumarið 2005. Ljóst er að gífurlega mikið hefur verið skorið niður af fjármagni til landvörslu fyrir sumarið. Elísabet kom með samantekt um niðurskurð í sumar miðað við sumarið 2004 er hann eftirfarandi:

  Herðubreiðarlindir-Askja: -9 vikur
  Skaftafellsþjóðgarður (ásamt Lónsöræfum og Lakagígum): -14 vikur
  Vatnsfjörður: -3 vikur
  Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull: -9 vikur
  Hvannalindir: -1 vika
  Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum: -16 vikur

  Samtals gerir þetta því niðurskurð um heilar 52 vikur, sem er gríðarlega mikið ef litið er til þess að þetta nær aðeins yfir sumartímann. Niðurskurðinum í Skaftafelli verður mætt á þann veg að nýráðnir heilsárslandverðir/sérfræðingar (Helga og Kári) verða í Lónsöræfum og Lakagígum. Rætt var um hversu frábær þróun það er að heilsárslandvörðum fer fjölgandi og svo sannarlega er þörf á fleiri slíkum, eins og t.d. á okkar fjölsótta ferðamannastað Mývatni. Félagið vonaðist þó eftir að störf þeirra allt árið myndu bætast ofaná þær landvörsluvikur sem fyrir eru. Í Jökulsárgljúfrum verður niðurskurðinum mætt m.a. með því að stytta tímabil starfsmanna í báða enda en sami fjöldi landvarða verður að störfum yfir háannatímann.
  Í þjóðgarðinum Snæfellsjökli mun þjóðgarðsvörðurinn sjálfur vera töluvert í gestastofunni til að fylla upp í vaktir, auk þess sem fræðslugöngur verða eitthvað skertar. Í Herðubreiðarlindum og Öskju kemur niðurskurðurinn sérlega illa út. Þar verða málin leyst á þann hátt að ekki verður opnað fyrir umferð um svæðið fyrr en 24. júní þegar fyrsti landvörðurinn mætir, en síðasti vörður fer af svæðinu 28. ágúst. Það er ljóst að þar sem landverðir hafa verið tveir á hvorum stað verða lengri tímabil þar sem landvörður er einn á staðnum nú í sumar. Það verður því erfitt um vik fyrir landverðina á þessu svæði að sinna eftirliti og fræðslu eins og vera ber.
  Rætt var um það hvernig L.Í. getur brugðist við. Stjórn L.Í. fundaði m.a. um þennan niðurskurð með UST fyrir ekki löngu og komu þar fram skýringar á niðurskurðinum sem félagið átti erfitt með að sætta sig við. Þrátt fyrir að stjórnin legði sig alla fram um að skilja stöðu mála ber okkur að standa vörð um mál sem þetta. Því var ákveðið að best væri að fá ítarlegri skýringar frá UST um niðurskurðinn skriflega svo félagið geti betur áttað sig á því hvar og hvernig best sé að beita sér gegn þessum niðurskurði.

 6. Tillaga frá félagsmönnum um fánadaginn 19. júlí. Tillaga frá nokkrum félagsmönnum rædd um að L.Í. myndi sjálft standa að flöggun í hálfa stöng þann 19.júlí og fá fleiri náttúruverndarfélög í lið með sér. Þessi tillaga var samþykkt.
 7. Önnur mál.
  Landvarðahornið: Undanfarin sumur hefur landvarðahornið átt fastan sess á Rás 2. Ekki lítur út fyrir að nein breyting verði á þessu í sumar, enda tók umsjónarkona landvarðahornsins vel í að halda áfram með landvarðahornið í sumar. Landvarðahornið hefur venjulega byrjað í júní. Þess vegna þarf nú að fara að ákveða hverjir ættu að vera í landvarðahorninu og hvenær. Rætt var um að athuga hvenær athyglisverðir atburðir verða á svæðunum, þannig að landvarðahornið gæti tengst því.

Fundi slitið 19:50.
Ritari: Ásta Rut