Haldinn að Lynghaga 4, mánudaginn 26. maí 2003 kl. 20:00. Mættir voru: Formaður vor Kristín, Sveinn og Elísabet.
Umræðuefni fundarins voru eftirfarandi:
Ýlir, næsta fréttabréf landvarða (maí-júní)
Tillögur að efni í næsta fréttabréfi komu frá Sveini, sem einnig er starfandi í ritnefnd ásamt Arnheiði. Meðal efnis sem til greina kemur: Ávarp eða hugvekja ritnefndar sem Arnheiður mun að öllum líkindum sjá um, um landvarðaskipti 2003 skrifa Hildur og/eða Glóey, Kristín formaður tók að sér að skrifa tvær greinar, um nýja skilgreiningu UST á starfsstöðvum landvarða og um drögin að nýju náttúruverndaráætluninni, Sveinn tók að sér að gera útdrátt úr fundargerð aðalfundarins og kynna um leið hverjir sitja í stjórn og nefndum LÍ, stjórnin í sameiningu mun svo skrifa grein um trúnaðarmenn og þeirra hlutverk. Ef allt þetta gengur eftir verður fréttabréfið efnismikið og fróðlegt í upphafi sumars.
Framhaldsaðalfundur
Skipulag framhaldsfundar var rætt. Fundurinn er upphaflega ætlaður til þess að ljúka bókhaldsþætti fráfarandi stjórnar. Hins vegar verður tækifærið notað og breyting á skýrslu lögð fyrir af fráfarandi formanni Hildi Þórsd., kynnt verður á ný fólk í nefndum, trúnaðarmenn og gjaldkeraefnið vonandi þá fundið. Einnig höfum við í hyggju að ræða hvernig skilja megi „sérfræðingastöðurnar“ í þjóðgörðunum ögn betur. Stungið var uppá Helgu Einars. sem hugsanlegum fundarstjóra, verður því hringt í hana.
Eftirfylgni við ályktanir aðalfundar
Á fundinum var rætt um ályktanirnar þrjár sem samþykktar voru á aðalfundinum og ætlaði Kristín að ganga í það mál, þ.e. að sjá til þess að UST fái ályktanirnar í hendur þar sem þær snúa allar að stofnuninni.
Trúnaðarmenn landvarða fyrir 2003
Enn hafa ekki fundist trúnaðarmenn fyrir 2003 en það er í vinnslu. Lagt var til á fundinum að Kristín fái lista hjá UST yfir starfandi landverði svo hægt sé að tilnefna tvo trúnaðarmenn sem fyrst. En þess má geta að trúnaðarmenn verða að vera starfandi landverðir. Sú spurning kom upp hvort sérfræðingar sem starfa í þjóðgörðunum geti gegnt starfi trúnaðarmanns ef vill, þó svo að þeir séu ekki undir landvarðartitlinum (ef þeir eru í landvarðafélaginu). Þetta verður hugsanlega rætt við UST og á framhaldsfundinum undir „önnur mál“.
Nýr gjaldkeri
Á fundinum átti að bera það undir Steinunni Hannesdóttur hvort hún væri fús að taka að sér stöðu gjaldkera innan félagsins, en hún sá sér ekki fært að mæta. Fundarmenn lögðu því til við Svein að hann tæki að sér gjaldkerastöðuna og féllst hann á það, enda vanur slíkum málum.
Skipulagsbreytingar UST
Fundur verður á morgun, 27.maí, með UST til að ná fram endanlegri niðurstöðu vegna fyrirhugaðrar kjaraskerðingar hvað varðar ferðakostnað landvarða (sbr. skýrslu frá aðalfundi 2003). Kristín mun ásamt Hildi og fulltrúa verkalýðsfélags okkar ganga frá því máli.
Félagsleg deyfð í félaginu
Varðandi þá deyfð sem borið hefur á í félaginu og sýnir sig helst í lélegri mætingu á samkomur og fundi félagsins var reynt að leita lausna. Tillögur:
- Birta skýrslu stjórnar á heimasíðu LÍ, það gæti fært félagsmenn nær starfinu og gæti virkað áhugahvetjandi fyrir marga. Landvörðum sem ekki eru í starfi gefst þá kostur á að fylgjast betur með gangi mála í félaginu.
- Stjórnin var sammála um nauðsyn þess að höfða á einhvern hátt betur til eldri landvarða eða þeirra sem ekki væru starfandi, þannig að þeir væru virkir félagar þó svo að þeir væru ekki starfandi.
- Rætt var um fyrirkomulag haustferðarinnar og sú hugmynd kom upp að stytta ferðina. Hafa ekki innifalda gistingu heldur láta hana spanna einn dag. Það er fjölskylduvænna og líklegra að fleiri skrái sig og sjái sér fært að mæta.
- Á aðalfundinum kom fram að það gæti verið spennandi nýbreytni að efna til sameiginlegs myndakvölds landvarða. Gamlir sem nýjir landverðir kæmu þá saman með myndirnar sínar, í albúmi, á stafrænu formi, myndbandi eða skyggnum og sýndu hver öðrum. Þessa hugmynd ætlar stjórnin að varðveita og leggja til við fræðslu- og skemmtinefnd að verði hrint í framkvæmd.
Við nánari skoðun á lagabreytingm samkvæmt fundargerð aðalfundar komu í ljós vafaatriði sem ákveðið var að reyna að fá botn í á væntanlegum framhaldsaðalfundi.
Atburðaalmanak og vinnutilhögun stjórnar
Þessi liður lýtur að vinnuskipulagi stjórnar og nefnda innan félagsins. Mættir stjórnarmenn voru einróma um að halda þyrfti stjórnarfundi reglulega einu sinni í mánuði á vissum degi sem væri fastur í upphafi hvers mánaðar. Þannig ættu allir meðlimir að geta skipulagt tíma sinn og líklegra að fólk sjái sér fært að mæta. Þetta getur einnig komið sér vel fyrir félagsmenn, þar sem stjórnin kemur til með að upplýsa alla félagsmenn um það hvenær stjórnarfundir verða haldnir, þá geta þeir skotið málum sem upp koma til stjórnar fyrir fundinn.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið.
Ritari fundarins: Elísabet Kristjánsdóttir