Fundur UST og LÍ 31. mars 2005 kl. 16:00

Mættir
LÍ: Áki Jónsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Elísabet Kristjánsdóttir, Friðrik Dagur Arnarsson, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir.
UST: Árni Bragason, Davíð Egilsson, Trausti Baldurson, Þórey Guðmundsdóttir

1. Landvarðanámskeið
Samþykkt var að skipa vinnuhóp með fulltrúum UST, LÍ og Þingvallaþjóðgarði til að vinna að breytingum á landvarðanámskeiði. Gefin var 1 vika til að tilnefna fulltrúa í vinnuhópinn og lagt til að vinna fari í gang sem fyrst. Landvarðanámskeið í vor fellur hins vegar niður.
Ástæður þess að UST vill breyta landvarðanámskeiðinu eru hagræðingar, en það mun nánar skýrast í vinnu nefndarinnar.

2. Símenntun landvarða
Elisabet lýsti yfir ánægju með það að UST hafi farið í samstarf við Leiðsögumanna-skólann varðandi þau námskeið sem þar hafa verið haldin þessa önnina, en taldi einnig að nauðsynlegt væri að haldin væru námskeið sem væru sniðin sérstaklega að landvörðum og þeirra svæðum og einnig að hafa verklegan hluta t.d. í náttúrutúlkun. Friðrik Dagur benti á að frá TÓPAS verkefninu séu til mörg góð verkefni sem mætti nýta í námskeið fyrir landverði. Ákveðið var að þetta yrði einnig viðfangsefni vinnuhópsins sem verður stofnsettur í tengslum við landvarðanámskeiðið. 
Jafnframt benti Elísabet á að þessi háttur á endurmenntunarnámskeiði hefði komið stjórn félagsins nokkuð á óvart og að ekkert samráð skyldi vera haft á þessu breytta fyrirkomulagi við landverði sjálfa. Árni sagði að þetta hafi verið góð lausn í fjárhagsvandanum og tekist hefðu upp góðir samningar við Ferðamálaskólann og þetta borið brátt að. En Árni viðurkenndi jafnframt að það hefði mátt vera meira samráð um þetta endurmenntunarnámskeið við landverði. En þess skal getið hér að þetta breytta fyrirkomulag var ekkert kynnt fyrir stjórn félagsins áður en það var auglýst. Þetta var ekkert rætt frekar þar sem þegar var ákveðið að fyrirhuguð nefnd tæki þetta fyrir.

3. Skyndihjálparnámskeið og öryggismál
Rætt var um það hversu slæmt það var að skyndihjálparnámskeið hafi fallið niður í fyrra. UST stefnir að þvi að halda slíkt námskeið um miðjan maí nú í vor. Öryggismál verða bætt með því að talstöð verður sett í Hvannalindir og fleiri handstöðvar í Jökulsárgljúfur.

4. Niðurskurður á landvörslu
Það er ljóst að niðurskurður á landvörslu kemur sér afar illa og er erfiður í framkvæmd. Heilsársstarfsmenn koma til með að fara inn í vaktaskipulag landvarða til að þetta geti gengið upp, þannig tapast þó stöðugildi heilsársstarfsmanna yfir sumarið. Rætt var um nauðsyn þess að þessi staða komi ekki upp aftur og hvernig mætti fara að því.  Einnig rætt um að nauðsyn væri til að fjölga frekar landvörðum frá því sem var árið 2004, t.d. þyrfti að lengja landvörslutímabilið á Fjallabaki. 
Fyrsti landvörður mun fara inn í Herðubreiðarlindir og Öskju 24.júní og 25.júní mun fyrsti landvörður fara inn í Hvannalindir. Í Öskju munu félagar í Ferðafélagi Akureyrar sjá um skálana í Dreka til 10.júlí.  Þeir munu einnig hafa sér skálavörð í nýja skálanum yfir hásumarið. Þórey fór yfir landvarðavikurnar og fékk stjórnin sent samanburð frá fyrri árum bæði varðandi sumarlandvörslu og fyrir allt árið. Elísabet kom með spurningu í lok umræðunnar um það hvernig ætti að koma í veg fyrir slíkan niðurskurð að ári. UST (Árni og Þórey ) sögðu ákveðið að þegar væri byrjað að vinna í þeim málum.

5. Önnur mál
Akstur utan vega: Ljóst er að akstur utan vega er mikið vandamál og jafnvel vaxandi þar sem innflutningur á torfæruhjólum virðist hafa aukist mjög mikið. Árni nefndi að nú er verið að vinna að mörgum leiðum til að minnka utanvegaakstur. Málþing á vegum UST og Landverndar verður haldið þann 16. apríl um akstur utan vega. Verið er að gefa út kort að frumkvæði Þórhalls Þorsteinssonar formanns Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, með einföldum skilaboðum um akstur utan vega sem á að dreifa í upplýsingamiðstöðvar og jeppa frá bílaleigum. Fræðslumynd frá Umferðarstofu verður sýnd í Norrænu og flugvélum á leið til Íslands, límmiðar með skilaboðum um utanvegaakstur verða settir í jeppa frá bílaleigum og einnig er verið að vinna að betri upplýsingum um hálendisvegina (einhverskonar skýrsla eða rannsókn). Þetta allt á að verða til þess að mönnum sé það ljóst að ef þeir aka utanvega á Íslandi, þá séu þeir að brjóta íslensk lög. 
Jóhanna Katrín benti á að það gæti verið gott að efna til kynningarfundar með land- og skálavörðum hálendisins um það hvað má og hvað má ekki í akstri á hálendinu. Fulltrúar UST tóku vel í þetta. Einnig var rætt almennt um akstur fjórhjóla og mótorhjóla á hálendinu.

Heilsárslandvörður í Mývatnssveit: Elísabet kom með fyrirspurn til UST um það af hverju enn væri ekki komin heilsárslandvörður í Mývatnssveit. Hún sagði að sér lægi forvitni á að vita þetta í ljósi þess að í fundarskýrslum frá árinu 2001 með landvörðum hefði UST sagt að það væru forgangsmál. En stuttu síðar eru ráðnir þrír sérfræðingar (heilsárslandverðir í Skaftafell, Snæfellsnes og Jökulsárgljúfur). Punkturinn var af hverju hinir staðirnir hefðu verið svo skyndilega settir í forgang þvert ofaní það sem áður hafði verið talað um. Árni nefndi að ekki hafi komið til fjárveiting til þess að fá heilsárslandvörð í Mývatnssveit þó að mikið hafi verið reynt og peningar fyrir hinum heilsársstöðunum hafi verið eyrnamerktir þeim stöðum. Það kom til tals að þetta væri töluverð pólitík í þessu. Engin almennileg niðurstaða eða útskýring fékkst við þessu önnur en hér er komin fram.

Föt landvarða: Jóhanna Katrín vildi fá að vita hvort föt landvarða yrðu endurnýjuð. Árni sagði að ekki væri til peningur til þess.

Ferðalög UST: Friðrik Dagur spurði hvort að stefnt væri að því að fulltrúar UST færu út á land og heimsæktu svæðin. Svarað var að UST stefnir að því.

Fundi slitið um kl. 17:30
Ritari:  Ásta Rut